02. tbl. 98. árg. 2012

Umræða og fréttir

Traust og öflugt félag - segir nýr formaður LÍ, Þorbjörn Jónsson

Þorbjörn Jónsson var kjörinn formaður Læknafélags Íslands á aðalfundi félagsins í október síðastliðnum. Þorbjörn er sérfræðingur í ónæmis- og blóðgjafafræðum. Að sérnámi loknu árið 2002 vann hann tvö ár á ónæmisfræðideild Landspítalans, en frá árinu 2005 hefur hann starfað við Blóðbankann. Þorbjörn kemur í starf formannsins eftir að hafa gegnt formennsku í Læknaráði Landspítalans um fjögurra ára skeið og notið þar mikils trausts fyrir málefnalega og faglega framgöngu. Hann hlaut ágæta kosningu í formannsembættið og kveðst afar þakklátur fyrir það traust sem honum var sýnt.

u02-fig1
„Það sem líklega brennur hvað heitast á okkur núna er vandi íslenska
heilbrigðiskerfisins við að manna læknastöður í landinu,“ segir Þorbjörn
Jónsson formaður Læknafélags Íslands.


Þorbjörn er fæddur 1960 og lauk læknisfræði frá HÍ 1989. Hann lauk doktorsprófi frá HÍ 1993 og stundaði sérnám í ónæmis- og blóðgjafafræðum við Rikshospitalet og Ullevål-sjúkrahúsið í Ósló 1998-2002. Hann er kvæntur Guðrúnu Svanborgu Hauksdóttur lækni og sérfræðingi í sýklafræðum og eiga þau fjögur börn.

Læknaskortur blasir við

Þegar talið berst að Læknafélagi Íslands stendur ekki á svörum hjá Þorbirni.

„Það sem líklega brennur hvað heitast á okkur núna er vandi íslenska heilbrigðiskerfisins við að manna læknastöður í landinu. Ástæðurnar eru öllum ljósar og margbúið að rekja þær; læknar sem þegar eru búsettir erlendis eru fæstir að hugsa um að koma heim þó sérnámi þeirra sé lokið, þeir fresta heimflutningi og í mörgum tilfellum verður það til þess að þeir ílendast erlendis með fjölskyldur sínar. Ungir læknar sjá sinn kost einnig vænstan í því að fara sem fyrst í sérnám erlendis og þeirra nýtur því skemur við. Þá eru sérfræðilæknar á miðjum aldri og eldri, sem starfað hafa hér heima um lengri eða skemmri tíma, margir hverjir farnir að hugsa sér til hreyfings með því að taka hlutastöður erlendis eða flytja alfarnir utan á nýjan leik. Þetta er auðvitað grafalvarlegt mál fyrir íslenska heilbrigðiskerfið.“

Þorbjörn segir vandann sem af þessu geti skapast margþættan. „Það sem blasir við er einfaldlega læknaskortur og hann er þegar orðinn tilfinnanlegur innan heilsugæslunnar, bæði á höfuðborgarsvæðinu og á landsbyggðinni. Þar reynist sífellt erfiðara að manna lausar stöður. Önnur afleiðing þessarar gloppu í endurnýjun í stéttinni er að nýjungar í aðferðum og tækni skila sér hægar og verr en áður. Ungu sérfræðingarnir sem koma erlendis frá eru eðli málsins samkvæmt oft driffjöðurin í því að innleiða nýjungar og færa með sér það sem er efst á baugi í alþjóðlegum læknavísindum. Hættan er sú að íslenska heilbrigðiskerfið staðni og dragist síðan aftur úr þar sem við erum að missa af stórum hluta af mikilvægustu kynslóð lækna, unga sérfræðinga á aldrinum 35-45 ára. Á sama tíma erum við að horfast í augu við að stórir árgangar lækna, fæddir 1940-45, eru að fara á eftirlaun og þá verður endurnýjunarvandinn enn meira aðkallandi.“

Erfiður vítahringur

Þorbjörn segir að kröfur ungra lækna til starfsins séu aðrar en voru fyrir 20 árum eða fyrr. „Þrátt fyrir engu minni áhuga á faginu og mikinn metnað til að ná langt í starfi, gerir ungt fólk í dag aðrar kröfur. Það vill líka hafa tíma fyrir fjölskyldu og áhugamál. Það vill ekki eyða öllum tíma sínum í vinnu og vera sífellt bundið af vöktum. Þetta er afskaplega sanngjörn krafa og henni er hægt að mæta með eðlilegri mönnun. Læknaskorturinn veldur auknu álagi á þá sem ennþá eru til staðar og það veldur því að fólk leitar annað. Þetta er vítahringur sem erfitt getur reynst að rjúfa.“

Læknafélagið getur að sögn Þorbjörns ekki einsamalt breytt þessu ástandi, það sé hlutverk stjórnvalda, en hann leggur áherslu á að hlutverk félagsins sé að vekja athygli á þessu. „Það er svo margt sem spilar inn í. Við vitum að laun lækna eru hærri í löndunum í kringum okkur en hér heima. Eftirspurn eftir læknum er alls staðar og það er auðvelt fyrir íslenska lækna að fá vinnu þar sem menntun þeirra er góð og þeir eru þekktir fyrir að vera vandvirkir, ósérhlífnir og vinnusamir. Fyrir þessa einstaklinga er metnaðarmál að fá tækifæri til að vera í miðpunkti tækni og þróunar. Það eykur því á vandann að samhliða lakari kjörum er tæknibúnaður til dæmis á Landspítala óðum að úreldast, fyrir utan þann hluta hans sem þegar er úreltur. Það verður því sífellt minna aðlaðandi að snúa hingað heim fyrir hámenntaða sérfræðinga í læknisfræði og það eina sem stjórnvöld hafa gert er að höfða til þjóðrækni og ættjarðarástar. Ég skil þetta mjög vel, enda velti ég því vandlega fyrir mér hvort rétt væri að setjast að í Noregi eða flytja heim. Við hjónin ákváðum að flytjast heim, enda gerðum við okkur grein fyrir því að með hverju árinu sem liði minnkuðu líkurnar á heimflutningi. Við sjáum ekki eftir því.

Þetta snýst auðvitað ekki eingöngu um lækna, kaup þeirra og aðstöðu til vinnu. Þetta snýst um þjónustu við sjúklingana. Það blasir við að ýmsar af vandasamari og sjaldgæfari aðgerðum sem hér hafa verið gerðar verða jafnvel lagðar af vegna þess að ekki fæst fjármagn til að endurnýja nauðsynlegan tækjabúnað. Spurningin um hvers konar heilbrigðiskerfi við viljum hafa hér verður sífellt áleitnari. Læknar sem upplifa það að geta ekki veitt sjúklingum sínum bestu mögulega þjónustu munu einfaldlega vilja starfa annars staðar.“

Thorbjorn.mynd2

Vatnið sótt yfir lækinn

Þorbjörn segir að Læknafélag Íslands telji það eitt af hlutverkum sínum að veita stjórnvöldum ráðgjöf varðandi málefni lækna og heilbrigðiskerfisins almennt á grundvelli sérþekkingar sinnar. „En ráðgjöf okkar er ekki alltaf þegin og eftir henni er ekki alltaf leitað þó hún sé í boði. Það má segja að traust ríki milli læknastéttarinnar og almennings en milli stjórnvalda og læknastéttarinnar ríki ákveðin tortryggni. Við viljum gjarnan eyða henni og koma því skýrt til skila að við mælum af fullum heilindum. Stundum er ekki laust við að læknum þyki sem stjórnvöld sæki vatnið yfir lækinn og við læknar höfum í því sambandi bent á að meginniðurstöður skýrslu ráðgjafafyrirtækisins Boston Consulting Group um íslenska heilbrigðisþjónustu hafa verið alkunn sannindi um árabil meðal lækna. Eitt af því brýnasta sem skýrsluhöfundar telja vera er rafræn sjúkraskrá á landsvísu. Þetta hefur verið á dagskrá læknafélaganna, læknaráða spítalanna, sérgreinafélaganna og heilsugæslunnar í meira en áratug. Um nauðsyn þessa hafa allir verið sammála. Skýrslan tiltekur einnig að vaxandi offita sé heilbrigðisvandi. Það kom okkur ekki beinlínis á óvart, enda var heilum degi varið í umfjöllun um þetta efni á nýafstöðnum Læknadögum. Hér sem stundum áður hvarflar að okkur læknum að peningunum hefði verið betur varið í annað og stjórnvöld hefðu leitað eftir þekkingu og ráðgjöf hjá innlendum aðilum. Læknafélaginu þykir í öllu falli sérkennilegt að ekki skuli kallað eftir meiri þátttöku þess í áframhaldandi vinnu í kjölfar þessarar merku skýrslu. Þá er ekki laust við að ákveðnir stjórnmálamenn virðist hafa sérstakt horn í síðu einkarekinnar læknisþjónustu en ég tel að blandað form heilbrigðisþjónustunnar komi öllum til góða og einkareksturinn veiti opinberri þjónustu visst aðhald og öfugt.“

Almennar kosningar

Launamál lækna hafa oft verið til umræðu og almenningur talið að læknar væru almennt vel launaðir. Þorbjörn bendir á að athyglin beinist gjarnan að hæstlaunuðu læknunum og oft sé þar um að ræða lækna á landsbyggðinni sem séu bundnir á vakt nánast árið um kring og hins vegar lækna sem séu með umfangsmikinn rekstur sem felur í sér talsverðan kostnað, bæði í mannahaldi og dýrum tækjabúnaði. „Afkoma lækna er misjöfn og sumir læknar eru með ágæt heildarlaun og þurfa ekki að kvarta. Ég held að þeir geri það ekki heldur. Hins vegar eru laun almennra lækna á Íslandi lág og sérstaklega í samanburði við launin í löndunum í kringum okkur. Ungir læknar þurfa að vinna mjög mikið til að ná endum saman og það er mjög skiljanlegt að þeir séu óánægðir með sín kjör.“

Aðspurður um hvort hann vilji sjá breytingar á innra starfi félagsins segir Þorbjörn að félagið sé í traustum skorðum að flestu leyti. „Ég hef þó velt því fyrir mér hvort ástæða sé til að skoða breytingar á kjöri formanns og stjórnar sem hingað til hefur farið fram á aðalfundi félagsins, við búum við fulltrúalýðræði í Læknafélagi Íslands. Spurningin er hvort tímabært sé að gefa öllum félagsmönnum tækifæri til að kjósa formann og stjórn með almennri rafrænni kosningu á sama hátt og við berum kjarasamninga undir atkvæði félagsmanna. Þetta vil ég gjarnan láta skoða.“

Þorbjörn segir ekki síður mikilvægt að geta þess sem vel er gert og segir félagið geta verið mjög stolt af hvorutveggja, Læknadögum og Læknablaðinu. „Nýafstaðnir Læknadagar voru einstaklega vel heppnaðir og í rauninni ótrúlegt hvað hefur tekist að halda úti fjölbreyttri og vandaðri dagskrá í heila viku með þátttöku yfir eitt þúsund manns. Við getum sannarlega verið stolt af því. Varðandi Læknablaðiðer ég þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að það komi áfram út á pappír. Ég nefni þetta því umræða um hvort ekki ætti að hafa það eingöngu í rafrænni útgáfu skýtur reglulega upp kollinum.“

Áhugamál og veikindi

Þorbjörn hefur sjálfur þurft að horfast í augu við alvarlegan sjúkdóm sem hafði veruleg áhrif á líf hans. „Ég greindist með beinkrabbamein þegar ég var 25 ára gamall og var þá kominn á 5. ár í læknisfræðinni. Ég var eitt ár í Svíþjóð til læknismeðferðar og þessi veikindi töfðu mig frá námi í tvö ár.“

Hann kveður þetta vissulega hafa sett mark sitt á líf hans, en „ég hef komist ágætlega af við störf og leik, þó eflaust hafi þetta takmarkað möguleika mína á einhverjum sviðum.

Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á félagsmálum lækna og var á námsárum í læknisfræði í stjórn Félags læknanema og fljótlega eftir að komuna heim frá Noregi varð ég formaður Læknaráðs Landspítala, allt þar til í fyrra að formennska í Læknafélagi Íslands var orðuð við mig. Af öðrum áhugamálum get ég nefnt sagnfræði 20. aldar sem ég nýt þess að lesa og svo eigum við fjölskyldan sumarhús í Borgarfirði þar sem við eyðum drjúgum tíma. Golf og laxveiði hef ég hins vegar alveg látið eiga sig, seinni árin að minnsta kosti, og sakna þess ekki.“



Þetta vefsvæði byggir á Eplica