09. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Tóbaksvarnaþing 2011

Tóbaksvarnarþing verður haldið á vegum Læknafélags Íslands þann 30. september næstkomandi að Hlíðarsmára 8, Kópavogi, kl. 13:10.

Tóbaksnotkun leggur að velli á milli 300 og 400 Íslendinga ár hvert. Enn fleiri veikjast og hljóta örkuml vegna tóbaksnotkunar. Um er að ræða faraldur sem læknar og aðrir sem láta sig heilbrigði varða vilja stöðva. Af þessum sökum hélt Læknafélag Íslands fyrsta Tóbaksvarnarþingið haustið 2009. Þar kom saman fjöldi manns og var unnið að ályktunum um aðgerðir í tóbaksvarnarmálum á Íslandi. Afrakstur vinnu þeirrar sem unnin var á þinginu hefur nú tekið á sig form þingsályktunartillögu sem lögð var fram á Alþingi síðastliðið vor og þingmenn frá öllum þingflokkum komu að. Þingsályktunartillagan vakti heimsathygli. Þar kemur fram að stefnt sé að því að tóbak verði tekið úr almennri sölu hér á landi. Í tillögunni er lagt til að tóbaksreykur verði skilgreindur sem krabbameinsvaldandi efni, enda löngu sannað að svo er. Einnig að tóbak verði flokkað sem fíkniefni, en þekkt er að nikótín er eitt mest vanabindandi efni sem til er. Tilgangur þeirra tillagna sem koma fram í þingsályktunartillögunni er skýr, að minnka nýliðun tóbaksnotenda og hlífa fólki þannig við reykingatengdum sjúkdómum og spara þjóðfélaginu umtalsverðar fjárhæðir, en hagfræðingar hafa reiknað út að reykingar einar kosti Ísland um 30 milljarða ár hvert.

Á Tóbaksvarnarþing 2011 verður boðið fjölda fólks sem lætur sig málið varða, heilbrigðisstarfsfólki, stjórnmálamönnum, forsvarsmönnum stéttarfélaga og allra sem vinna með börnum og ungu fólki, kennurum og þjálfurum hjá íþróttafélögum. Þingsályktunartillagan verður skoðuð og rædd, farið verður yfir hagfræði tóbaksnotkunar, stöðuna í tóbaksvarnarmálum erlendis og fleira. Vonast er til að erlendir fyrirlesarar sjái sér fært að koma, en einnig verða fengnir til leiks færustu sérfræðingar landsins á þessu sviði.

Í undirbúningsnefnd Tóbaksvarnarþings 2011 eru Ágúst Örn Sverrisson, hjartalæknir, Kristján G. Guðmundsson, heimilislæknir, Sigríður Ólína Haraldsdóttir, lungnalæknir, Valgerður Rúnarsdóttir, fíknlæknir og Þórarinn Guðnason, hjartalæknir.Þetta vefsvæði byggir á Eplica