12. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Er mönnunarvandi í heilbrigðisþjónustunni? Steinn Jónsson

Nýlega fékk stjórn Læknafélags Íslands til umsagnar skýrslu frá velferðarráðuneytinu þar sem fjallað var um fjölda lækna í landinu og horfur varðandi mönnun. Niðurstaða skýrsluhöfunda var sú að enginn mönnunarvandi væri fyrir hendi og er það í samræmi við annað sem hefur komið fram í máli stjórnvalda og annarra ráðamanna í heilbrigðiskerfinu um þetta efni. Okkur starfandi læknum á Íslandi blandast þó ekki hugur um að þessi vandi er raunverulegur og mun aðeins versna, verði ekki við honum brugðist.

Í nýlegri skýrslu Boston Consulting  Group var lítið gert úr mönnunarvanda í heilsugæslunni með samanburði við fjölda heilsugæslulækna á hverja 1000 íbúa í Svíþjóð og Noregi. Í þeirri skýrslu láðist að taka fram að allir sem til þekkja í þessum löndum vita að mikill skortur er á læknum þar og gylliboð í gangi til þeirra sem vilja ráða sig.

LÍ hefur lagt áherslu á að starfandi læknum á Íslandi hafi fækkað um 10-15% frá árinu 2008 og umtalsverð undirmönnun sé til staðar á mörgum sviðum. Til vitnis um það má benda á tvær atkvæðagreiðslur um kjarasamninga LÍ og fjármálaráðherra, en í þessum atkvæðagreiðslum taka þátt allir sjúkrahúslæknar og heilsugæslulæknar á landinu. Í fyrri atkvæðagreiðslunni, haustið 2008, voru 905 læknar á kjörskrá en í þeirri síðari, 2011, voru 803 á kjörskrá, eða 11,3% færri. Þarna er ótalið það hlutfall lækna sem nú stundar hlutastörf erlendis en slíkt hefur færst mjög í vöxt að undanförnu.

Á Landspítalanum hefur almennum læknum fækkað og flestar deildir spítalans eru undirmannaðar hvað snertir kandídata og deildarlækna. Í mörgum mikilvægum sérgreinum byggist sérfræðiþjónustan á örfáum einstaklingum sem þurfa að búa við mikið vaktaálag og eru heilaskurðlækningar og hjartaskurðlækningar góð dæmi. Vinnutími allra lækna hefur verið takmarkaður vegna vinnuverndarákvæða EES-samningsins. Þessar reglur kveða á um 48 tíma hámarksvinnu í hverri viku og 11 tíma lágmarkshvíld á sólarhring. Þessar nýju reglur valda því að mun fleiri lækna þarf til að manna störf á sjúkrahúsum og víðar í heilbrigðiskerfinu en áður var, einkum þar sem mikið vaktaálag er.

Önnur hlið mönnunarvandans er sú að lítil nýliðun hefur orðið meðal lækna undanfarin ár. Þessi þróun leiðir til þess að meðalaldur starfandi lækna fer hækkandi og nægir að nefna að meðalaldur sérfræðilækna á Landspítala er 53 ár. Þetta á reyndar við um öll sjúkrahús landsins en hefur verið mjög eftirtektarvert á Landspítalanum eftir sameiningu sjúkrahúsanna í Reykjavík. Á hinum svokölluðu þenslutímum var heilbrigðiskerfið beitt miklu aðhaldi í fjárlögum og kom það meðal annars fram í ráðningastefnunni gagnvart læknum. Nú hefur hrunið bæst ofan á þennan vanda með óhagstæðum samanburði við útlönd í launamálum. Ungir vel menntaðir læknar sjá sér nú hag í að starfa áfram erlendis, frekar en að snúa aftur til Íslands, af ýmsum ástæðum, bæði faglegum og fjárhagslegum. Aðstöðuleysi og tækjasvelti á sjúkrahúsum landsins á þar einnig hlut að máli.

Alvarlegastur er vandinn þó líklega á landsbyggðinni. Fyrir utan fyrrnefnda þætti vofir þar yfir hálfopinber stefna stjórnvalda um að gera róttækar breytingar á skipan heilbrigðisþjónustunnar á landsbyggðinni, jafnvel í þá veru að í framtíðinni verði aðeins tvö deildaskipt sjúkrahús starfandi í landinu, Landspítalinn í Reykjavík og Fjórðungssjúkrahúsið á Akureyri. Þegar þessu er síðan fylgt eftir með miskunnarlausum niðurskurði, eru skilaboðin skýr til þeirra sem gætu verið að hugleiða að flytja til landsins, og sérlega að starfa utan stærstu þéttbýliskjarnanna. Þessi stefna virðist heldur ekki ríma sérlega vel við það yfirlýsta markmið velferðarráðherra að jafna aðgengi landsbyggðarfólks að sérfræðilæknisþjónustu.

Eina leiðin til að tryggja nauðsynlega sérfræðilæknisþjónustu á landsbyggðinni er að þar sé aðstaða til þess að sinna henni og tækifæri fyrir sérfræðilækna til að starfa í stærstu sérgreinunum, lyflækningum og skurðlækningum. Samgöngur eru víða það ótryggar að allt tal um að hafa aðeins tvo spítala í landinu gengur ekki upp. Bættar samgöngur munu vafalaust leiða til þess að einhver samþjöppun geti orðið í sjúkrahúsþjónustu á landsbyggðinni en sú þróun tekur tíma og skynsamlegt er að rasa ekki um ráð fram í þessum efnum.

Læknafélögin hafa eins og áður segir bent á vandann en yfirvöld virðast ekki vilja horfast í augu við staðreyndir. Hjá ráðamönnum hlaðast nú upp skýrslur um ýmis efni en lítið ber á markvissri vinnu við að taka á vandamálunum. Læknafélögin eru eftir sem áður reiðubúin að vinna með stjórnvöldum að lausnum en fyrst verða ráðamenn að átta sig á því að læknar búa yfir mikilvægustu þekkingunni í heilbrigðiskerfinu, lykillinn að lausnunum er hjá þeim.Þetta vefsvæði byggir á Eplica