07/08. tbl. 97.árg. 2011

Umræða og fréttir

Kerfið vakið af dofanum

Mikil fjölmiðlaumræða undanfarnar vikur um misnotkun metýlfenídatlyfja og annarra vímuvaldandi lyfja er ekki ný af nálinni. Nýjungin felst fyrst og fremst í því að umræðan hefur að þessu sinni náð athygli almennings og þar með ráðherra velferðarmála.

 

Í Læknablaðinu hefur tvisvar á síðastliðnu ári verið fjallað um ofnotkun og misnotkun rítalíns og skyldra lyfja. Í september árið 2010 ritaði Matthías Halldórsson fyrrverandi aðstoðarlandlæknir og landlæknir leiðara undir fyrirsögninni Rítalín til góðs eða ills. Þar sagði Matthías meðal annars:

Á undanförnum árum hafa rannsóknir varpað æ betra ljósi á sjúkdómsmynd og algengi ADHD meðal fullorðinna. Greining og meðferð fullorðinna er vandasöm, en ákveðinn hópur þeirra getur haft mikið gagn af lyfjameðferð. Fullorðnir einstaklingar sem sækja  í metýlfenídat sem vímugjafa eru hins vegar vandamál út af fyrir sig. Þeir nota margfalda skammta í einu, taka lyfin ekki um munn, heldur sniffa þau eða sprauta í æð og kjósa fremur stuttverkandi lyf en forðalyfin nýju og dýru. Hér má engan afslátt veita og læknar verða að berjast gegn ríkisniðurgreiddri misnotkun. Liður í því er nýlegur samráðsfundur landlæknisembættisins með þeim  geðlæknum, sem samkvæmt lyfjagrunni embættisins skrifa út mest af lyfjum við ADHD, en á fundinum voru einnig læknar frá SÁÁ og geðsviði Landspítala. Áhersla var lögð á vandaða greiningarvinnu og staðfestu lækna gegn ásókn frá fíklum. Af öðrum aðgerðum landlæknis má nefna ítarlegar verklagsreglur um greiningu og meðferð ADHD sem settar voru fyrir fáum árum. Þá hefur verið mælst til þess að lyfið atomoxetín (Strattera) sem er ekki misnotað en er talsvert dýrara lyf, sé notað í fangelsum landsins. Samkvæmt reglum Lyfjagreiðslunefndar er greiðsluþátttaka ekki viðurkennd í lyfjum við ADHD nema rökstudd umsókn frá viðeigandi sérgreinalækni liggi fyrir eða greining frá sálfræðingi með sérþekkingu. Athugun landlæknisembættisins sýnir að í langflestum tilvikum eru það geðlæknar og barnageðlæknar eða barnalæknar með skyldar sérgreinar sem hefja þessa meðferð.

Læknablaðið 2010; 96: 519.

u02-fig1Vandinn löngu ljós

Í lok nóvember hafði ráðherraskipuð nefnd skilað tillögum um úrbætur. Umræðan fékk nýtt loft undir vængi í desember þegar velferðarráðuneytinu barst bréf frá INCB (ávana- og fíkniefnanefnd Sameinuðu þjóðanna) um alvarlega stöðu metýlfenídat-lyfjanotkunar hér á landi. Í bréfi INCB kom fram að notkun metýlfenídatlyfja mæld í DDD (daglegir skammtar) á tímabilinu 2006-2008 var 8,76 á Íslandi og þá jafnvel meiri en í Bandaríkjunum þar sem notkun þessara lyfja hefur venjulega verið mest og tvöfalt meiri en í öðrum löndum. Tekið er fram að á árunum 2007-2009 hefur notkun þessara lyfja aukist enn frekar hérlendis, eða í um 11 DDD sem sé mesta notkun sem vitað er um. Í bréfinu furðar ávana- og fíkniefnanefnd Sameinuðu þjóðanna sig á þessu og óskar eftir upplýsingum um hvaða helstu læknisfræðilegu ástæður liggi að baki svo mikilli notkun. Rétt er þó að halda því til haga að notkun amfetamíns við ADHD er álíka mikil í Bandaríkjunum og notkun metýlfenídatlyfja, en slík meðferð við ADHD er nær engin á Íslandi.

Kristinn Tómasson formaður Geðlæknafélags Íslands svaraði þessu í samtali við Læknablaðið í febrúar á þessu ári:

Þessi vandi hefur verið okkur ljós um nokkra hríð og landlæknir vakti athygli á þessu á síðasta ári. Kostnaður vegna þessara lyfja er gríðarmikill, 600-800 milljónir á ári, en fyrst og fremst snýst þó umræðan um að misnotkun þessara lyfja er orðin mjög algeng. Á mannamáli þýðir það að ávísuð lyf eru misnotuð og það er óþolandi staða.

Geir Gunnlaugsson landlæknir sagði í sama blaði af þessu tilefni:

Það er ekki deilt um að lyf sem innihalda metýlfenídat geti hentað fullorðnum mjög vel, þó þau séu eingöngu skráð til notkunar fyrir börn 6-18 ára. Á hinn bóginn höfum við staðfestar upplýsingar um að slík lyf séu misnotuð af fullorðnum og sprautufíklum og gangi kaupum og sölum meðal þeirra á svörtum markaði. Við stöndum því frammi fyrir þeim vanda að koma í veg fyrir misnotkun lyfjanna en tryggja um leið að þeir sem þurfi á þeim að halda fái þau. Það er einnig áleitin spurning hvort allir þeir fullorðnu einstaklingar sem nú nota lyfið hafi farið í gegnum vandaða frumgreiningu og hvort önnur úrræði en lyfjagjöf hefðu hentað þeim jafn vel eða betur.“

Læknablaðið 2011; 97: 110-2.

u02-fig2Tillögur um úrbætur liggja fyrir

Páll Matthíasson framkvæmdastjóri geðsviðs Landspítala rakti tillögur nefndar sem hann sat í ásamt landlækni og Kristni Tómassyni. Nefndin skilaði ítarlegum tillögum til velferðarráðherra í janúar á þessu ári um hvernig mætti taka á þessum vanda sem öllum sem vita vildu hafði verið ljós um þó nokkurt skeið. Á málþingi um ADHD og rítalínnotkun fullorðinna á Læknadögum í janúar gerði Páll ennfremur grein fyrir tillögunum. Samkvæmt upplýsingum Læknablaðsinshefur fátt gerst síðan nefndin skilaði tillögum sínum. Fyrr en nú. Og má þá velta fyrir sér hvort faglegar ráðleggingar eru léttvægari þegar kemur að viðbrögðum embættis- og stjórnmálamanna en óþægileg vakningarumræða á vettvangi landsfjölmiðla. Umræða undanfarinna vikna virðist hafa verið sú vakning sem þurfti til að vekja þessa aðila af doðanum og fá þá til að veita fjármunum til þess brýna verkefnis að stemma stigu við misnotkun metýlfenídatlyfja. Á málþinginu um rétt fullorðinna til ADHD-meðferðar á Læknadögum kom skýrt fram sú afstaða hjá Tómasi Zoëga geðlækni að Embætti landlæknis þurfi að nýta lyfjagagnagrunn sinn og þau lagaúrræði sem embættið hefur til að sinna eftirliti með ávísunum ávanalyfja.

Það má því heita merkilegt að læknar sem unnið hafa ötullega að því að vekja athygli á vandanum og koma með tillögur til úrbóta hafa á umliðnum mánuðum beint og óbeint verið sakaðir um að þeir hafi ekki brugðist við vandanum og eigi jafnvel beinlínis sök á honum. Þar hafa læknar orðið fyrir barðinu á gagnrýni sem ætti ekki síður að beinast að meingölluðu lyfjaskráningarkerfi og sundurlausri rafrænni sjúkraskráningu sem læknar hafa um árabil óskað eftir að yrði samræmd á landsvísu. En án fjármuna og pólítísks vilja verða engar úrbætur gerðar á gagnagrunnum og rafrænni sjúkraskrá þrátt fyrir fögur orð.

Samkvæmt tölum síðasta árs frá sjúkrahúsinu Vogi sprauta níu af hverjum tíu sprautufíklum sig með rítalíni.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica