02. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Frá öldungadeild LÍ. Fyrsti sjúklingurinn. Þröstur Laxdal

Mér verður ávallt eftirminnilegur fyrsti sjúklingurinn sem ég þurfti að annast sem héraðslæknir fyrir nærfellt hálfri öld síðan. Þá var hin svokallaða héraðsskylda læknakandídata við lýði, áður en almennt lækningaleyfi fengist. Aðeins var um einmenningshéruð úti á landi að ræða og lenti ég í fremur afskekktu héraði.

Gamli héraðslæknirinn var að hætta störfum, og ég varð fljótlega var við það að hann hafði undirbúið komu mína rækilega, þótt ekki væri nú beint á þann hátt sem ég hefði helst kosið. Það væri sem sé von á glæstum stórkírúrg að sunnan sem leysa myndi flestan vanda. Þessi efnilegi kírúrg hafði hins vegar í raun aðeins lokið 6 mánaða kúrs á handlæknisdeild - og í þokkabót sjónlaus á öðru auga.

Eldsnemma fyrsta morguninn hringdi síminn. Þetta var dæmigerður sveitasími, sameiginlegur fyrir alla bæi sveitarinnar og greinilega margir komnir á línuna þegar hringdar voru „ 3 stuttar“ til læknisins. 

Ákveðin kvenrödd hljómaði í símanum: „Jæja, þá er tíminn kominn! Ef það gengur ekki hjá Hrefnu minni í þetta skiptið, þá er hún bara búin að vera. Þú verður að koma strax, ef hún á að halda lífi!“

Ég náði að stynja upp hvort hún hefði lengi verið svona aðframkomin og hver væru nú aðaleinkennin.

Hvað meinar læknirinn eiginlega? Var ekki búið að segja honum frá Hrefnu?

Nei, það hafði nú gleymst - og kannski með vilja.

„Hún Hrefna mín er með stærðar æxli og á sín von innan viku, og verði æxlið ekki fjarlægt í tæka tíð kemur hún til með að missa alla mjólkina.“

„Bíddu við, kona góð, er hún Hrefna dóttir þín og er æxlið í brjóstinu?“

Það heyrðust andköf í símanum, síðan undrunarhljóð og loks stigvaxandi hlátur, allra þeirra sem lágu á línunni.

Loks gat konan stunið upp: „Hrefna er mér vissulega kær sem dóttir, en hún er nú besta mjólkurkýrin á bænum og herslið er aftanvert á júgrinu og stíflar mjólkurkirtlana. Síðast þegar hún bar, datt öll nytin niður, en við ákváðum að gefa henni eitt tækifæri enn og nú stendur allt og fellur með því að þessi aðgerð heppnist. Og nú ertu loksins kominn, nýi læknirinn að sunnan.“

Ég fann svitann spretta fram um leið og ég gerði mér fullljóst, að nú væri að duga eða drepast, með engan dýralækninn í héraðinu.

Ég kippti með mér böggli með sótthreinsuðum áhöldum sem ég hafði fengið matrónu Katrínu á skurðstofu Landspítalans  til að útbúa og ætlaði að eiga í  bakhöndinni ef mikið lægi við. En að fara að sólunda þessu dýrmæti í einhverja beljuskjátu - því hefði mig aldrei órað fyrir.

Ég var ekki leiddur í bæ, heldur beint í fjós. Þar beið þessi fyrsti sjúklingur minn bundinn á bás, heftur á afturfótum, með halann uppfestan. Hér var engrar undankomu auðið. Ég mátti þakka mínum sæla fyrir reynslu af kúagæslu á árum áður, og átti því að vita hvað sneri fram og hvað aftur á einni ósjálfbjarga belju. - Eða var hún ekki svo bjargarlaus?

Öll fjölskyldan var mætt í fjósið. „Þarna er herslið,“ benti bóndinn.

Mikið rétt, appelsínustórt bandvefsæxli bungaði út við dvergspenann. Ég opnaði varlega pakkann með sótthreinsuðu áhöldunum og lagði á flórstéttina aftan við skepnuna, dró svo aleiguna af deyfiefni upp í 10 ml sprautu og byrjaði að staðdeyfa. Mótstaðan reyndist gífurleg, rétt eins og  sprautað væri í harðviðardrumb, - nálin af, og megnið af innihaldinu frussaðist í allar áttir.

Mér var vel ljóst að deyfingin var af skornum skammti. Hrefna var öll á iði meðan á þessu stóð og náði að slíta af sér halafestinguna og hefndi sín með hnitmiðaðri halasveiflu beint í góða augað.

Ég beit á jaxlinn. Þetta varð að takast. Byrjaði að skera, - en hvar var deyfingin?

Hrefna tók viðbragð, rykkti í haftið, og síðan opnuðust allar flóðgáttir og kýrhlandið slettist yfir fínu sótthreinsuðu græjurnar mínar á stéttinni, svo ekki sé nú talað um þann sem sat, eða nánast kraup við afturenda sjúklingsins. En þetta var bara byrjun-in. Áður en tækist að forða tólum og tækjum undan þessu úrhelli, tók við þvílík ræpa frá endaþarmi, að sletturnar gengu yfir allt nálægt og var andlit operators þar ekki undanskilið. Við aðra skurðartilraun var skepnunni endanlega nóg boðið. Með krampakenndum spörkum rykkti hún í haftið, hentist upp að aftan og lenti svo harkalega með afturfæturna niður í hálum flórnum. Þar rann hún samstundis á ræpunni niður á afturendann og náði í leiðinni að spyrna kófsveittum, taugaspenntum unglækninum niður í flórinn með sér.

En nú var allt hik og óöryggi á brott. Reiðin hafði náð völdum. Með nánast lokuð, samanklesst augu tókst að skræla æxlið út, saumuð voru ein tíu spor og endað með risaskammti af penisillíni í herðakambinn á vesalings Hrefnu.

--------------

Það var lítið sofið næstu nætur og fáir sjúklingar af mannakyni hættu sér á stofuna til mín.

Það var ekki fyrr en skókassi fullur af ábrystum og eggjum barst með mjólkurbílnum, - ásamt þakklætisnótu, - að ég vissi að ég var hólpinn.

 

 

Skopmyndin

u06-fig2

Kristbjörn Tryggvason prófessor   (1909 – 1983)

Teikning: Sigurður V. Sigurjónsson

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica