06. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Frá siðanefnd Læknafélags Íslands

Árið 2011, þriðjudaginn 3. maí, kom siðanefnd Læknafélags Íslands saman til fundar að Hlíðasmára 8, Kópavogi. Nefndina skipa Allan V. Magnússon héraðsdómari, formaður, Hulda Hjartardóttir læknir og Stefán B. Matthíasson læknir. Fyrir var tekin kæra (A) frá 23. mars sl. á hendur Högna Óskarssyni lækni og kveðinn upp svohljóðandi úrskurður:

ÚRSKURÐUR

Meðbréfi dagsettu 23. mars sl. barst siðanefnd Læknafélags Íslands kvörtun lögmanns A vegna álitsgerðar Högna Óskarssonar, geðlæknis, dags. 25. október 2010.

Í bréfi lögmannsins segir m.a. að umkvörtunarefnið lúti fyrst og fremst að því að Högni meti í álitsgerð sinni sjúkdómseinkenni A og dragi þær ályktanir að ástand hans verði ekki rakið til mögulegs eineltis á vinnustað. Á bls. 5 í álitsgerðinni gefi Högni svo í skyn að A sé að gera sér upp veikindi. Sú aðferðafræði sem Högni noti til að draga ályktanir um heilsufar A sé vægast sagt varhugaverð. A hafi aldrei sótt meðferð hjá Högna eða á læknastöð hans. Þeir hafi aldrei talast við og ekki hist í eigin persónu. Högni sé þannig að sjúkdómsgreina mann og draga ályktanir um sjúkdómseinkenni hans, án þess að hafa hitt sjúklinginn.

Í álitsgerðinni leitist Högni einnig við að kasta rýrð á fyrirliggjandi læknagögn og vottorð með því að draga í efa innihald þeirra.

Þrátt fyrir að allar upplýsingar sem Högni hafi séu einungis af afspurn og að hann hafi ekki framkvæmt neina rannsókn á A, né skoðað sjúkrasögu hans eða önnur læknagögn, komist Högni að þeirri niðurstöðu að veikindi A verði ekki rakin til þess eineltis sem hann hafi mátt þola á vinnustað sínum. Þeir læknar og sálfræðingar sem hafi aftur á móti haft A til meðferðar og gert á honum rannsóknir komist að annarri niðurstöðu.

Hvaða erinda Högni gangi með skrifum sínum eigi ekki að skipta nokkru máli í þessum efnum. Tilgangurinn með álitsgerð Högna sé vafalaust að kasta ryki í augu matsmanna og reyna að styrkja málstað matsþola. Sú aðferðafræði eða öllu heldur skortur á henni, sem Högni  beiti við að greina sjúkdómseinkenni A eigi hins vegar ekki að líðast innan læknastéttarinnar, enda kunni þær aðferðir sem Högni beiti að geta orðið til þess að A fái ekki þá læknismeðferð sem honum beri að fá við sjúkdómi sínum. Háttsemin sé í það minnsta til þess fallin að hafa áhrif á meðferð A þegar geðlæknir með áratugareynslu reyni að hafa áhrif á meðferð hans utan frá og byggi álit sitt eingöngu á því sem hann hafi eftir þriðja aðila, en ekki á rannsóknum eða læknagögnum.

Í greinargerð sinni til siðanefndar segir Högni Óskarsson m.a. að hann hafi verið beðinn um það af matsþola í matsmáli því sem var til meðferðar (þ.e. Seltjarnarnesbæ og bæjarstjóra) að skoða gögn og annað sem tengdist málinu, til þess að meta hvort um einelti hafi verið að ræða. Hafi honum þannig verið falið af Seltjarnarnesbæ að skoða málatilbúnað og rök ERGO lögmanna um að A hefði orðið fyrir einelti af hálfu bæjarstjóra, og hvort veikindafjarvistir gætu skýrst af meintu einelti. Aðkoma hans hafi verið byggð fyrst á störfum sem stjórnendaþjálfari og ráðgjafi í ýmsu sem snúi að mannauðsmálum innan fyrirtækja, en læknisfræðileg þekking komi þar á eftir og hafi haft miklu minna vægi í álitsgerðinni.

Við vinnu sína hafi hann fyrst og fremst stuðst við matsbeiðni lögmanna A, en í henni sé að finna atvikalýsingu frá sjónarhorni A og lögmanna hans, tilvísanir í læknisvottorð og vottorð sálfræðings.  Auk þessi hafi hann átt viðtöl við Ásgerði Halldórsdóttur bæjarstjóra og Gunnar Lúðvíksson fjármálastjóra Seltjarnarnesbæjar, skoðað afrit af tölvupóstum, og bókunum bæjarstjórnar og fundargerða nokkurra nefnda, sem málið snerti.

Hann hafi strax tekið þá ákvörðun, að þar sem vinna hans hafi aðallega beinst að greiningu á mögulegu einelti og væri unnin í krafti reynslu hans sem stjórnendaþjálfara og ráðgjafa til fyrirtækja, þá væri ekki rétt að hann myndi biðja lækna og sálfræðing um afrit af vottorðum þeirra. Aðgang að öllum gögnum, þ.m.t. læknisvottorð, myndi hann fá þegar málsskjöl yrðu lögð fram fyrir Héraðsdómi. Þannig yrði það tryggt að hann væri ekki að notfæra sér læknisstarf sitt til að fá aðgang að vottorðum frá læknum, þegar hann væri að vinna fyrst og fremst sem ráðgjafi. Sömuleiðis hefði hann fengið munnlega staðfestingu um að vottorðin væru hefðbundin og stöðluð veikindavottorð læknis, án sjúkdómsgreininga eða skýringa.

Það hafi einnig verið ljóst í upphafi, að þar sem hann væri að vinna fyrir Seltjarnarnesbæ og þar sem hlutlausir matsmenn kæmu að málinu á seinni stigum, væri það ekki rétt af honum að fara fram á viðtal við A.

NIÐURSTAÐA


Í greinargerð sinni til nefndarinnar krefst Högni þess að máli þessu verði vísað frá siðanefnd þar sem málið sé vanreifað, kjarni kvörtunar lögmanns kvartanda í hróplegu ósamræmi við staðreyndir málsins og sá galli sé á málatilbúnaði að matsbeiðni liggi ekki fyrir.

Siðanefnd telur að kvörtunarefni það sem til úrlausnar er sé ljóst og gögn skorti ekki til þess að nefndin geti lagt úrskurð á álitaefnið.

Tekur nefndin því efnislega afstöðu til  málsins á grundvelli þeirra gagna sem fyrir nefndinni liggja.

Hinn 15. október 2010 voru á dómþingi Héraðsdóms Reykjavíkur dómkvaddir matsmenn til að framkvæma mat á því hvort matsbeiðandi A, hafi orðið fyrir einelti af hálfu matsþola, Ásgerðar Halldórsdóttur. Matsmenn hafi fengið matsbeiðni, dagsetta 20. júlí 2010, undirritaða af Jóhanni H. Hafstein/Ergo lögmenn, lögmanni matsbeiðanda, ásamt fylgiskjölum. Jafnframt hafi þeir fengið álitsgerð Högna Óskarssonar /Humus ehf., dagsetta 25. okt. 2010 vegna kröfu Ergo lögmanna til Héraðsdóms Reykjavíkur vegna meints eineltis á vinnustað, og síðar viðbót við hana, dagsetta þann 10. nóv. 2010. Þá hafi matsmenn fengið athugasemdir Jóhanns H. Hafstein/Ergo lögmenn við álitsgerð Högna Óskarssonar/Humus ehf., dags. 10. nóvember og aftur svar Högna Óskarsonar/Humus ehf. við athugasemdum Ergo lögmanna frá 10. nóvember við álitsgerð Högna Óskarssonar dags. 22. nóv. 2010.

Í matsbeiðni Jóhanns H. Hafsteins frá 20. júlí 2010 er óskað eftir skriflegu og rökstuddu mati á eftirfarandi:

1.  Getur matsmaður staðreynt að matsbeiðandi hafi orðið fyrir einelti af hálfu matsþola, Ásgerðar Halldórsdóttur, bæjarstjóra? Ef spurningunni er svarað játandi er þess óskað að matsmaður fjalli ítarlega um með hvaða hætti matsbeiðandi hafi orðið fyrir einelti af hennar hálfu og svari jafnframt neðangreindum spurningum:

A. Hvaða afleiðingar hefur staðreynt einelti haft á sjálfsmynd, líðan og heilsu matsbeiðanda?

B.  Hvaða úrræða er unnt að grípa til þannig að líkur standi til að matsbeiðandi nái fyrri heilsu og eðlilegri andlegri líðan?

C. Hvernig má fyrirbyggja að staðreynt einelti í garð matsbeiðanda haldi áfram?

D. Hvenær má ætla að matsbeiðandi geti hafið störf að nýju hjá matsþola, Seltjarnarnesbæ?

E.  Til hvaða aðgerða þarf að grípa í vinnuumhverfinu á skrifstofu matsþola, Seltjarnarnesbæjar, til að auka líkur á að matsbeiðandi geti rækt starf sitt framvegis ef hann nær heilsu á ný?

Tilefni álitsgerðar Högna Óskarssonar er  framangreind matsbeiðni eins og reyndar kemur fram í upphafi álitsgerðarinnar þar sem Högni greinir frá því að hann sé geðlæknir, stjórnendaþjálfari og ráðgjafi fyrirtækja og stofnana í málum sem lúti að andlegu og félagslegu heilsufari starfsmanna. Hann hafi verið beðinn um af matsþola að skoða gögn og annað sem tengist málinu, til þess að meta hvort um einelti hafi verið að ræða. Rétt sé einnig að taka fram að hann hefði setið í bæjarstjórn Seltjarnarnesbæjar árin 1994-2002 og ýmsum nefndum sem fulltrúi Neslistans.

Í lokaorðum álitsgerðar Högna segir:

Ekki dregið í efa að matsbeiðanda hafi liðið illa, þó að ekki liggi fyrir formleg greining um geðröskun eða sjúkdóm. Það er reyndar óvenjulegt að mati undirritaðs að óvinnufærni vegna „talsverðra álags- og þunglyndiseinkenna“, eins og segir í læknisvottorði, standi í sex mánuði eða lengur eins gerst hefur í tilfelli matsbeiðanda. En hvert tilfelli er einstakt og verður því ekki nánar farið út í þetta hér.

Í dæmunum fimm, sem fjallað er um hér að framan út frá upplýsingum í matsbeiðni og skýringum matsþola og tilvitnunum í tölvusamskipti og fundargerðir Seltjarnarnesbæjar, þá er niðurstaða undirritaðs sú, að vanlíðan matsbeiðanda sé ekki hægt að rekja til meints eineltis eða ofsókna af hálfu matsþola. Þetta staðfestist enn frekar þegar lög og reglugerð um einelti er skoðuð. Atvikalýsingar uppfylla engan veginn þau skilmerki sem flokkast undir einelti.

Vottorð heilsugæskulæknis og sálfræðings sanna heldur ekki á neinn óyggjandi hátt að orsök vanlíðunar matsbeiðanda megi rekja til eineltis eða ofsókna.

Einhverjar aðrar skýringar hljóta því að liggja að baki heilsubresti matsbeiðanda.

Siðanefnd lítur svo á að engan veginn verði litið á álitsgerð Högna Óskarssonar sem læknisverk eða að A hafi stöðu sjúklings gagnvart lækni þannig að ákvæði Codex Ethicus taki til máls þessa. Álitsgerð Högna var unnin að beiðni matsþola í matsmáli og fól í sér almennt mat hans og skoðun á því álitaefni sem borið var undir matsmenn og ber að skoða sem hluta málatilbúnaðar í matsmáli. Enda þótt finna megi að orðalagi í lokasetningu tilvitnaðra lokaorða álitsgerðar læknisins þykja þau ekki varða við 11. gr. Codex Ethicus. Að öðru leyti er ekki að heldur sýnt fram á það af hálfu kvartanda að umfjöllun og efnistök Högna í álitsgerð þessari feli í sér brot á Codex Ethicus og er Högni því sýkn af ásökunum um brot á siðareglum lækna.

ÚRSKURÐARORÐ


Högni Óskarsson læknir gerðist ekki brotlegur við Siðareglur lækna (Codex Ethicus) í álitsgerð sinni frá 25. október 2010.


Allan V. Magnússon,  Hulda Hjartardóttir, Stefán B. Matthíasson
Þetta vefsvæði byggir á Eplica