05. tbl. 97. árg. 2011

Umræða og fréttir

Upplýsingakver um lungnakrabbamein

u06-fig1Út er komið kverið Lungnakrabbamein eftir Tómas Guðbjartsson, hjarta- og lungnaskurðlækni, prófessor í skurðlækningum og yfirlækni á Landspítala. Ritinu er ætlað að veita sjúklingum sem greinst hafa með lungnakrabbamein og aðstandendum þeirra upplýsingar um sjúkdóminn. 

Að sögn Tómasar Guðbjartssonar var við gerð kversins höfð til hliðsjónar bókin Lungnakrabbamein sem hópur lækna af Landspítalanum gaf út í samvinnu við Roche á vormánuðum 2009. „Efni kversins er þó hannað frá grunni með sjúklinga í huga og því ekki byggt á fyrrnefndri bók um lungnakrabbamein. Bókin var skrifuð með heilbrigðisstarfsfólk í huga en brýn þörf hefur verið á fræðsluefni til sjúklinga sem kverinu er ætlað að bæta úr. Því er þó ekki ætlað að koma í stað bæklinga sem til eru á hinum ýmsu deildum Landspítala, heldur er það hugsað sem viðbótarfræðsluefni og er hugmyndin að sjúklingurinn fái þetta í hendur um það leyti sem hann greinist, þ.e. þegar hann er í greiningarferli.“

Í kverinu er fjallað nokkuð ítarlega um sjúkdóminn og segir Tómas að þetta sé ákveðin tilraun til veita fræðslu um eðli og þróun þessa alvarlega sjúkdóms, lögð er áhersla á nýjungar í greiningu og meðferð og tekið mið af íslenskum aðstæðum. Til ráðgjafar við textagerð voru 16 íslenskir sérfræðingar úr þverfaglegu teymi. Einnig er að finna í kverinu almennan fróðleik um sjúkdóminn, en á síðustu árum hafa miklar framfarir orðið í greiningu og meðferð lungnakrabbameins.

„Lungnakrabbamein er mikið heilbrigðisvandamál hér á landi, líkt og annars staðar í heiminum. Í dag greinast tveir af hverjum þremur sjúklingum með útbreiddan sjúkdóm, sem á sinn þátt í því að lungnakrabbamein leggur marga einstaklinga að velli. Á síðasta áratug hafa orðið framfarir í greiningu og meðferð lungnakrabbameins sem vekja vonir um bættan árangur, ekki síst hjá sjúklingum sem ekki hafa staðbundinn sjúkdóm. Ekki má gleyma mikilvægi reykingavarna, en síðustu áratugi hefur dregið verulega úr reykingum hér á landi, sem vonandi á eftir að skila sér í enn frekari fækkun tilfella af  lungnakrabbameini. Forvarnir og hjálp til reykleysis eru því afgerandi varðandi árangur af baráttunni við lungnakrabbamein,“ segir í lokaorðum fræðslukversins Lungnakrabbamein, upplýsingar fyrir sjúklinga og aðstandendur.Þetta vefsvæði byggir á Eplica