01. tbl. 97. árg. 2011
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Heilsugæsla í kreppu. Anna Kristín Jónsdóttir
Undanfarinn áratug hefur verið stöðug krafa um sparnað í heilbrigðiskerfinu, ekki síður fyrir hrun. Heilbrigðiskerfið var alltaf of dýrt, best í heimi en samt of dýrt. Eftir hrun hefur sparnaðarkrafan aukist enn meira. Laun hafa verið lækkuð, starfsfólki fækkað, vinnuálagið aukið. Erum við komin að sársaukamörkunum? Frekari sparnaður þýðir minnkun á þjónustu. Hvaða þjónustu á að minnka?
Undanfarin ár hefur hver einasti heilbrigðisráðherra talað um að styrkja heilsugæsluna. Heilsugæslan hefur lítið orðið vör við þá styrkingu. Þar hefur líka verið sparað, laun lækkuð, yfirvinna tekin af, ekki ráðið í stöður sem losna. Það hefur þýtt minna tímaframboð svo aðgengi sjúklinga hefur skerst. Pappírsvinna hefur margfaldast, meðal annars vegna vottorðaskrifa, svo sem vegna umsókna um lyfjaskírteini, sem er liður í að ná niður lyfjaverði. Fyrir vikið er enn minni tími fyrir sjúklinginn.
Ein sparnaðarhugmynd heilbrigðisyfirvalda er að koma á tilvísanakerfi. Það tókst ekki síðast þegar það var reynt fyrir 15-20 árum. Nú er sú lest farin. Eins og staðan er í dag leyfir mönnunin ekki tilvísanakerfi. Farið er að bera á erfiðleikum við að koma sjúklingum til lækna í sumum sérgreinum. Þörf er á að finna nýjar boðleiðir og gera aðgengi greiðara. Á félagsfundi LR fyrir stuttu voru aðgengismál til umræðu. Var mikill samhugur á fundinum og komu fram ýmsar tillögur. Þegar eru skipulagðar greiðar boðleiðir, til dæmis fyrir fólk með hnút í lunga. Meðal annars kom fram sú hugmynd að setja í hendur sérgreinalæknahóps í tiltekinni sérgrein að skipuleggja greiðara aðgengi. LR og LÍ hafa sameiginlega skipað í starfshóp til að vinna áfram að þeim hugmyndum sem fram komu á fundinum. Með bættum boðleiðum milli heilsugæslu, stofulækna og sjúkrahúsa væri minni þörf á tilvísanakerfi. Hægt að koma í veg fyrir tvíverknað, til dæmis við rannsóknir. Sjúklingar fengju hraðar viðeigandi meðferð. Það myndi spara talsvert.
Læknum hefur fækkað á Íslandi um meira en 100 síðustu tvö árin. Heimilislæknum hefur fækkað eins og öðrum læknum. Stéttin er að eldast, um eða yfir helmingur heimilislækna fer á eftirlaun næstu 10-15 árin. Fækkun heimilislækna þýðir að sífellt færri eru til að sinna sjúklingum, en þeim fækkar ekki sem þurfa á þjónustunni að halda. Svarið verður að auka hraðann, en við það verður minni tími fyrir hvern sjúkling og meiri hætta á útbruna hjá lækninum. Því miður virðist ráðuneytið aðallega telja afköst heimilislækna í fjölda samskipta en ekki innihaldi. Hefur verið ýjað að leti ef samskiptin eru of fá að mati ráðuneytis. Einnig hefur heimilislæknum verið legið á hálsi fyrir að ýta vinnunni yfir á síðdegismóttökur heilsugæslustöðvanna eða á Læknavaktina, af fjárhagsástæðum. Staðreyndin er hins vegar sú að allir tímar að deginum eru fullbókaðir, ofan á fullbókaða móttöku bætast síðan við bráðaerindi, símtöl og lyfjaendurnýjanir, svo vinnan er unnin undir stöðugri tímapressu, sem er mjög slítandi til lengdar. Hugsjón flestra heimilislækna er að geta sinnt sjúklingum sínum sem best og sem fyrst, en í manneklu dagsins er sú hugsjón fjarlæg. Til að heilsugæslan geti sinnt sínu hlutverki er brýn þörf á að fjölga námsstöðum. Hugmyndir hafa komið fram um að endurskipuleggja námið svo hægt sé að taka inn fleiri sérnámslækna fyrir svipað fjármagn. Þarfnast þær nánari skoðunar. Það er einnig brýnt að gera starfsaðstæður meira aðlaðandi, minnka streituna og álagið, bæta aðstöðu til rannsókna og gæðaþróunar. Gerðar hafa verið breytingar á vinnuumhverfi lækna í heilsugæslunni, oftast án samráðs, en ef það hefur verið haft hefur ýmsum þótt það fremur til málamynda. Hefur þetta skapað óánægju, sem hefur hvatt enn meira til landflótta. Frekari hugmyndir eru uppi um breytt vinnuskipulag, meðal annars breytingar á síðdegisvöktum heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mikil hætta er á að ef slíkar hugmyndir verða keyrðar í gegn, án samvinnu við þá sem vinnunni sinna, muni enn fleiri greiða atkvæði með fótunum og flytja til útlanda. Hugmyndir hafa komið fram um leiðir til að lokka unga lækna heim úr sérnámi, til dæmis aðstoð með húsnæði, heimfararstyrk, skattaívilnanir. En það eina sem myndi lokka þá heim væri að læknar sem vinna á landinu væru ánægðir. Þar skipta tölur á launaseðlinum ekki bara máli heldur líka starfsaðstæður, að læknum sé treyst til að vinna starf sitt af alúð og fagmennsku og fái frið til að sinna sinni vinnu. Ég hvet heilbrigðisyfirvöld til að fara raunverulega að efla heilsugæsluna. Við heimilislæknar erum tilbúin í samvinnu við það.