11. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Ísland í fararbroddi um tóbaksvarnir - Af tóbaksvarnarþingi

Læknafélag Íslands gekkst fyrir Tóbaksvarnaþingi 30. september síðastliðinn. Aðalefni þingsins var kynning þingsályktunartillögu sjö þingmanna úr öllum flokkum nema Sjálfstæðisflokki, um yfirgripsmikla aðgerðaáætlun til næstu tíu ára til að draga úr neyslu tóbaks meðal þjóðarinnar.

u05-fig1
Þórarinn Guðnason, Steen Stender, Luc Joosens og Siv Friðleifsdóttir.

Fyrsti flutningsmaður tillögunnar er Siv Friðleifsdóttir, Framsóknarflokki, en auk hennar eru flutningsmenn Þuríður Backman og Álfheiður Ingadóttir (VG), Ásta R. Jóhannesdóttir og Ólína Þorvarðardóttir (Sf), Eygló Harðardóttir (F) og Margrét Tryggvadóttir (Hreyfingin).

Siv hélt erindi á þinginu þar sem hún reifaði helstu áherslur í greinargerð með ályktuninni en sjálf er ályktunin einföld: Alþingi ályktar að fela velferðarráðherra að vinna 10 ára aðgerðaáætlun um tóbaksvarnir þar sem einn liðurinn verði að sala á tóbaki verði takmörkuð við apótek.

Tóbak aðeins selt í apótekum

Aðgerðaáætlunin er sett fram í sjö meginþáttum en greinargerðin með frumvarpinu er ítarleg, á nær 11 blaðsíðum, og rakti Siv öll atriði hennar skilmerkilega en lagði sérstaka áherslu á ákveðin atriði umfram önnur.

„Meginmarkmið áætlunarinnar er að koma í veg fyrir að ungmenni ánetjist tóbaki og minnka þannig nýliðun reykingamanna. Daglega ánetjast tvö ungmenni tóbaki hérlendis. Helmingur þessara rúmlegu 700 ungmenna sem ánetjast tóbaki árlega mun deyja úr tóbakstengdum sjúkdómi, takist þeim ekki að hætta. Flestir reykingamenn hefja reykingar á barnsaldri eða unglingsaldri, fyrir 20 ára aldur, og ákvörðun um að hefja reykingar er því ekki upplýst ákvörðun fullorðins einstaklings. Þar sem tóbak er ávanabindandi efni sem veldur fljótt fíkn, gildir í raun ekki frjálst val um notkun þess eftir að reykingar eru hafnar, heldur stýrir fíkn og fráhvarf neyslunni að stærstum hluta. Niðurstöður rannsókna sýna að flestir reykingamenn segjast vilja hætta, þó þeir haldi reykingum áfram. Langmikilvægast í baráttunni við tóbaksnotkun og alvarlegar afleiðingar hennar er að stöðva nýliðun tóbaksneytenda með beinskeyttum aðgerðum, þar á meðal aðgengistakmörkunum.“

Hinir sjö þættir aðgerðaáætlunarinnar eru: 1) sölustöðum tóbaks fækkað, aðgengi minnkað og stigu stemmt við nýjum neysluformum, 2) enn frekari takmörk við því hvar neyta má tóbaks, 3) auglýsingar fjarlægðar og sýnileiki tóbaks minnkaður, 4) efnahagslegar aðgerðir, 5) skilgreiningar og flokkun tóbaks og nikótíns að lögum, 6) eftirlit, skipulag og valdheimildir yfirvalda í tóbaksvörnum, 7) aukin fræðsla, þekking og stuðningur við tóbaksvarnir.

Siv sagði að það atriði áætlunarinnar sem valdið hefði hvað mestum umræðum og deilum væri sú tillaga að sala á tóbaki verði takmörkuð við apótek. Lagt er til að í lok hins 10 ára tímabils verði einungis hægt að kaupa tóbak í apótekum gegn framvísun lyfseðils frá lækni. Þetta er í samræmi við að nikótín og tóbak verði skilgreind sem ávana- og fíkniefni í lögum og tóbak og tóbaksreykur verði flokkuð sem krabbameinsvaldandi eiturefni. Siv sagði að fremur en láta tillöguna falla á ágreiningi innan þingsins um að takmarka sölu tóbaks við apótek, þá væri lending fólgin í því að leggja til að tóbak verði einungis selt á útsölustöðum ÁTVR.

Um enn frekari takmarkanir við því hvar neyta má tóbaks er lagt til að allar reykingar á almannafæri verði bannaðar. Reykingar verði þannig óheimilar á lóðum opinberra bygginga, á gangstéttum, í almenningsgörðum og á baðströndum. Þá verði reykingar undir stýri óheimilar og alfarið óheimilar í bílum þar sem eru börn undir 18 ára aldri. Einnig verði óheimilt að reykja á svölum fjölbýlishúsa og opinberra bygginga og óheimilt verði að reykja í nærveru þungaðra kvenna og barna vegna eituráhrifa óbeinna reykinga.

