06. tbl. 97. árg. 2011

Fræðigrein

ALDARAFMÆLI HÍ - Björn Sigurðsson læknir og ævistarf hans

MargretGudnadottir2

Margrét Guðnadóttir veirufræðingur

Eins og alþjóð veit er aldarafmæli Háskóla Íslands á þessu ári. Einn liður í afmælishátíðinni er helgaður afburða vísindastörfum Björns Sigurðssonar, læknis og fyrsta forstöðumanns Tilraunastöðvar Háskólans í meinafræði að Keldum.

Björn Sigurðsson fæddist að Veðramóti í Skagafirði árið 1913. Hann lauk stúdentsprófi í Reykjavík 1932 og fimm árum síðar kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands. Það var óvenju stuttur námstími. Sumarið 1936 sendi landlæknir læknanemann Björn Sigurðsson norður í Flatey á Skjálfanda að rannsaka taugaveikifaraldur sem þar gekk. Um árangur þeirrar ferðar skrifaði Björn skýrslu sem landlæknir birti í Heilbrigðisskýrslum 1936. Vinnan sem lýst er í þessari frumsmíð höfundarins, ber með sér alla þá eiginleika sem áttu eftir að móta farsælt starf hans síðar á ævinni, vandvirkni, óþreytandi starfsorku, rökhyggju, útsjónarsemi og frumleika. Þarna á skerinu norður við Dumbshaf tókst Birni að búa til nothæfan hitaskáp úr næstum því engu efni. Við þessar „starfsaðstæður“ leysti hann af hendi með prýði það verk sem hann hafði tekið að sér. Sömu eiginleikar nutu sín vel nokkrum árum síðar, þegar Björn lagði fræðilegan og efnahagslegan grundvöll að Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum og þeim verkefnum sem þar var unnið að í hans tíð.

Björn var námskandídat á sjúkrahúsi Hvítabandsins í Reykjavík og jafnframt aðstoðarlæknir á rannsóknastofu Háskólans í meina- og sýklafræði við Barónsstíg. Að loknu kandídatsárinu lá leið Björns til Kaupmannahafnar í framhaldsnám í meina- og sýklafræði. Þar var hann vorið 1940, þegar Þjóðverjar hernámu Danmörku og Bretar Ísland. Björn kom heim haustið 1940 með Petsamóhópnum, síðasta Íslendingahópnum sem komst hingað frá Danmörku meðan seinni heimsstyrjöldin geisaði. Hann fór aftur að vinna á rannsóknastofu Háskólans. Sumarið 1941 fékk Björn styrk úr Rockefellersjóði til framhaldsnáms í Bandaríkjunum. Hann var þar í tvö ár við nám og rannsóknir í Princeton-háskóla í New Jersey og lagði aðaláherslu á veirufræði, fræðigrein sem þá var eiginlega í frumbernsku. Björn kom heim úr Bandaríkjadvölinni sumarið 1943.

Á námsárum Björns barst hingað plága sem gerði nærri útaf við sauðfjárbúskapinn, einn aðalatvinnuveginn í landinu í þá daga. Árið 1933 voru fluttar hingað 20 kindur af karakúlstofni. Þær komu frá margverðlaunuðu þýsku fjárræktarbúi og voru með öll tilskilin heilbrigðisvottorð í góðu lagi. Íslenskur dýralæknir hafði verið sendur að skoða þær vel og vandlega áður en þær voru keyptar, og hér tók við tveggja mánaða sóttkví í Þerney áður en kindunum var dreift á bestu bæi um land allt. Samt fluttu þessar skepnur með sér fjóra banvæna sjúkdóma sem höfðu ekki áður sést hér. Tveir þeirra, garnaveiki (paratuberculosis) og votamæði (pulmonary adenomatosis), voru þekktir í öðrum löndum, þó að enginn hefði áður séð þá hér, en tveir, þurramæði (maedi) og visna (visna), höfðu hvergi fundist áður. Alþjóðaheiti þeirra eru íslensk, þ.e. heitin sem Björn Sigurðsson notaði í fræðigreinunum þegar hann lýsti meingerð þeirra fyrstur manna. Rannsóknir á þessum fjórum sjúkdómum urðu aðalstarf Björns og grundvöllur þeirrar skilgreiningar á hæggengum veirusýkingum sem hann er þekktastur fyrir. Það liðu tvö til sex ár frá þessum innflutningi þar til fór að bera á sjúkdómum í heimafénu hér. Rannsóknaraðstaða var hvergi nema á rannsóknastofu Háskólans í meina- og sýklafræði og læknarnir þar unnu allir að því að reyna að leysa gátuna þegar glíman við hana byrjaði. Tjón bænda jókst með hverju ári sem leið og mikil þörf var orðin á betri rannsóknaraðstöðu fyrir landbúnaðargeirann. Þegar Björn kom aftur frá Bandaríkjunum fór hann beint í fulla vinnu á rannsóknastofu Háskólans og vann jafnframt að því að koma upp alveg nýrri stofnun, Tilraunastöð Háskólans í meinafræði að Keldum. Stór Rockefellerstyrkur fékkst til þessarar nýju tilraunastöðvar með því skilyrði að Björn Sigurðsson yrði þar forstöðumaður. Þessi nýja tilraunastöð tók til starfa árið 1948 og stýrði Björn henni af miklum krafti til æviloka.

