10. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Samþykktur kjarasamningur


u00-fig1
Myndin er tekin mánudaginn 26. september þegar fyrsta rafræna kosning á vegum læknafélaganna var í höfn.


Þau voru ánægð með niðurstöðuna úr kosningu Læknafélags Íslands um nýjan kjarasamning við ríkið, Steinn Jónsson formaður LR, Sveinn Kjartansson formaður samninganefndar LÍ og Birna Jónsdóttir formaður LÍ. Samningurinn var samþykktur með 61% greiddra atkvæða.

Sveinn Kjartansson kvaðst ánægður með niðurstöðu kosninganna. „Auðvitað hefðu allir viljað enn meira og sumir miklu meira, en við töldum okkur ekki fært að ná lengra að þessu sinni nema með róttækari aðferðum sem engum í samninganefnd LÍ hugnaðist. Við mæltum því eindregið með því að félagsmenn samþykktu samninginn og það hefur orðið niðurstaðan. Við það má vel una.“

Að sögn Margrétar Aðalsteinsdóttur á skrifstofu LÍ gekk þessi fyrsta rafræna kosning á vegum félagsins snurðulaust fyrir sig. Á kjörskrá voru 803 félagsmenn sem fengu greidd laun frá Fjársýslu ríkisins samkvæmt kjarasamningi þann 1. september síðastliðinn. Alls kusu 458 eða liðlega 57% þeirra sem atkvæðisrétt áttu. Já sögðu 281 eða 61% þeirra sem kusu.
Nei sögðu 173 eða 38% þeirra sem kusu.
Fjórir skiluðu auðu. Við síðustu atkvæðagreiðslu um kjarasamning LÍ við ríkið í júlí árið 2008 voru 905 manns á kjörskrá og sýnir þetta óyggjandi fækkun lækna í landinu á síðustu þremur árum.Þetta vefsvæði byggir á Eplica