01. tbl. 97. árg. 2011
Fræðigrein
Tilfelli mánaðarins – Ungur drengur með undarleg útbrot
Foreldrar tveggja ára hrausts drengs leituðu á bráðamóttöku barna. Fjórum vikum áður var barnið bitið af blóðmaur (e. ixodes tick) í Danmörku. Viku fyrir komu fékk drengurinn útbrot á handleggi og síðar komu fram útbrot á fótleggjum. Meðferð með Econazolum (Pevaryl®) að ráði barnalæknis var árangurslaus. Drengurinn hafði ekki önnur einkenni. Hann var hitalaus og líkamsskoðun var ómarkverð utan útbrota á hand- og fótleggjum (mynd 1 og mynd 2).
Hver er líklegasta sjúkdómsgreiningin?
Svar við tilfelli mánaðarins
Myndirnar sýna multiple erythema migrans. Í ljósi skýrrar sjúkrasögu vaknaði strax grunur um Lyme-sjúkdóm. Því var ákveðið að meðhöndla sjúklinginn með amoxicillín 50 mg/kg/dag í tvær vikur. Drengurinn varð einkennalaus við meðferð og útbrotin hurfu. Mótefnamælingar (ELISA mæling, Statens Serum Institut, Danmörk) sýndu jákvætt IgM og neikvætt IgG mótefnasvar gegn Borrelia burgdorferi, sem staðfesti nýlegt smit.
Lyme-sjúkdómur orsakast af ónæmissvari líkamans gegn B. burgdoferisem smitast með biti blóðmaura. Algengasta einkenni Lyme-sjúkdóms eru húðbreytingar (erythema migrans) sem byrja á bitstað blóðmaursins og koma oftast fram sjö til tíu dögum eftir bit.1 Breytingum geta fylgt ósértæk einkenni á borð við hita, slappleika, höfuðverk og bein- og vöðvaverki. Komist sjúkdómurinn á snemmkomið dreift form (e. early disseminated form) geta komið fram fleiri erythema migrans-breytingar auk þess sem heilataugalamanir (einkum andlitstaugarlömun) og einkenni heilahimnubólgu geta komið fram.1 Hjartabólgur sem hafa áhrif á leiðslukerfi hjarta eru fátíðar.2 Snemmkomið dreift form kemur oftast fram þremur til fimm vikum eftir upphaflega bitið.1 Algengasta einkenni síðkomins forms Lyme-sjúkdóms eru liðbólgur (einkum í hné), sem koma fram hjá allt að 10% fullorðinna og 5% barna.3 Meðal sjaldgæfari einkenni síðkomna formsins má nefna heilabólgur og fjöltaugabólgur.1 Þá ber að geta þess að í Skandinavíu (þar sem sjúkdómurinn er gjarnan kallaður neuroborreliosis) eru einkenni frá taugakerfi algengust, en í Bandaríkjunum eru liðbólgur algengastar. Þetta skýrist mögulega af mismunandi undirtegundum B. burgdoferi.1
Greining snemmkomins Lyme-sjúkdóms má staðfesta með sjúkrasögu og skoðun þegar erythema migrans-útbrot eru til staðar. Í upphafi sjúkdómsgangsins er mótefnamæling óáreiðanleg. Mótefnamælingar geta verið hjálplegar ef sjúklingur er talinn vera með Lyme-sjúkdóm á seinni stigum og engin útbrot eru til staðar. Hins vegar er algengi jákvæðs IgG-svars hátt í löndum þar sem B. burgdoferier landlæg, sem eykur hættu á ofgreiningu sjúkdómsins.
Greinist sjúkdómurinn á snemmkomnu stigi vegna húðútbrota og ósértækra einkenna er mælt með 14 daga meðferð með doxycýklíni, amoxicillíni eða cefúroxími á töfluformi.3 Alvarlegri einkenni þarf að meðhöndla með sýklalyfjum í æð.3 Batahorfur sjúklinga eru góðar, sérstaklega hjá þeim sem fá viðeigandi meðferð á frumstigum sjúkdómsins.4
Einkennum, greiningu og meðferð Lyme-sjúkdóms var lýst í Læknablaðinu 1989.5 Nýlega hefur skógarmítill (Ixodes ricinus) fundist á Íslandi, en hann getur borið B. burgdoferi. Bakterían hefur ekki greinst í skógarmítli hér. Ekki er heldur þekkt að innlent smit hafi valdið Lyme-sjúkdómi (Læknablaðið 2009; 95: 791). B. burgdoferi bakterían er hins vegar algeng í blóðmaurum í Skandinavíu sem og í Norðurríkjum Bandaríkjanna. Í ljósi tíðra ferðalaga Íslendinga utanlands og algengi sjúkdómsins í nágrannalöndum okkar ættu læknar á Íslandi að kannast við einkenni Lyme-sjúkdóms.
Heimildir
- Shapiro ED, Gerber MA. Lyme disease. Clin Infect Dis 2000; 31: 533-42.
- Manzoor K, Aftab W, Choksi S, Khan IA. Lyme carditis: sequential electrocardiographic changes in response to antibiotic therapy. Int J Cardiol 2009; 137: 167-71.
- Girschick HJ, Morbach H, Tappe D. Treatment of Lyme borreliosis. Arthritis Res Ther 2009; 11: 258.
- Gerber MA, Shapiro ED, Burke GS, Parcells VJ, Bell GL. Lyme disease in children in southeastern Connecticut. Pediatric Lyme Disease Study Group. N Engl J Med 1996; 335: 1270-4.
- Steingrímsson Ó, Kolbeinsson A. Lyme sjúkdómur. Læknablaðið 1989; 75: 71-4.