07/08. tbl. 97.árg. 2011

Umræða og fréttir

Úr penna stjórnarmanna LÍ. Vinnuálagið, vinnuaðstaðan og kjörin. Þórey Steinarsdóttir

u01-fig1

Nú á vordögum lét Læknafélagið gera könnun meðal almennra lækna. Meta átti ánægju með þær breytingar sem gerðar voru á vaktafyrirkomulagi þeirra á Landspítalanum. Deila um vinnufyrirkomulag milli almennra lækna og Landspítalans um páskaleytið 2010 fór væntanlega ekki framhjá neinum. Það mál leystist með þeim hætti að nefnd var sett á laggirnar, skipuð fulltrúum spítalans og almennra lækna, sem vann að breytingum á vaktafyrirkomulaginu. Niðurstaðan varð sú að ekki voru gerðar vaktabreytingar á nokkrum sviðum innan spítalans, en annars staðar tóku ný vaktakerfi gildi á fyrstu mánuðum þessa árs.

Það verður að teljast jákvætt að meiri-hluti þeirra sem tóku þátt í könnuninni vildu heldur vinna í því kerfi sem nú er við lýði en því vaktakerfi sem var í gangi fyrir breytingar. Einhver atriði hafa því greinilega verið færð til betri vegar með þeim breytingum sem gerðar hafa verið á vaktafyrirkomulaginu á þessu ári. Þó eru þrjú atriði í niðurstöðum könnunarinnar sem virðast uppspretta starfsóánægju almennra lækna. Þessi þrjú atriði eru vinnuálagið, vinnuaðstaðan og kjörin.

Vinnuálag lækna hefur löngum verið mikið og ekki hefur það lagast með fækkun lækna síðustu ár. Í könnuninni kom fram að 47,2% aðspurðra mátu vinnuálagið „of mikið – við hættumörk  meðan einungis 10,4% töldu það hæfilegt. Margir nefna að dagvinnan dugi ekki til að ljúka við þau störf sem þarf að inna af hendi og um fjórðungur segist vinna oftar en þrjá daga í viku lengur en 30 mínútur umfram umsaminn vinnutíma. Víða er ekki gert ráð fyrir tíma í pappírsvinnu í skipulagi vinnuvikunnar og algengt er að einungis einn almennur læknir eða kandídat sinni nú teymum í dagvinnu sem fyrir nokkrum árum var jafnan sinnt af tveimur. Einnig er minni tími í kennslu og fræðastarf og oft gefst fólki ekki færi á að komast frá störfum sínum á deildinni til að mæta í fyrirlestra, greinafundi eða annað skipulagt kennsluprógramm. Áhyggjur flestra lækna snúa að því að geta ekki sinnt sjúklingunum sínum eins vel og þeir óska. Hætta á mistökum eða yfirsjón eykst með auknu álagi og tíminn til að sinna hverjum sjúklingi styttist. Lengd vinnuvikunnar og fjöldi unninna vakta í mánuði er víða mjög mikill. Flestir vilja hafa val um hve margar helgar- og kvöldvaktir þeir vinna en eins og staðan er í dag hafa læknar enga stjórn á því. Vaktabyrði sveiflast gjarnan mikið eftir því hvernig mönnunarmál standa og getur það verið æði misjafnt meðal almennra lækna.

Vinnuaðstaða spilar stórt hlutverk í starfsánægju fólks og víða má bæta starfsánægjuna með einföldum úrbótum á vinnuaðstöðu. Á flestum sviðum spítalans er búningsaðstaðan léleg, enginn aðgangur að sturtu eða læstum skápum og ókynjaskiptir klefar. Víða á deildunum hafa deildarlæknar ekki sérstaka vinnuaðstöðu, sem þó er þörf á. Aðgangur lækna að tölvum er háður því að aðrir séu ekki að nota þær, auk þess sem tölvurnar og tölvukerfin eru oft hægvirk. Eina aðstaðan til deildarvinnu og læknabréfaskrifa er gjarnan inni á vaktinni þar sem eilífur erill er, fólk að koma og fara, rapport, símhringingar, mónitorar að pípa og fólk að spjalla. Við slíkar aðstæður getur oft reynst erfitt að vinna hratt og vel þegar þess er þörf.

Þriðja atriðið sem nefnt var í könnuninni eru kjörin. Almennt þykja grunnlaunin of lág og ekki í nokkru samræmi við laun annarra stétta, það mikla nám sem er að baki, vinnuálag og þá ábyrgð sem á herðum lækna hvílir. Til viðbótar hefur yfirvinna ekki verið greidd, reglur varðandi námsferðir verið hertar, lögbundin vinnutíma- og hvíldarákvæði reglulega verið brotin án þess að frítöku-réttur sem á að koma á móti safnist upp eða að fólk geti leyst hann út. Allt þetta leggst á eitt við að skapa óánægju og þá tilfinningu að starfið sé ekki metið að verðleikum.

Óánægja er ekki bara bundin við almenna lækna og mikið áhyggjuefni er hve erfitt er orðið að fá lækna til baka úr sérnámi til starfa á Íslandi. Þegar upplifun lækna af vinnuumhverfi sínu og kjörum hér á landi er eins og hér er lýst, er í sjálfu sér ekki skrýtið að hugurinn stefni ekki heim að sérnámi loknu. Lítil skref hafa verið stigin í rétta átt, svo sem átakið Virðum vinnutímannì sem FAL hrinti af stað á vormánuðum. Þar er leitast við að minnka ólaunaða yfirvinnu innan Landspítalans. Því miður hafa jafnmörg, ef ekki fleiri, skref verið stigin í ranga átt í nafni sparnaðar og hagræðingar. Tími er kominn til að stjórnendur og yfirvöld opni augun og bregðist við þessari óheillavænlegu þróun því brýnt er orðið að bæta kjör og vinnuumhverfi lækna.

Þórey Steinarsdóttir
thorey.steinarsdottir@gmail.com
Þetta vefsvæði byggir á Eplica