12. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Minning. Sigurður Björnsson læknir

1942-2024

Farinn er á vit feðranna kollegi minn og vinur Sigurður Björnsson lyflæknir og sérfræðingur í krabbameinslækningum. Sigurður var ættaður frá Veðramóti í Skagafirði, sonur Björns Sigurðssonar læknis og Unu Jóhannesdóttur. Hann var fæddur 5. júní 1942 í Princeton í New Jersey, en faðir hans starfaði þar við Princeton-háskóla og Rockefeller Institute. Björn gerði uppgötvanir á hæggengum veirusýkingum, sem voru grundvallar framfarir í skilningi okkar á veirusjúkdómum. Hann hlaut stóran styrk frá Rockefeller Foundation sem var nýttur til þess að byggja upp Rannsóknarstofu Háskólans að Keldum og kom heim til Íslands eftir frábæran vísindaferil. Á Keldum var lögð áhersla á rannsóknir á visnu og mæði í íslensku sauðfé. Þessir sjúkdómar orsakast af hæggengum veirusýkingum líkt og eyðni, sjúkdómurinn (AIDS) sem síðar orsakaði heimsfaraldur í mönnum. Telja má víst að Björn hefði fengið Nóbelsverðlaunin í læknisfræði ef honum hefði enst ævin, en hann lést langt um aldur fram árið 1959, fjörtíu og sex ára að aldri.

Sigurður ólst upp á Keldum og tók stúdentspróf frá MR 1961 og kandídatspróf frá læknadeild Háskóla Íslands 1968. Jóhannesi bróður hans og fjölskyldu kynntist ég náið í læknanámi við Háskóla Íslands, en við Jóhannes vorum samferða í gegnum námið á árumum 1971-77. Framhaldsnám í lyflækningum stundaði Sigurður við University of Connecticut og síðan í krabbameinslækningum við Roswell Park Memorial Institute í Buffalo í New York eða þar til að hann flutti heim til Íslands 1978 og hóf störf við sjúkrahúsin í Reyjavík.

Þegar undirritaður kom heim frá sérfræðinámi var Sigurður leiðandi læknir í sínu fagi og starfaði á Landakotsspítala, en sinnti einnig ráðgjöf á Landspítala og Borgarspítala. Lyflækningar krabbameina voru þá ný sérgrein og yngri læknar nutu þess að geta kallað hann til ráðgjafar. Fundir okkar með Sigurði og Guðmundi Inga Eyjólfssyni blóðsjúkdómalækni voru mjög gagnlegir og lærdómsríkir. Það var mikils um vert að njóta leiðsagnar færustu sérfræðinga í krabbameinum, sem voru hafsjór af þekkingu og gáfu sér tíma til að brjóta tilfellin til mergjar með okkur. Þeir voru góðar fyrirmyndir en það er eitt það mikilvægasta sem fyrir unga lækna getur komið að eiga sér góða fyrirmynd í störfum. Spurningin sem leitar á hug læknanema og yngri lækna er gjarnan: hvernig læknir/fagmaður vil ég verða? Þá vaknar löngun til að tileinka sér góð vinnubrögð í klínískri vinnu og rétt hugarfar í umönnun sjúklinga.

 

Sigurður Björnsson var einmitt allt í senn framúrskarandi læknir, kennari og fræðimaður. Hann vann myrkranna milli í þágu sjúklinga sinna og kenndi stúdentum og yngri læknum við hvert fótmál. Verkefnin voru óþrjótandi og hann skoraðist aldrei undan því að leggja allt sitt í læknisstarfið í þágu sjúklinganna. Helsti styrkleiki Sigurðar auk yfirburða þekkingar var samskipti við sjúklinga, en í þeim málum var hann snillingur í erfiðasta fagi læknisfræðinnar. Ég tel að enginn íslenskur læknir hafi staðið honum jafnfætis í því að ræða við sjúklinga um erfiða sjúkdóma og viðhalda von og bjartsýni hjá þeim og aðstandendum þeirra. Við Sigurður vorum ekki aðeins samstarfsmenn heldur líka oftast sammála um þjóðfélagsmál og mætti segja að það hafi ekki gengið hnífurinn á milli okkar, hvort sem um var að ræða pólitík eða læknisfræði. Á erfiðum tímum áttum við mörg einlæg samtöl um þróun sjúkrahúsþjónustunnar sem okkur var ekki að skapi. Það var táknrænt að útför hans þann 16. október síðastliðinn skyldi bera uppá afmælisdag Landakotsspítala. Að skilnaði kemur mér í hug að segja fyrir hönd okkar samstarfsmanna hans: „góðar voru gjafir þínar en betri þótti mér vinátta þín“. Blessuð sé minning Sigurðar Björnssonar.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica