05. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Geðveikar hetjur – talað við Óttar Guðmundsson um nýja bók hans

„Ég tek allar helstu persónur Íslendingasagnanna fyrir og greini þær samkvæmt aðferðum nútímageðlæknisfræðinnar og velti fyrir mér söguþræði einstakra sagna útfrá þessum greiningum. Síðan skoða ég hver hefðu orðið afdrif þessara persóna í nútímasamfélagi með þessar raskanir og geðgreiningar í farteskinu, segir Óttar Guðmundsson geðlæknir en nýútkomin er bók hans Hetjur og hugarvíl.
u06-fig2

Óttar kveðst lengi hafa verið handgenginn Íslendingasögunum og lesið þær fyrst sem unglingur og alltaf leitað í þær aftur með reglulegu millibili, en við undirbúning þessarar bókar hafi hann skipulega lesið þær með augum geðlæknisins og skoðað vandlega hvers konar geðræn vandamál persónur sagnanna ganga með. „Það er í sjálfu sér ekkert nýtt við slíka nálgun og nærtækt að benda á að geðlæknar hafa velt fyrir sér persónum grísku harmleikjanna og leikrita Shakespeares. Fyrst og fremst er þetta leikur af minni hálfu, sem ég hef haft mikla ánægju af og vonandi hafa lesendur skemmtun af því líka.“

Grettir ætti erfitt í dag

Óttar tekur fyrir allar helstu Íslendingasögurnar, Brennu-Njáls sögu, Egils sögu, Laxdæla sögu, Grettis sögu, Gísla sögu Súrssonar, Kormáks sögu og Gunnlaugs sögu Ormstungu, Harðar sögu og Hólmverja og Bjarnar sögu Hítdælakappa.

Þarna kennir ýmissa skrautlegra grasa og í bók sinni lætur Óttar persónurnar koma á sinn fund sem geðlæknis og rekja raunir sínar og hann ræðir við þær og gefur síðan lesandanum greiningu á geðrænu ástandi persónunnar. Lítum fyrst á Gretti Ásmundsson, þá miklu hetju.

„Grettir fær strax á barnsaldri margar skýrar greiningar barna- og unglingageðdeildar. Hann er með mótþróaþrjóskuröskun og ýmsar atferlisgreiningar sem benda til þess að hann sé orðinn siðblindur strax á unga aldri. Þegar hann vex úr grasi kemur í ljós mjög afbrigðilegur persónuleiki sem lýsir sér í siðblindu og geðklofa persónuröskun þar sem helstu einkenni eru einræna, lítil og brengluð tengsl við annað fólk, sérstaklega konur. Í okkar samfélagi hefði Grettir komist í kast við lögin strax á unga aldri. Hann hefði orðið handrukkari, dyravörður, farið snemma á örorku vegna andlegra og líkamlegra vandamála, unnið svart,  og ógæfa hans hefði orðið söm og í fornöld en óneitanlega svipminni og persónan lítilsigldari. Ég staldra reyndar talsvert við Gretti, enda hef ég alltaf haft áhuga á persónu hans. Grettis saga er harmleikur aðalpersónunnar og geðraskanir Grettis verða honum að falli. Sagan er um leið mikil fantasía og ævintýri og dálítið merkileg að því leyti.“

Ofbeldishneigð einkennir allar helstu hetjur Íslendingasagnanna og kannski fer lítið fyrir réttlætiskennd þeirra og fæstar ef nokkrar beita kröftum sínum til að bæta samfélag sitt. „Njáll á Bergþórshvoli er þó slíkur maður, en hann er kvíðinn og ákvarðanafælinn. Þrátt fyrir þetta er hann yfirburðamaður á sinni tíð og hefði líka orðið það í dag. Forseti hæstaréttar, stjórnmálaforingi, lögspekingur. Njála er reyndar eins og kennslubók í persónuleikaröskunum enda nánast hægt að ganga þar á röðina og skipa öllum persónunum á bekk þekktra geðraskana. Ef við byrjum á Gunnari þá er hann haldinn sjálfsdýrkun á háu stigi, narsissisti; Hallgerður og Bergþóra eru báðar með borderline persónuleikaröskun og það er ávísun á stórkostleg vandræði þegar tvær konur með borderline greiningu takast á um völd og áhrif. Hjónaband þeirra Gunnars og Hallgerðar er martröð hjónabandsráðgjafans og ég hef notað þau sem dæmi í kennslu um hvernig hjónaband tveggja slíkra einstaklinga getur aldrei blessast. Að mínu mati er kjarni sögunnar fólginn í átökum Hallgerðar og Bergþóru. Geðhöfn  þeirra er best lýst sem sveiflóttri, þær elska og hata af jafnmikilli ástríðu, þær skipta heiminum í tvennt, með og á móti, allt fólk er annaðhvort vinir eða óvinir, þær eiga erfitt með að lynda við fólk, lenda stöðugt í útistöðum við umhverfið.“

u06-g1
Óttar Guðmundsson inni í Lauganesi í 105 Reykjavík. Þar bjó Hallgerður langbrók um skeið og sagt
er að þar sé hún grafin um það bil undir gatnamótum Laugarnesvegar og Kleppsvegar.

Ekki fínt að vera mjög geðveikur

Þegar Laxdæla er skoðuð með þessum augum blasir ástarþríhyrningur Kjartans, Guðrúnar og Bolla við. „Um það hverfist þessi stórkostlega saga. Aðalpersónurnar þrjár eru haldnar persónuleikaröskunum og þær eru í rauninni drifkraftur sögunnar. Kjartan er haldinn sjálfsdýrkun á háu stigi og getur ekki afborið að vera svikinn. Bolli er dæmgerður fyrir hæðispersónuleikaröskun, hann er mjög háður Kjartani og síðar Guðrúnu. Hún fengi borderline greiningu, elskar og hatar af ástríðu og hvetur Bolla til að drepa Kjartan af þeim sökum.“

Þrátt fyrir þetta segir Óttar að fáar persónur Íslendingasagnanna falli undir hinar stóru geðgreiningar einsog geðklofa og geðhvarfasýki. „Feðgarnir Skalla-Grímur og Egill á Borg eru undantekningin, en þeir eru greinilega haldnir geðhvarfasýki og Kveld-Úlfur líka, eins og nafnið bendir til. Egill er manískur og þunglyndur en við megum ekki gleyma því að þetta eru höfðingjasögur og það var ekki fínt að vera mjög geðveikur. Egill Skalla-Grímsson er þó með flestar geðgreiningar allra persóna Íslendingasagnanna og af þeim eru helstar geðhvörf, drykkjusýki og siðblinda. Hann er morðóður á köflum og stórhættulegur umhverfi sínu. Hann hefði mögulega eytt einhverjum tíma í fangelsi á okkar tímum en hann hefði jafnframt verið líklegur til að hljóta Nóbelsverðlaunin í bókmenntum, enda algjör snillingur á því sviði. Egill er mikið ólíkindatól sem erfitt hefði verið að hemja eða hafa einhverja stjórn á.“

Óttar gaf út Íslensku kynlífsbókina árið 1990, sem vakti mikla athygli, og þar leitaði hann talsvert í Íslendingasögurnar. „Ég tók ákveðin dæmi úr sögunum þegar ég var að fjalla um tiltekna kynlífsvanda, ýjaði að því að Gunnar og Njáll hefðu hugsanlega verið samkynhneigðir og skoðaði fleiri persónur á ámóta frjálslegan hátt. Þetta vakti athygli en það voru margir sem gagnrýndu þessa meðferð á sögunum og ég áttaði mig á því að þetta var ekki vel séð. Það rann upp fyrir mér að Íslendingasögurnar eru á vissan hátt heilagar og um þær mátti ekki fjalla nema á ákveðinn viðurkenndan hátt. Með þessari bók minni núna er ég að skora þetta viðhorf á hólm og segja að allir megi leita í þennan arf okkar, hvort sem þeir hafa þreytt nám í íslensku og bókmenntum við Háskóla Íslands eða ekki. Þannig verða sögurnar lifandi, en ég óttast að þær séu að hverfa úr vitund almennings, um þær er ekki lifandi umræða í samfélaginu og þessu vil ég taka þátt í að breyta. Mér finnst mikill styrkur að því að vinur minn Torfi Tulinius prófessor í miðaldabókmenntum ritar eftirmála í bókina og við höfum rætt efni hennar í þaula. Mér finnst að með því sé Torfi að bjóða mig velkominn í samfélag þeirra sem fjalla um Íslendingasögurnar þó ég sé með aðra sýn, annan bakgrunn og aðra menntun en hefðbundnir fræðimenn á þessu sérstaka sviði. Torfi hefur sýnt þessari bók mikinn áhuga og áhugasvið okkar skarast verulega þar sem hann er mikill áhugamaður um kenningar Freuds og hefur beitt þeim við bókmenntarýni sína.“

Þrátt fyrir áhuga sinn á Íslendingasögunum í áratugi segir Óttar hugmyndina að þessari bók fremur nýtilkomna. „Ég ætlaði upphaflega að skrifa bók um kynlíf í Íslendingasögunum og hóf lestur þeirra að nýju fyrir nokkrum árum með það að markmiði. Ég áttaði mig fljótt á því sem ég í rauninni mátti vita að það er mjög lítið sagt frá kynlífi í sögunum. Þá kviknaði þessi hugmynd að fara inn í sögurnar og kalla hetjur þeirra til viðtals við mig á stofuna. Þar gefst þeim tækifæri til að rekja raunir sínar og vandkvæði, ég greini geðrænt ástand þeirra samkvæmt nútímastaðli geðlæknisfræðinnar og velti fyrir mér hvar persónurnar væru staddar í dag í okkar samfélagi. Hugsanlega sjá lesendur einhverjar hliðstæður við helstu hetjur og skúrka samtímans en það er meðfram tilgangurinn að sýna fram á tímaleysi þessara stórkostlegu sagna.“
Þetta vefsvæði byggir á Eplica