12. tbl. 110. árg. 2024

Ritstjórnargrein

Nýjungar í meðferð langvinns nýrnasjúkdóms. Fjölnir Elvarsson

Fjölnir Elvarsson | sérfræðingur í lyf- og nýrnalækningum Landspítala |

doi10.17992/lbl.2024.12.815

 

Algengi langvinns nýrnasjúkdóms eykst með aldri einstaklinga og með hækkandi aldri þjóða. Talið er að algengi langvinns nýrnasjúkdóms sé um 10% á heimsvísu eða um 850 milljónir í heiminum öllum.1

Algengi langvinns nýrnasjúkdóms á Íslandi er töluvert lægra, eða 4,75% meðal karla og 6,42% meðal kvenna.2 Algengustu orsakir langvinns nýrnasjúkdóms eru háþrýstingur og sykursýki. Eitt af teiknum langvinns nýrnasjúkdóms er prótein í þvagi sem er sértækur áhættuþáttur fyrir hjarta- og æðasjúkdómum en hjarta- og æðasjúkdómar eru helstu fylgikvillar langvinns nýrnasjúkdóms. Áhætta á hjarta- og æðaáföllum er rúmlega þreföld ef langvinnur nýrnasjúkdómur á stigi 4-5 er til staðar og áhætta á dauða allt að 3-6 föld, enn fremur er áætlað að allt að helmingur einstaklinga með langvinnan nýrnasjúkdóm á stigi 4-5 deyi af völdum hjarta- og æðaáfalla.3,4 Ljóst er að þessi sjúklingahópur þarfnast mikillar þjónustu heilbrigðiskerfisins og mun hann fara hratt stækkandi með hækkandi aldri þjóðar með tilheyrandi kostnaði.

Meðferð langvinns nýrnasjúkdóms miðar að því að hægja á framgangi sjúkdómsins og hindra lokastigs nýrnabilun. Með því væri hægt að draga úr áhættu hjarta- og æðaáfalla og dauðsfalla þeirra vegna.

Hornsteinn meðferðar langvinns nýrnasjúkdóms er góð blóðþrýstingsstjórnun, að draga úr próteinmigu en þar hafa lyf í flokki ACE-hemla (angiotensin converting enzyme inhibitors) og ARB (angiotensin receptor blockers) gegnt lykilhlutverki. Einnig er mikilvægt að meðhöndla vel aðra áhættuþætti eins og sykursýki.

Fátt nýtt hefur gerst i meðferð langvinns nýrnasjúkdóms síðastliðna áratugi þar til SGLT2-hemlar (sodium-glucose cotransporter 2) komu fram á sjónarsviðið eins og fjallað er um í greininni „SGLT2-hemlar – Nýir meðferðarmöguleikar við langvinnum nýrnasjúkdómi og hjartabilun“ hér í Læknablaðinu. Rannsóknir á SGLT2-hemlum þar sem þeim er bætt ofan á ARB- eða ACE-hemla hjá einstaklingum með langvinnan nýrnasjúkdóm, með eða án sykursýki, hafa ekki einungis sýnt fram á lægri tíðni dauða vegna hjarta og æðaáfalla heldur hægja þeir á framgangi nýrnasjúkdóms og draga þannig úr áhættu á lokastigs nýrnabilun og þörf fyrir skilunarmeðferð.5

Stór hluti einstaklinga með vægan langvinnan nýrnasjúkdóm eru í eftirliti vegna háþrýstings og sykursýki á heilsugæslu. Mikilvægt er að skima reglubundið fyrir langvinnum nýrnasjúkdómi og próteinmigu hjá þessum einstaklingum og meta með tilliti til ábendingar fyrir SGLT2-hemli með það að markmiði að hægja á framgangi langvinns nýrnasjúkdóms og minnka tíðni hjarta- og æða-áfalla sem og dauðsfalla vegna þeirra í þessum sjúklingahópi.

Ljóst er að lyfjameðferð einstaklinga með sykursýki af gerð 2 og langvinnan nýrnasjúkdóm, er að verða mun flóknari en áður var þar sem fleiri lyf en ACE-hemlar, ARB- og -SGLT2-hemlar, hafa sýnt fram á verndun á nýrnastarfsemi og bætta lifun. Ber þar að nefna lyf eins og GLP1-RA (glucagon-like peptide-1 receptor agonists) og N-MRA (non-steroidal mineralocorticoid receptor antagonists) sem einnig þarf að hafa í huga.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica