07/08. tbl. 98.árg. 2012

Ritstjórnargrein

Starfsendurhæfingarsjóðir og atvinnutengd starfsendurhæfing

Þorbjörn Jónsson sérfræðingur í ónæmisfræði og blóðgjafarfræði og formaður LÍ

doi: 10.17992/lbl.2012.0708.442

Í maí síðastliðnum mælti velferðarráðherra fyrir frumvarpi til laga um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Málið er afar viðamikið og um háar fjárhæðir að tefla. Þess vegna er mikilvægt að vandað sé til innihalds og allra vinnubragða við undirbúninginn. Mikill flýtir hefur hefur hins verið á vinnslu þessa máls og vekur það furðu þegar um svo stórt mál er að ræða. Læknar og fjöldamargir aðrir hafa komið á framfæri athugasemdum sínum við frumvarpið og verða nokkrar þeirra reifaðar hér.

Með frumvarpi til laga um starfsendurhæfingarsjóði og atvinnutengda starfsendurhæfingu var stefnt að því að koma á fót nýju kerfi sem lyti í raun stjórn atvinnulífsins. Kerfið mun því ekki lúta samskonar stýringu og aðrir hlutar heilbrigðiskerfis landsmanna. Það er mikilvægt að gæta þess að til verði heildstæð starfsendurhæfing á Íslandi en ekki tvöfalt kerfi, nýtt kerfi til hliðar við þá starfsemi sem fyrir hefur verið. Af slíku getur hlotist ómarkviss ráðstöfun fjármuna auk þess sem hætta getur verið á því að einstaklingar lendi utan kerfisins. Þess vegna er nauðsynlegt að skilgreina nákvæmlega hvernig samspil hins nýja starfsendurhæfingarkerfis og hefðbundinnar læknisfræðilegrar endurhæfingar á að vera. Sérstaklega verður að gæta að því að nýja starfsendurhæfingarkerfið drepi ekki niður eldri starfsemi á þessu sviði sem sannað hefur gildi sitt.  

Til starfsendurhæfingarsjóðanna munu renna mjög miklir fjármunir á ári hverju. Það er því eðlilegt að spurt sé hvort öruggt sé að um skynsamlega ráðstöfun á fjármunum sé að ræða fyrir þjóðfélagið, á sama tíma og stöðugur niðurskurður hefur verið í fjárveitingum til bæði heilbrigðis- og velferðarmála. Svarið við þeirri spurningu mun tíminn einn leiða í ljós. Íslendingar þekkja það vel á eigin skinni að þjónusta heilsugæslustöðva, sjúkrahúsa og annarra heilbrigðisstofnana hefur farið minnkandi ár frá ári eftir efnahagshrunið 2008 vegna sparnaðar. Það er því grundvallarkrafa að tryggt sé að þeim fjármunum sem til nýja starfsendurhæfingarkerfisins renna sé faglega ráðstafað. Það verður hins vegar ekki séð að ákvæði frumvarpsins tryggi nægilega að fagleg og læknisfræðileg sjónarmið verði í heiðri höfð þegar kaup á heilbrigðisþjónustu verða ákveðin.

Ekki er heldur gert ráð fyrir að starfsemi starfsendurhæfingarsjóðanna lúti eftirliti landlæknisembættisins. Slíkt eftirlit hlýtur þó að teljast bæði eðlilegt og nauðsynlegt þegar litið er til eðlis starfsendurhæfingarkerfisins og þess hve stórt í sniðum það verður.

Það er líka rétt að hnykkja á því að frumvarpið gerir ráð fyrir að um atvinnutengd réttindi sé að ræða, það er að einstaklingar öðlast réttindi með því að stunda launaða vinnu eða þiggja bætur, svo sem frá sjúkrasjóðum eða styrktarsjóðum stéttarfélaga, atvinnuleysistryggingasjóði eða fæðingarorlofssjóði. Starfsendurhæfingarkerfið á að auðvelda mönnum endurkomu inn á vinnumarkaðinn. Í grein um markmið kerfisins segir líka að tryggja eigi einstaklingum með skerta starfsgetu í kjölfar veikinda eða slysa á aldrinum 16 ára til sjötugs atvinnutengda starfsendurhæfingu. Frumvarpið tryggir ekki ungu fólki sem ber þess merki að verða síðar með skerta starfsgetu slíkan rétt. Úr því þyrfti að bæta.

Það hefur vakið athygli greinarhöfundar að núorðið ber á því að ekki sé leitað til aðila með sérþekkingu, eins og Læknafélagsins, þegar heilbrigðismál eru til umfjöllunar á Alþingi Íslendinga eða í stjórnkerfinu. Eða hitt að þegar slíks er óskað þá sé of skammur tími gefinn til að yfirfara mál og svara þeim á fullnægjandi hátt. Þannig var það með það mál sem hér er til umfjöllunar. Heilbrigðis- og réttindamál eru í eðli sínu flókin og mikilvæg þeim einstaklingum sem réttindanna eiga njóta. Þess vegna þarf að vanda alla umfjöllun. Það er farsælast að flýta sér hægt þegar um slíkt efni er fjallað!

Að lokum þetta, Læknafélag Íslands og fjölmargir aðrir sérfróðir aðilar voru ekki beðin um álit á frumvarpi um atvinnutengda starfsendurhæfingu og starfsemi starfsendurhæfingarsjóða. Þeir þurftu sjálfir að fara fram á það. Því verður varla trúað að Alþingi hafi ætlað sér að sniðganga þá sem best þekkja til mála. Það er ennfremur álit mitt og margra annarra að of oft sé lítið mark tekið á þeim umsögnum og athugasemdum sem stjórnvöldum berast. Of oft virðist eingöngu vera um málamyndasamráð að ræða. Alþingi Íslendinga ætti ávallt að leggja sig fram um að leita álits sem flestra sérfróðra aðila þegar lagafrumvörp eru til umræðu og umfjöllunar og tryggja þannig að öll gagnleg sjónarmið komi fram áður en frumvörp verða að lögum. Alþingi og stjórnkerfið þurfa að bæta vinnubrögð sín hvað þetta varðar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica