12. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Læknablaðið í 110 ár. Frumkvöðlar í læknastétt. Berklaveikin á Íslandi. Helgi Sigurðsson
Helgi Ingvarsson yfirlæknir og baráttumaður fyrir betra lífi
Berklar hafa fylgt manninum frá örófi alda.1 Menjar veikinnar hafa fundist í múmíum og Hippókrates lýsti sjúkdómnum fyrir 2400 árum og kenndi hann við tæringu eða það að vera étinn innan frá. Sterkar vísbendingar um beinaberkla hafa fundist í gröfum landnámsmanna að Skeljastöðum í Þjórsárdal.1
Berklaveiki orsakast af bakteríunni Mycobacterium tuberculosis og helstu einkenni eru hiti, hósti, slappleiki, kuldahrollur, nætursviti, þyngdartap og litaður og stundum blóðugur uppgangur. Sjúklingar voru oft náfölir og grannholda og því gjarnan talað um tæringu eða hvíta dauða. Þeir sem smitast, hafa almennt verið í mikilli nánd við smitbera og um 10% fá langtíma sjúkdóm, oftast lungnaberkla. Fyrir komu sýklalyfjanna voru lífshorfur þeirra sem veiktust af lungnaberklum slæmar, en sjúklingar gátu þó oft lifað með sjúkdómnum í jafnvel nokkur ár og sumir læknuðust.
Berklaveiki varð ekki meiriháttar heilsuvandamál á Íslandi fyrr en í lok nítjándu aldar, nokkrum áratugum seinna en í nágrannalöndum, árleg dánartíðni af völdum berkla hér á landi fór hæst í um 230 á 100.000 íbúa á árunum 1920-1930 og meðalaldur þeirra sem létust var um 40 ár.2 Til samanburðar er árleg dánartíðni af völdum krabbameina í dag um 110 á 100.000 íbúa og meðalaldur þeirra sem látast er yfir 70 ár.
Læknirinn Hermann Brehmer (1826-1889) var upphafsmaður berklahæla. Hann var sjálfur berklaveikur, en hlaut bata eftir dvöl í Himalayafjöllunum. Hann áleit að sjúklinga ætti að einangra og þeir gætu fengið bata með útveru, fersku lofti og heilsusamlegu líferni. Slíkar aðstæður væri hægt að skapa með dvöl á heilsuhælum í fallegu umhverfi, helst til fjalla. Berklahæli í þessum anda voru fyrst reist í Þýskalandi árið 1859, en á Norðurlöndunum árið 1900.
Upp úr 1890 fjölgaði berklasjúklingum mjög á Íslandi, væntanlega vegna þéttbýlismyndunar og lélegra húsakynna.2 Árið 1903 gaf Guðmundur Björnsson landlæknir út bækling um berklavarnir en hann var jafnframt helsti hvatamaður að stofnun Heilsuhælisfélagsins árið 1906, sem hafði það markmið að reisa og reka berklahæli. Mikið þjóðarátak fór af stað með með stofnun Heilsuhælisfélagsins með stuðningi Vestur-Íslendinga og Oddfellowreglunnar á Íslandi, þar sem Guðmundur var virkur félagi.
Berklahælið á Vífilstöðum var byggt og tekið í notkun árið 1910 að fyrirmynd annarra berklahæla, einkum í Þýskalandi og Danmörku. Rögnvaldur Ólafsson, oft nefndur fyrsti íslenski arkitektinn, var fenginn til að hanna Vífilstaðahælið og finna því stað ásamt Guðmundi landlækni. Rögnvaldur var nemi á verkfræðstofu í Danmörku, sem hafði staðið á bak við hönnun á berklahælum þar í landi og dvaldi líka á slíku hæli því hann var berklaveikur.
Vífilstaðahælið er steinsteypt og var stærsta mannvirki sinnar tegundar hér á landi á þeim tíma og ætlað 80 sjúklingum auk starfsmanna. Hælið var 18 mánuði í byggingu. Rögnvaldur fylgdist náið með framkvæmdum og varð seinna sjúklingur hælinu. Með tímanum komu fleiri byggingar fyrir sjúklinga, lækna og annað starfsfólk. Einnig hannaði hann fjósið, sem hýsti áttatíu nautgripi, og stærðar hæsnabú.
Helgi Ingvarson útskrifaðist sem læknir árið 1922 og ætlaði sér í frekara nám í lyflækningum í Danmörku. Hann veiktist af berklum og þurfti frá að hverfa, en sótti um stöðu aðstoðarlæknis á berklahælinu á Vífilstöðum og fékk stöðuna. Til þess að bæta þekkingu og færni sína við meðferð berklasjúklinga fór Helgi til frekara náms á berklahælum í Þýskalandi og Danmörku og hlaut sérfræðiviðurkenningu í berklalækningum árið 1929. Hann starfaði á Vífilstöðum í 46 ár (1922-1968), þar af sem yfirlæknir í 30 ár eða frá árinu 1939.
Þegar Bretar hernámu Ísland árið 1940 hugðust þeir reisa herspítala við hlið Vífilstaðahælisins og skála fyrir hermenn. Helgi yfirlæknir mótmælti, en herforingar sögðust ekki taka mark á honum, enda væri hann menntaður í Þýskalandi. Helgi benti þeim þá á, að í herliðinu væri eðlilega mikið af ungum hermönnum og á hælinu mikið af glæsilegum ungum konum, en að þær væru nánast allar berklaveikar. Fyrirhugaðar bækistöðvar hersins voru umsvifalaust fluttar langt í burtu frá Vífilstöðum.
Helgi Ingvarsson lagði mikla áherslu á að þeir sem væru með smitandi berkla þyrftu ekki að bíða í heimahúsum eftir vist á hælinu. Þess vegna þurfti oft að þrengja að sjúklingum og hafa fleiri en tvo og fleiri en þrjá á hverri stofu auk viðbótar plássa inni og úti, til dæmis í tjaldbúðum sunnan við Vífilstaðalækinn. Þegar mest var voru sjúklingar yfir 200 talsins.
Margir kollegar hafa sagt frá læknisstörfum Helga Ingvarssonar, meðal þeirra Oddur Ólafsons yfirlæknir á Reykjalundi sem var nemandi hans og náinn samstarfsmaður til margra ára og um tíma tíma berklasjúklingur sjálfur. Oddur sagði um Helga að hann hefði ekki „aðeins verið læknir sjúklinga sinna heldur einnig sálfræðingur og félagsráðgjafi, en framar öllu traustur vinur, sem þeir gátu leitað til í hverri raun“.3
Tryggvi Ásmundsson lungnalæknir, kynntist Helga sem læknanemi og seinna sem kollegi og áleit hann Helga vera „brautryðjanda lyfjameðferðar berkla hér á landi.4 Árin 1947-1952, þegar berklalyfin komu á markað, var eftirspurnin margföld á við framboð, en Helga tókst ótrúlega fljótt að fá þau til landsins. Árangurinn lét ekki á sér standa og um 1960 var berklaveikin ekki lengur stórkostlegt heilsuvandamál.“ Tryggvi lýsir Helga sem ágætum kennara, „[…] en mest af öllu kenndi hann með fordæmi sínu, aðra eins fram-komu við sjúklinga hef ég aldrei séð og hef þó mörgum læknum kynnst bæði austan hafs og vestan. Hann virtist alltaf vera í góðu skapi, léttur í tali, laus við væmni og sjúklingar skynjuðu það fremur en heyrðu að hann var þeirra maður, tilbúinn að styðja þá og styrkja í gegnum þykkt og þunnt. Helgi Ingvarsonn var lifandi sönnun þess að aðeins góður maður getur verið góður læknir.“ 4 Skúli Johnsen borgarlæknir lýsti framkomu Helga við sjúklinga sem einstakri, „[…]þarna lærði ég þá bestu framkomu við sjúkrabeðið sem nokkur kostur er á.“ 5
Helgi náði að finna og virkja sjúklinga til mikilvægra starfa á Vífilstöðum. Skúli Jenson var með berkla í báðum lungum og auk þess lamaður á báðum fótum. Hann bugaðist ekki af sínum veikindum heldur lauk lögfræðiprófi og var einnig virkur þýðandi. Skúli veitti sjúklingum lögfræðilega aðstoð og starfaði sem skrifstofustjóri á hælinu. Guðmundur Löve er stundum kallaður fyrsti félagsráðgjafinn. Hann hafði einstaka hæfileika í mannlegum samskiptum, kennaramenntaður og þrautkunnugur atvinnhorfum, styrkjum og námsmöguleikum fyrir sjúklinga. Mikill hvatamaður að stofnun SÍBS og Öryrkjabandalagsins. Gunnar Þorsteinsson var skrifstofumaður sem varð smitfrír af berklum eftir loftbrjóstmeðferð, en stöðugt mæðinn og gat ekki starfað utan hælisins. Gunnar fékk það verkefni að merkja, flokka og smásjárskoða hrákasýni undir leiðsögn yfirlæknis. Með tímanum var hann ráðinn sem rannsóknarmaður eða meinatæknir, sem hann sinnti með prýði í yfir 30 ár.5
Helgi Ingvarsson hafði mikinn áhuga á næringarfræði og vítamínum. Hann gerði greinarmun á mismunandi fitusýrum og hafði miklar mætur á lýsi og ferskum feitum sjávarfiski. Útiveru og gönguferðir stundaði hann mikið og sjúklingar fengu eins konar hreyfiseðla um hve mikið þeir ættu að vera úti og hve langt þeir skyldu ganga. Sjálfur hafði hann sem berklasjúklingur gengið daglega upp Vífilstaðahlíðina og þegar hann náði upp án þess að stoppa eða fá blóðspýting, þá taldi hann sig vera læknaðan, sem reyndist rétt vera. Þetta sama próf var gjarnan notað sem útskriftarpróf fyrir sjúklinga.
Helgi Ingvarsson var föðurafi minn, sem ég umgekkst mikið og dvaldi ég oft á Vífilstöðum sem barn. Öllu jafna safnaðist þar saman stórfjölskyldan á sunnudögum og oft var farið í gönguferðir. Afi var alltaf einungis í ullarjakkafötum, berhöfðaður, en stundum með trefil.
Gaman er að geta þess að tólf af afkomendum Helga eru læknar, þar af fimm með doktorspróf og allir hafa þeir gegnt stöðu yfirlæknis og prófessors eða dósents.
Heimildir
1. Jón Steffensen. (1943). Aldur berklaveikinnar á Íslandi. Berklavörn, 5(1), 19-20. https://timarit.is/issue/393084
2. Sigurður Sigurðsson. (1976). Um berklaveiki á Íslandi. Læknablaðið 62(1-2), 3-30.
3. Oddur Ólafsson. (1980). Minningargrein, Helgi Ingvarsson fyrrum yfirlæknir. Morgunblaðið, 67 (91), 36.
4. Tryggvi Ásmundsson. (1996) 100 ár frá fæðingu Helga Ingvarssonar. Morgunblaðið, 84(231), 48.
5. Guðrún P. Helgadóttir. (1989). Helgi læknir Ingvarsson baráttumaður fyrir betra lífi. Setberg, Reykjavík.