Björn var einstakur starfsmaður sem allir á Keldum báru mikla virðingu fyrir. Fyrir Birni voru erfiðleikar til að sigrast á þeim, verkefnin til að vinna þau vel, niðurstöður tilrauna til að draga af þeim rökréttar ályktanir, skoðanamunur til að ræða hann og komast að rökréttum niðurstöðum, og í fræðunum fannst honum réttast að leggja spurningar vandlega fyrir náttúruna sjálfa með tilraunum og athuga svörin. Þannig lifði Björn lífinu í dagsins önn. Hann vann daglega langan starfsdag. Þó að hann hefði með höndum svo mikla stjórnsýslu að flestum fyndist það fullt starf nú, virðist það ekki hafa komið mjög mikið niður á vinnu hans að þeim tímafreku langtímarannsóknum sem hann vann að með eigin höndum alla sína tíð.

f03-fig2
Fjórir vísindamenn á Keldum, talið frá vinstri: Páll Agnar Pálsson, Björn Sigurðsson, Guðmundur Gíslason og Halldór Grímsson.  Ljósmynd: Páll Sigurðsson

Björn Sigurðsson vildi hag Háskóla Íslands sem mestan og bestan. Hann átti sæti í læknadeild og hafði þar atkvæðisrétt öll árin sem hann stjórnaði Tilraunastöðinni á Keldum. Það var því ekki síst læknadeildin sem varð fyrir tjóni þegar Björn féll frá, löngu fyrir aldur fram, haustið 1959.

Björn átti sæti í Rannsóknaráði ríkisins og hann átti stóran þátt í stofnun Vísindasjóðs til styrktar rannsóknum í læknisfræði og náttúruvísindum. Hann byggði hér sjálfur upp háskólastofnun, sambærilega við þær stofnanir sem störfuðu á sömu fræðisviðum á öðrum Norðurlöndum og hafði óbilandi trú á landinu okkar og því sem hér væri hægt að gera. Ekki var síðri trú hans á fólkið í landinu, ef það fengi tækifæri til góðrar háskólamenntunar og vinnuskilyrði til að nýta starfskrafta sína hér heima.

Björn á Keldum varð aðeins 46 ára. Það er alveg ótrúlegt hverju honum tókst að koma í verk á sinni skömmu starfsævi og hversu góð ritverk hans eru. Þau eru nú öll aðgengileg í sinni upprunalegu mynd í bók sem synir hans gáfu út árið 1989. Björn var jafnvígur á rannsóknastörf í meinafræði, bakteríufræði, veirufræði og ónæmisfræði síns tíma og vann sígild verk á öllum þessum sviðum, þó að hans verði lengst minnst í veirufræðinni. Hann las mikið, tók virkan þátt í ráðstefnum erlendis og fylgdist mjög vel með því sem var að gerast á þessum fræðasviðum. Árið 1954 var Birni boðið að flytja fyrirlestra um hæggengar veirusýkingar við dýralæknaskólann í London, og fyrirlestrarnir birtir sama ár í The British Veterinary Journal. Þarna skilgreindi Björn í fyrsta skipti hæggengar veirusýkingar opinberlega. Árið 1958 kom út yfirlitserindi eftir hann um þetta efni í Skírni.

Bólusetningar gegn smitsjúkdómum voru Birni hugleiknar. Hann bjó til bóluefni gegn garnaveiki í sauðfé og notaði það með góðum árangri. Síðan hefur það verið notað hér til að verjast þeim skaðvaldi. Björn varði doktorsritgerð um garnaveikirannsóknir sínar við Kaupmannahafnarháskóla árið 1955.

Björn var ráðgjafi landlæknis við val á mænusóttarbóluefni, þegar kostur var á að fá það til landsins í fyrstu mænusóttarbólusetningarnar hér árið 1957. Hann hafði mikinn áhuga á inflúenzu-rannsóknum og var einn af stofnendum World Influenza Center á vegum Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar (WHO). Þegar nýtt afbrigði af inflúenzuveiru kom upp árið 1957, framleiddi Björn ásamt Júlíusi Sigurjónssyni, prófessor í heilbrigðisfræði í læknadeild, bóluefni til að nota hér í vissa hópa fólks. Veturinn 1948-49 kom hér  upp áður óþekktur smitsjúkdómur, svokölluð Akureyrarveiki, hitasótt með einkennum frá miðtaugakerfi. Björn Sigurðsson var í hópi lækna sem greindu og lýstu þessum sjúkdómi fyrstir. Síðan hefur líkur sjúkdómur komið upp á afmörkuðum svæðum erlendis, en orsakirnar eru enn ófundnar.

Vísindastörf Björns Sigurðssonar voru vel þekkt erlendis á hans dögum. Síðan er oft til þeirra vitnað. Þegar eyðnin kom upp, um 1980, féll sá sjúkdómur vel að 30 ára gamalli skilgreiningu Björns á hæggengum veirusýkingum, og þegar eyðniveirur ræktuðust féllu þær í flokk hægu veiranna (lentiveiruflokkinn), þar sem fyrir voru visnu- og mæðiveirurnar úr samnefndum karakúlpestum.

Höfundur þessarar greinar átti því láni að fagna að vinna á Keldum undir stjórn og leiðsögn Björns á námsárunum. Þar lærði ég meira en á árunum erlendis, sem á eftir fóru, og fæ aldrei fullþakkað það tækifæri sem ég fékk þarna til að kynnast þeim fyrirmyndarvinnubrögðum sem voru viðhöfð á Keldum í tíð Björns og þeim lífsviðhorfum sem þar réðu ferðinni.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica