06. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Grasset-próf, hvað er það?

Taugalæknar eru þekktir fyrir að nota ýmis torkennileg mannanöfn, sem erfitt er að bera fram, hvað þá stafsetja, þegar þeir ræða um heiti taugasjúkdóma og einkenna frá taugakerfi. En hvernig komu þessi heiti til og eru þau alltaf rétt notuð? Í þessum pistli förum við yfir nokkrar nafngiftir og tökum eitt dæmi sem sýnir að okkur getur borið af leið og því ástæða til að kynna sér sögu og tilurð þeirrar nafnanotkunar sem um ræðir.

Taugalæknisfræðin varð að sjálfstæðri sérgrein í lok 19. aldar og byrjun þeirrar tuttugustu.1 Oft var gripið til þess ráðs að nefna einkenni eða fyrirbæri eftir þeim sem fyrstir lýstu þeim. Englendingurinn James Parkinson (1755-1824) kallaði sjúkdóm sem við hann er kenndur the shaking palsy (paralysis agitans). Jean-Martin Charcot (1825-1893), sem rannsakaði sjúkdóminn klínískt og meinafræðilega, varð hins vegar fyrstur til að kalla hann Parkinsonveiki eða maladie de Parkinson. Eins og þessi saga sýnir var Charcot umhugað um að þeir hlytu viðurkenningu sem fyrstir lýstu fyrirbærinu. Því miður eru ekki allir eins víðsýnir. Persónulegur ágreiningur og þjóðremba hefur haft áhrif á nafngiftir, sem endurspeglast í því að sumir sjúkdómar og einkenni hafa fleiri en eitt nafn. Menn hafa í seinni tíð fallið frá því að kenna sjúkdóma og læknisfræðileg fyrirbæri við ákveðna menn (eponym), og reynt eftir bestu getu að flokka þá eftir meinsemd og orsökum þeirra.

Grasset-próf

Þegar tveir okkar, Albert Páll og Haukur, voru í læknadeild HÍ á 9. áratug síðustu aldar, var þeim samviskusamlega kennt að nota Grasset-próf. Sigurjóni, sem er elstur af okkur, var hins vegar ekki kennt þetta heiti á þeim þætti taugaskoðunar sem um ræðir á sínum læknastúdentsárum. Hauki og Alberti var kennt að við Grasset-próf væri sjúklingur beðinn að halda handleggjum beint fram og útréttum, með lófa upp (hendur eru rétthverfar; e. supination), fingur glennta og loks beðinn um að loka augum.

Tvennt getur gerst:

 1. Handleggur sígur ekki og lófi helst stöðugur. Grasset-prófið telst neikvætt.
 2.  Lófi snýst og hendi ranghverfist (e. pronation) og beygja verður á handlegg um olnboga. Þegar svo er telst Grasset-próf jákvætt, en orsök þess er talin vera skemmd í efri hreyfitaugungi (e. upper motor neuron) í heila- eða mænubrautum.

Þegar Albert Páll fór í sérnám til Bandaríkjanna hélt hann áfram að halda uppi merkjum Grassets. Það skildi hins vegar enginn um hvað hann var að tala. Haukur hélt til Svíþjóðar til náms þar sem segja má að „Grasset-prófið“ hafi grasserað. Sigurjón dvaldi í Englandi og heyrði aldrei minnst á Grasset. Fljótlega eftir að höfundar fóru að vinna saman á taugadeild Landspítalans við Hringbraut um 1999 bar þessa nafngift á góma. Við nánari athugun kom í ljós að ítalski læknirinn Giovanni Mingazzini (1859-1929) lýsti prófi þar sem sjúklingur heldur handleggjum beint fram með glennta fingur og lokuð augu. Sig annarrar handar, skjálfti eða beygja um olnboga eftir 30-60 sekúndur var talið benda til vægrar lömunar. Frakkinn Jean-Alexandre Barré (1880-1967) lýsti prófi þar sem sjúklingur heldur handleggjum beint fram, en lætur lófana snúa saman með fingur útglennta. Barré taldi að jafnvel mjög væg lömun mundi koma fram með því að fingur þeirrar handar færðust saman. Á sumum stöðum hefur það tíðkast að taugalæknar tali um Barré-próf þegar sjúklingur er beðinn um að halda handleggjum rétthverfum beint fram. Ef handleggurinn byrjar að ranghverfast er prófið talið jákvætt.2

Niðurstaða þessarar athugunar var sú að hvergi væri að finna lýsingu Grassets á umræddu prófi sem við hann er kennt í Svíþjóð og hér á landi, nema í sænskum kennslubókum í taugalæknisfræði.3 Tóku nú að vakna efasemdir um réttmæti heitsins, en ekki var gert meira í málinu að sinni. Árið 2006 birtist grein í Läkartidningen4 þess efnis að Grasset-próf væri rangnefni, Grasset hefði aldrei lýst þessu prófi og líklegast að þessi notkun á heitinu í sænskri taugalæknisfræði byggðist á misskilningi. Niðurstaða greinarinnar var því sú að best væri að hætta notkun þess. Lagt var til að prófið yrði kallað: „armar-framåt-sträck“ sem þýða má sem „handleggir beinir fram“. Þessi tillaga var tekin upp í nýjustu útgáfu aðalkennslubókar Svía í taugalækningum.5 Þrátt fyrir þetta hefur heitið lifað góðu lífi á Íslandi til skamms tíma. Eldri kollegum er tamt að nota það, auk þess sem nýtt heiti hefur vantað til að leysa það gamla af hólmi. Eftir útkomu sænsku greinarinnar var fljótlega reynt á taugalækningadeild Landspítalans að víkja heitinu frá, en einhverra hluta vegna héldu læknanemar og unglæknar áfram að nota það. Kom þá í ljós að við kennslu á taugaskoðun var notað sænskt myndband þar sem Grasset var títtnefndur. Þetta teljum við að minnsta kosti vera eina af skýringum þess að Grasset var reis aftur og aftur upp frá dauðum í okkar nærumhverfi. Okkur þykir því sá kostur vænstur að reyna nú að skrifa hann út af borðinu, í eitt skipti fyrir öll.