Í ályktuninni er ennfremur lögð áhersla á að hindra að nýjar tegundir tóbaks festi rætur og er þar sérstaklega vísað til munntóbaks og innlendrar framleiðslu og sölu á neftóbaki sem ungmenni nota í stórauknum mæli sem munntóbak. Tekið er fram að neysla á munntóbaki sé víðast hvar bönnuð í Evrópu og Ísland á því á hættu að hverfa úr hópi forystuþjóða um tóbaksvarnir ef ekki er tekið á þessu. „Margt bendir til að Alþingi þurfi nú að huga að næstu skrefum ef Ísland á ekki að dragast aftur úr öðrum forystulöndum í tóbaksvörnum,“ segir í greinargerð ályktunarinnar. Þá er bent á að nettókostnaður samfélagsins vegna reykinga sé um 30 milljarðar króna árlega.

Áhrif reykinga á meðgöngu

Danski læknirinn Steen Stender flutti erindi um rannsóknir sínar á áhrifum reykinga þungaðra kvenna á fóstur og nýbura. Stender er Íslendingum að góðu kunnur frá síðasta ári en hann var ráðgjafi íslenskra stjórnvalda um bann við notkun transfitusýra í matvælum. Í erindi Stender kom fram að reykingar hafa herpandi áhrif á æðar naflastrengs og draga þannig úr flutningi næringarefna til fóstursins, sem veldur minni fæðingarþyngd nýbura reykjandi mæðra. Aðalefni erindis Stender var þó áhrif reykinga á framleiðslu köfnunarefnisoxíðs (NO) í slagæðaveggjum sem er ein helsta vörn æðakerfisins gegn æðakölkun. Rannsóknir Stenders á áhrifum reykinga benda eindregið til þess að reykingar dragi úr framleiðslu köfnunarefnisoxíðs og veiki þar með varnir æðakerfisins. Köfnunarefnisoxíð vinnur gegn æðakölkun sem aftur getur valdið æðaþrengslum, en framleiðsla köfnunarefnisoxíðs stjórnarblóðstreymi um slagæðar. Því meiri framleiðsla á köfnunarefnisoxíði, því betra blóðflæði. Rannsóknir Stenders á áhrifum reykinga þungaðra kvenna á blóðrás fósturs benda í sömu átt og gefa til kynna að þau börn fái minna blóðstreymi í fósturlífi og þar með minni næringu og fæðist því léttari og minni. Auk þess geti þau verið berskjaldaðri fyrir æðasjúkdómum síðar á lífsleiðinni en ella.

Áhrifaríkast að hækka verðið

Luc Joosens sérfræðingur Evrópusambandsins í tóbaksvörnum var annar gestur Tóbaksvarnaþingsins. Hann hóf mál sitt með sláandi tölum. „Tóbak drap 100 milljónir manna á 20. öld. Á þessari öld mun talan tífaldast nema gripið sé strax í taumana.

Í 25 löndum Evrópusambandsins deyja 650.000 manns árlega af völdum reykinga, 13 milljónir til viðbótar þjást af langvinnum sjúkdómum af völdum reykinga og tugir þúsunda deyja vegna óbeinna reykinga. Kostnaður vegna reykinga er metinn um 100 milljarðar evra á ári í Evrópusambandslöndunum.“

Joosens tiltók sex atriði sem öll hafa sannað gildi sitt við að draga úr tóbaksnotkun. Þau eru að 1) draga úr aðgengi og setja reglur um tóbaksnotkun, 2) vernda fólk fyrir tóbaksreyk, 3) aðstoða reykingafólk við að hætta reykingum. 4) vara við hættum samfara reykingum, 5) herða bönn við tóbaksauglýsingum, kynningum og stuðningi tóbaksfyrirtækja, 6) hækka opinber gjöld á tóbak.

Joosens sagði að samkvæmt áliti Alþjóðabankans væri hækkun á verði tóbaks áhrifaríkasta vörnin. Hann rakti ennfremur reynslu ýmissa þjóða af því að setja strangar reglur um sígarettuumbúðir og sagði ljóst að því skýrari aðvaranir með myndum af afleiðingum tóbaksreykinga ásamt fábreyttum umbúðum, því meira væri forvarnagildið. Rannsóknir sýndu ennfremur að 75% allra íbúa Evrópusambandsins væru fylgjandi skýrum viðvörunum og myndefni á tóbaksumbúðum. Joosens lauk máli sínu með því að hrósa þingsályktunartillögunni og sagði að með henni kæmist Ísland í fararbrodd meðal þjóða heimsins um tóbaksvarnir. Hann kvaðst binda miklar vonir við fordæmisgildi þingsályktunartillögunnar á alþjóðlegum vettvangi.

 



Þetta vefsvæði byggir á Eplica