03. tbl. 98. árg. 2012
Umræða og fréttir
Starfskulnun er ekki vandamál einstaklingsins
„Þeir sem gera miklar kröfur til sín í starfi, hafa mikinn metnað og eru haldnir fullkomnunaráráttu er frekast hætt við kulnun í starfi,“ segir Högni Óskarsson geðlæknir. Högni hefur sinnt ráðgjöf og stjórnendaþjálfun undir merkjum Humus ehf. við ýmis fyrirtæki og stofnanir undanfarin ár.
„Við göngum á tímann sem ætlaður er til samveru með fjölskyldu og til hvíldar, en það er einmitt
tíminn sem við þurfum til að hlaða batteríin að nýju,“ segir Högni Óskarsson geðlæknir.
Högni segir að samkvæmt hollenskum rannsóknum á ýmsu starfstéttum megi að meðaltali greina starfskulnun hjá 2-4% starfsmanna. Hann rifjar upp könnun sem gerð var meðal bandarískra skurðlækna sem leiddi í ljós að kulnunareinkenni voru greinanleg hjá allt að 40% þeirra. „Við fyrstu sýn kemur þetta kannski á óvart því bandarískir skurðlæknar eru jaxlar sem láta sér fátt fyrir brjósti brenna, þeir eru gríðarlega hæfir og hafa komist í gegnum ótal síur á ferli sínum. Það mætti því ætla að þeir væru sæmilega fullnægðir í sínu starfi. En þegar farið var að rýna í þessar sláandi niðurstöður kemur ýmislegt athyglisvert í ljós sem við getum dregið lærdóm af, sérstaklega núna í skugga hruns og yfirstandandi kreppu. Þjálfun lækna snýst um að gera þá hæfa til að sinna læknisverkum af ýmsu tagi, eins og skurðaðgerðum, rannsóknum, viðtölum og greiningum. Þegar læknar hefja störf er þetta það sem á hug þeirra allan og metnaður þeirra stendur til. Hið daglega starf læknisins snýst síðan að miklu leyti um aðra hluti. Hann verður æ uppteknari af alls kyns verkefnum sem í rauninni má skilgreina sem aukaatriði eða bakgrunnshljóð við hið eiginlega læknisstarf. Þetta eru skýrslur sem þarf að skrifa, meðferðarlýsingar, áætlanir, vottorð, beiðnir, útskriftir og í Bandaríkjunum þurfa læknar að skila mjög ítarlegum skýrslum til tryggingafélaga sem allur rekstur sjúkrahúss eða stofu byggir á. Við þetta bætast svo hin tímafreku rafrænu samskiptakerfi nútímans, sími og tölvupóstur sem eltir fólk hvert sem það fer. Bandarísku skurðlæknarnir kvörtuðu sáran yfir því að öll þessi umsýsla með pappír og tölvur tæki sífellt meiri tíma og æ minni tími færi í það sem þeir kynnu best og vildu helst gera. Einn læknir lýsti þessu mjög vel þegar hann sagði að tíminn á skurðstofunni væri eins og að komast í búddíska hugleiðslu; geta einbeitt sér að einu verkefni og gleymt öllu öðru á meðan. Skilaboð þessarar sögu eru að líkurnar á starfskulnun aukast stórum þegar einstaklingurinn fær sífellt minni tíma til að gera það sem hann er bestur í og hefur mesta ánægju af.“
Nýta krafta fólks sem best
Að sögn Högna byggist stjórnendaþjálfun að talsverðu leyti á því að kenna stjórnendum að greina kjörsvið starfsmanna og hvernig kraftar þeirra nýtast best. „Einfaldlega að láta fólk gera það sem það kann best og hefur ánægju af að gera. Það skilar mestum árangri og dregur úr líkum á starfskulnun. Það var gerð könnun á heimsvísu á vegum Gallup sem sýndi ótvírætt samhengi á milli bættrar afkomu fyrirtækja og þess hversu stórum hluta af vinnutíma sínum starfsmenn töldu sig verja í það sem þeir gerðu best.“
Í fyrirlestri sínum á Læknadögum ræddi Högni um líkamleg og sálræn einkenni starfskulnunar. Líkamlegu einkennin eru: orkuleysi, uppgjöf, spenna, svefnleysi og síendurtekin minniháttar veikindi. Sálrænu einkennin eru: pirringur, sektarkennd, skapþyngsl, reiði, tár, vonleysi, úrræðaleysi, kvíði, kaldhæðni, lágt sjálfstraust, kvíði fyrir vinnu og uppgjöf.
„Á seinni árum hafa einnig komið upp ýmsar aðrar fagstéttir í heilbrigðisgeiranum sem á vissan hátt hafa þrengt að sjálfstæði og sjálfsákvörðunarrétti lækna. Þetta á reyndar við um margar aðrar starfsstéttir, í nútímasamfélagi upplifa þær sig sem áhrifalitlar á sitt starfs- og nærumhverfi. Það er alveg ljóst að staða lækna hefur breyst á undanförnum áratugum og alls ekki til hins verra að mínu mati. En við þurfum að laga okkur að því og ungir læknar í dag þekkja ekki annað. Það sem skiptir máli í þessu samhengi er að stjórnun á vinnu okkar er að miklu leyti komin úr höndum okkar til annarra, en allt sem tekur frá manni sjálfstæði til athafna getur leitt til kulnunar. Viðvarandi kreppuástand sem veldur því að dregið er úr endurnýjun tækjabúnaðar og nýjungum í starfsaðferðum vegna aðhalds í rekstri getur einnig stuðlað að kulnun hjá framsæknu og metnaðarfullu starfsfólki.“
Aðgreina vinnu og frítíma
Högni segir að nauðsynlegt sé að kanna í þaula meðal lækna og heilbrigðisstarfsfólks almennt hver staða þeirra sé gagnvart starfskulnun. „Hér ættu landlæknisembættið og Landspítali að vinna saman að því að koma á virkri fræðslu innan heilbrigðisstofnana um hvað hægt sé að gera til að draga úr líkunum á starfskulnun. Þetta er ekki vandamál einstaklingsins heldur er þetta yfirleitt skipulagsvanda-mál. Það er hlutverk stjórnenda að huga að velferð starfsmanna, skapa viðunandi vinnuaðstæður og viðráðanlegt vinnuálag. Eitt af því sem okkur læknum er hætt við að missa tökin á er tímastjórnun. Með aukn-um möguleikum á að vinna heiman frá sér, á kvöldin og um helgar, er enn meiri hætta á að tímastjórnunin riðlist. Við hættum að aðgreina vinnutíma og frítíma. Við göngum á tímann sem ætlaður er til samveru með fjölskyldu og til hvíldar, en það er einmitt tíminn sem við þurfum til að hlaða batteríin að nýju. Það er nýlega komin fram langtímarannsókn sem gerð var meðal opinberra starfsmanna í Bret-landi. Þar kemur fram að þeim sem vinna 11 tíma eða meira á dag er hættara við þunglyndi og kulnunareinkennum en þeim sem vinna 8 tíma á dag.“
Mikilvægast fyrir einstaklinginn til að verjast starfskulnun er að sögn Högna að hafa góða stjórn á tíma sínum, draga skýr mörk á milli vinnu og einkalífs, og kunna að slaka á og njóta frítímans. „Það fer svo eftir áhugamálum og persónu hvers og eins hvað hentar best.“