12. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Minning. Tipu Aziz prófessor í heila- og taugaskurðlækningum
1956-2024
Hinn heimsþekkti heila- og taugaskurðlæknir og Íslandsvinur Tipu Zahed Aziz er látinn, 67 ára að aldri. Tipu fæddist í Bangladesh 9. nóvember 1956 og lést í Bretlandi 25. október síðastliðinn eftir skammvinn veikindi. Sautján ára gamall fluttist Tipu með fjölskyldu sinni búferlum til Bretlands vegna borgarastyrjaldar sem geysaði í fæðingarlandi hans.
Tipu var prófessor í heila- og tauga-skurðlækning-um við Oxfordháskóla, Bretlandi, Árósaháskóla í Danmörku og Háskólann í Porto, Portúgal. Hann var brautryðjandi á sviði heilaskurðlækninga með djúpkjarnaörvun (Deep Brain Stimulation/DBS) hjá sjúklingum með Parkinsonsveiki og aðrar hreyfiraskanir og erfiða taugaverki. Hann varði doktorsritgerð við Háskólann í Manchester, stofnsetti og var yfirlæknir Oxford Functional Neurosurgery við John Radcliffe háskólasjúkrahúsið í Oxford.
Tipu var fyrsti vísindamaðurinn til að sýna fram á mikilvægi tveggja kjarna í heilanum, annars vegar neðanstúkukjarna (subthalamic nucleus/STN), þar sem raförvun reyndist hafa bestu virkni á Parkinsonseinkenni í heildina, og stoðbrúarkjarna (pedunculopontine nucleus/PPN), þar sem raförvun reyndist gagnleg fyrir jafnvægis- og gangtruflanir við Parkinsons. Rannsóknir hans, meðal annars með dýratilraunum, ollu byltingu í greininni og hafa hjálpað hundr-uðum þúsunda sjúklinga um allan heim.
Á ferli sínum birti Tipu meira en fjögur hundruð vísindagreinar og hlaut fjölda verðlauna fyrir verk sín, meðal annars Æviafreksverðlaun Breska heila- og taugaskurðlæknafélagsins (Society of British Neurological Surgeons' lifetime achievement award) og heiðursmerki Hins breska félags um aðgerðir með hnitastungu (British Society for Stereotactic and Functional Neurosurgery).
Tengsl Tipu við Ísland voru mikil, og komu upphaflega þannig til að hann var beðinn um að leiða okkur af stað á sviði djúpkjarnaörvunar og Garðar sótti ráðstefnur og þjálfun til Oxford á árunum 1997-2002. Í apríl 2000 kom Tipu til Reykjavíkur og gerði fyrstu fjórar aðgerðirnar og ruddi þannig brautina fyrir íslenska sjúklinga og varð íslenska orðið „hnitastunga“ til. Arnar stundaði síðar undirsérnám (fellowship) í hnitastungu og djúpkjarnaörvun hjá Tipu í Oxford, 2009-2010, sem varð hvatinn að fleiri heimsóknum Tipu til Íslands. Tipu kom til landsins árið 2013 sem boðinn fyrirlesari á ársþingi Norrænu heila- og taugaskurðlæknasamtakanna og síðast árið 2019 er hann flutti erindi á Læknadögum – í bæði skiptin fyrir fullum sal áheyrenda. Hann notaði einnig tækifærin til að heilsa upp á fyrrum íslenska sjúklinga sína.
Tipu hafði ríkulega kímnigáfu og mikinn skilning á tækifærum lífsins en einnig áskorunum. Hann var geysilega vel að sér og heillandi í öllum samræðum. Við minnumst kaffivélarinnar á skrifstofunni hans í Oxford. Viðkvæði hans var alltaf „við skulum fá okkur kaffi“, og hann lagaði dýrindis baunakaffibolla handa okkur. Bollanum fylgdu að minnsta kosti þrjár sígarettur handa Tipu. Hann var þó vel meðvitaður um skaðsemi reykinga, og spáði því sjálfur að þær mundu verða honum að aldurtila. Tipu hafði einnig gaman af að fara á pöbbinn snemma eftir vinnu, með sérnámslæknum sínum.
Tipu hafði mikla ástríðu fyrir framandi mat. Þegar hann fór út að borða í fyrstu ferðinni til Íslands valdi hann af matseðli lunda, svartfugl, hvalkjöt og hákarl. Tipu horfði síðar á íslensku kvikmyndina Mýrina þar sem rannsóknarlögreglumaðurinn Erlendur gæddi sér á sviðakjamma. „Ég vil að þú farir með mig á þennan veitingastað á bifreiðastöðinni,“ sagði Tipu í einni af síðustu Íslandsheimsóknum sínum og pantaði sviðakjamma og hrossakjöt á BSÍ.
Tipu lætur eftir sig eiginkonuna Jocelyn og dótturina Lailu, sem við vottum samúð okkar. Missir samfélags heilaskurðlækninga er mikill en eftir stendur þakklæti okkar fyrir áralanga vináttu, samvinnu og ómetanlega leiðsögn og þjálfun.