u0-6-fig1

Grasset, lifandi eða dauður? Teikning Halldór Baldursson.

Hvernig barst Grasset-próf til Íslands?

Okkur lék hugur á að vita hvernig Grasset-prófið hefði borist til Íslands og spurðum nokkra eldri kollega okkar um þetta. Í ljós kom að taugalæknar sem lærðu í Englandi, Bandaríkjunum, Noregi og Danmörku höfðu ekki lært eða tileinkað sér þetta heiti í framhaldsnámi sínu. Ásgeir B. Ellertsson hafði hins vegar vanist því að tala um Grasset-próf þegar hann var við framhaldsnám í taugalækningum við Karolínska sjúkrahúsið í Stokkhólmi árin 1964-1968. Margir fylgdu í fótspor Ásgeirs og lærðu sína taugalæknisfræði við sama sjúkrahús. Þaðan virðist notkun heitisins því hafa borist til Íslands. Grasset styrkti svo stöðu sína hér á landi eftir því sem taugalæknum menntuðum í Svíþjóð fjölgaði.

Hver var Grasset og hvaðan kom hann?

Læknirinn Joseph Grasset (1849-1918) var fæddur og uppalinn í Montpellier í Suður-Frakklandi. Hann stundaði nám í læknisfræði í heimaborg sinni og þar starfaði hann síðar sem læknir og prófessor í læknisfræði. Grasset hafði einkum áhuga á tauga- og geðlæknisfræði og einnig dulspeki.6

Í taugalæknisfræðinni eru væg sjúkdómsteikn oft mikilvæg í greiningarskyni en þau geta einnig verið gagnleg til að greina á milli vefrænnar og starfrænnar röskunar (á ítölsku eru þau kölluð i „piccoli segni“). Grasset lýsti nokkrum slíkum sjúkdómsteiknum sem eru nefnd eftir honum.7

 1)        Sjúklingur með heilahvelsskaða, sem veldur lömun, snýr höfði og augum í átt að hinu skaddaða hveli og frá hliðinni sem er lömuð (Grasset´s law). Í staðflogi snúa höfuð og augu frá heilahvelinu sem veldur floginu.

2)        Þegar liggjandi sjúklingur með lamaðan fótlegg reynir að lyfta honum spyrnir hann niður með heilbrigða fætinum, en í starfrænni truflun lyftist heilbrigði fóturinn (Grasset´s phenomenon).

3)        Hjá sjúklingi með helftarlömun er samdráttur höfuðvendis (m. sternocleidomastoideus) eðlilegur þeim megin sem lömunin er (Grasset´s sign). Sjúklingurinn getur því snúið höfði til gagnstæðrar áttar við lömuðu hliðina.

Hvað eigum við að nota í staðinn fyrir heitið Grasset-próf?

Svíar hafa ekki enn gert sér grein fyrir hvaðan notkun þeirra á Grasset heitinu á umræddum þætti taugaskoðunar er kominn. Þeir hafa hins vegar lagt Grasset til hliðar og í ljósi þess sem sagt er hér að framan er eðlilegt að við gerum slíkt hið sama. Í staðinn leggjum við til að tekið verði upp íslenskt heiti yfir þá skoðun sem Grasset heitið hefur hingað til verið notað um. Okkar tillaga er að heitið armréttupróf verði notað í stað Grasset-prófsins.

 1. Handleggur helst í óbreyttri stöðu og sígur ekki. Þá mætti tala um neikvætt armréttupróf.
 2. Hendi ranghverfist og handleggur beygist um olnboga og getur sigið. Armréttupróf telst jákvætt.

Heimildir

 1. Stefánsson SB. Taugalæknisfræði: sérgrein verður til. Læknablaðið 2010; 96/Fylgirit 64: 59-102.
 2. Koehler PJ. Neurological Eponyms. (ritstj Koehler PJ, Bruyn GW, Pearce  JMS). Oxford University Press, 2000: 119-26.
 3. Aquilonius SM, Fagius J (ritstj). Neurologi. 2. útg. Almqvist och Wiksell Medicin, Stokkhólmi 1994.
 4. Fredrikson S, Ekbom K. »Armar-uppåt-sträck« bättre än »Grassets test«. Läkartidningen 2006; 103: 13.
 5. Aquilonius SM, Fagius J (ritstj.) Neurologi. 4. útg. Almqvist og Wiksell Medicin, Stokkhólmi 2006.
 6. Morel P. Dictionnaire biographique de la psychiatrie. Éditions Synthélabo, París 1996.
 7. www.whonamedit.com/doctor.cfm/355.html - apríl 2011.

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica