09. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Læknar og sígarettuvélin. Birna Jónsdóttir

Vinur minn sem er lungnalæknir sagði mér að skaðsemi tóbaks hefði náð áður óþekktum hæðum eftir að sígarettuvélin var fundin upp í kringum árið 1880. Í sögulegu samhengi var sígarettuvélin tækninýjung sem þjónaði fyrst og fremst seljendum tóbaks, því auðveldara var að koma vörunni á „hagkvæman“ hátt til notenda. Sagan segir okkur að lengi vel trúðu menn á lækningamátt tóbaks. Máttur auglýsinga er óvéfengdur. Læknisfræði er reynsluvísindi og það er meira en mannsaldur síðan hægt var að auglýsa tóbak á forsíðu Læknablaðsins. Sígarettureykingar urðu snemma á 20. öld algengasti notkunarmáti tóbaks og víst var gott að losna við hrákadalla sem áður voru um allt og tóku við tuggðu munntóbaki. Engan óraði fyrir alvarlegum afleiðingum almennrar notkunar á „ódýru“ tóbaki. Smithætta stóð upp úr hrákadöllunum en afleiðingar óbeinna reykinga eru ekki síður alvarlegar. Nú vitum við betur. Þekking okkar í dag segir að annað hvert ungmenni sem fer að reykja muni deyja af reykingatengdum sjúkdómi. Megin forvarnarstarfið sem LÍ vinnur að er að leita allra leiða til forða ungmennum frá því að ánetjast tóbaksfíkninni í hvaða formi sem er.

Við sem vinnum fyrir LÍ höfum í vaxandi mæli orðið vör við einkenni kulnunar í starfi hjá kollegunum. Könnun sem gerð var meðal yngri lækna í maímánuði sýndi að þeir sem voru óánægðir nefndu sem algengustu ástæðu of mikið álag á vinnustað. Eins og við vitum er það svo að ef manni finnst hann undir of miklu álagi og ekki ná að skila verkefnum á fullnægjandi hátt þá styttist í starfsleiða. En það eru svona verkefni eins og slagurinn við tóbaksiðnaðinn sem gerir það svo skemmtilegt að vera læknir. Það verður að vera gaman í vinnunni, starfsánægjan vegur ekki síður þungt en aurarnir í buddunni þó svo að þá beri ekki að forsóma. Ef álagið er of mikið, starfsaðstaðan léleg og kaupið lágt, er eins gott að margt annað komi á móti. Það þarf ekki að brýna lækna gagnvart því að sinna sínum persónulegu skjólstæðingum vel. Við eigum sammerkt að hafa valið starfið til þess, og það er kennimark íslenskra lækna að mjög lágt brottfall er úr stéttinni og starfsævi löng. Þeir sem hætta að vinna heima og eru ekki að fara á eftirlaun, fara nánast undantekningarlaust í læknisstörf erlendis.

LÍ stendur fyrir tóbaksvarnarþingi nú í lok september, og er það í annað sinn á tveimur árum sem félagið boðar til slíks. Fyrra þingið var haldið í september 2009 og tókst fádæma vel. Ályktanir sem þar voru samþykktar leiddu af sér aðalfundarsamþykktir LÍ 2010, sem í framhaldi urðu meginuppistaða í röksemdafærslu þingmannahóps sem lagði fram ályktunartillögu á alþingi Íslendinga um að banna sölu á tóbaki í almennum verslunum. Auðvitað gerum við læknar okkur grein fyrir því að óforbetranlegir fíklar sem ánetjast hafa tóbaki hvorki vilja allir né geta hætt að reykja og einhvern veginn verður að sinna þeim einstaklingum. Útfærslan á því hvernig þeir fá sitt tóbak verður smám saman ljós. Það er ekki okkar ætlan að banna sölu tóbaks yfir nótt heldur að þrengja áfram að sölumönnunum í nokkrum skrefum á 10 árum. Engum lækni dylst að slagurinn er þess virði að taka hann en tóbaksiðnaðurinn mun ekki hopa þegjandi og hljóðalaust og er sífellt tilbúinn til að tæla nýja notendur. Ein óskammfeilnasta markaðssetning sem mér var nýlega bent á er auglýsing á bleikum, vel lyktandi, örmjóum sígarettum sem sérstaklega eru ætlaðar unglingsstúlkum. Félagar, það er alltaf of snemmt að gefast upp, vinnum saman í forvörnum, vinnum að útrýmingu tóbaksnotkunar.Þetta vefsvæði byggir á Eplica