07/08. tbl. 98.árg. 2012

Umræða og fréttir

Að læra að nota þekkingu sína. Móttaka nýútskrifaðra læknakandídata

Það var hátíðleg stund í sal Læknafélags Íslands við Hlíðasmára nú nýverið þegar nýútskrifaðir læknakandídatar voru formlega boðnir velkomnir í Læknafélag Íslands.

u06-fig1
Frá móttöku nýkandídata í Hlíðasmáranum, lengst til vinstri er Þorbjörn Jónsson formaður 
Læknafélags Íslands sem tók á móti hópnum.


Þorbjörn Jónsson formaður Læknafélags Íslands bauð kandídatana velkomna, en auk hans ávörpuðu hópinn Guðmundur Þorgeirsson prófessor og forseti læknadeildar Háskóla Íslands, Lilja Sigrún Jónsdóttir formaður Félags kvenna í læknastétt og Sigurður Guðmundsson fyrrverandi landlæknir og forseti heilbrigðissviðs Háskóla Íslands.

u06-fig3
Helga Kristín Mogensen skrifar undir læknaeiðinn.

Um eða yfir helmingur hópsins sem útskrifast hafa undanfarin ár úr læknadeild Háskóla Íslands eru konur og Lilja minnti þær konur sem voru að útskrifast nú á að fyrsta konan sem útskrifaðist frá Háskóla Íslands lauk einmitt prófi í læknisfræði, Kristín Ólafsdóttir, árið 1917. Sigurður sagði í ræðu sinni að nú stæðu kandídatarnir á hátindi þekkingar sinnar en það sem eftir væri ævinnar myndu þeir læra að nýta þessa þekkingu. Hann minnti þá á að gera það án þess að láta hana stíga sér til höfuðs.

u06-fig2
Hetorð lækna - Hippókratesareiðurinn.

Eftir að kandídatarnir höfðu notið veitinga og hlýtt á árnaðaróskir og hvetjandi ávörp skrifuðu þeir undir heitorð lækna, Hippókratesareiðinn, í virðulega bók sem geymir nöfn kynslóða lækna.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica