05. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

FÍFL í vorskapi

u09-fig1
Frá göngu FÍFL á Eyjafjallajökul sumardaginn fyrsta 2012. Hámundur (1660 m) í baksýn.
Mynd: Ólafur Már Björnsson


Nú er vorstarf Félags íslenskra fjallalækna (FÍFL) hafið eftir frábæran gönguskíðavetur. Um miðjan apríl stóð félagið fyrir háfjallakvöldi í Háskólabíói í samvinnu við 66°Norður og var sænska ævintýrakonan Renata Chlumska aðalfyrirlesari. Þar hlýddu um 800 manns á eftirminnilega frásögn hennar af krefjandi ferðum á hæstu fjöll og ferð hennar á hjóli og kajak umhverfis Bandaríkin.

Fyrsta fjallaferð ársins var farin á sumardaginn fyrsta og var að venju haldið á Eyjafjallajökul í einmuna veðurblíðu. Aðalfundur félagsins var haldinn á hæsta tindinum, Hámundi (1660 m) og tóku 20 FÍFL þátt.

Helgina 18.-20. maí verður farið í hina árlegu vorferð en helgin á eftir höfð til vara ef veður bregst fyrri helgina. Að þessu sinni er ætlunin að þvera Öræfajökul frá austri til vesturs. Gengin verður fáfarin leið á jökulinn frá Kvískerjum og komið niður hina hefðbundnu Sandfellsleið. Þetta er krefjandi ganga sem getur tekið allt að 16-18 klst. og þarf mannbrodda og ísöxi til ferðarinnar. Fararstjóri verður Olli hátindahöfðingi. Fjöldi þátttakenda er takmarkaður og því mikilvægt að skrá sig sem fyrst hjá tomasgud@landspitali.is eða engilbs@landspitali.is.

FÍFL hefur fleiri ferðir á prjónunum næstu vikur og mánuði sem auglýstar verða síðar. Nokkur fjöll eru á óskalista, eins og Þórisjökull, Helgrindur, Ljósufjöll og Hlöðufell. Hin árlega haustferð verður farin um miðjan september og er stefnt á göngu á Snæfell og jafnvel Dyrfjöll.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica