12. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Dramatík á aðalfundi LÍ 2024
Aðalfundur Læknafélags Íslands var haldinn í húsnæði Læknafélags Íslands (LÍ) í Hlíðasmára föstudagnn 1. nóvember 2024. Stjórnir og kjörnir fulltrúar allra félaga innan LÍ sátu fundinn, það er; Félags sjúkrahúslækna, Læknafélags Reykjavíkur, Félags heimilislækna og Félags almennra lækna ásamt fleiri læknum. Formaður Læknafélags Íslands, Steinunn Þórðardóttir, opnaði fundinn. Björg Ólafsdóttir yfirlæknir á heilsugæslustöðinni á Kirkjusandi, var fundarstjóri og hélt vel utan um skipulag fundarins.
Heimsókn Sóttvarnarlæknis og starfandi Landlæknis
Fyrsta erindið var flutt af sóttvarnarlækni og starfandi landlækni, Guðrúnu Aspelund, sem fjallaði um aðgerða-áætl-un sóttvarnalæknis gegn útbreiðslu sýklalyfjanónæmis. Takmarkið er að hefta útbreiðslu sýklalyfjaónæmis á Íslandi. Efni sem skiptir alla máli og mikil-vægt er að fylgja eftir.
Að því loknu hófust hefðbundin aðalfundarstörf, með yfirferð ársskýrslu og samþykkt reikninga áður en hafist var handa við umjföllun og kosningu um tillögur til ályktana sem lágu fyrir á fundinum. Að venju sköpuðust miklar umræður um einstaka ályktun og einhverjum þeirra vísað áfram til vinnslu stjórnar LÍ. Í lok fundar kom reyndar ábending til stjórnar um að finna markvissari leið til að koma stefnu félagsins til skila en með þessari vinnu með tillögur til ályktana. Fyrri ára ályktanir þyrftu einnig að vera aðgengilegri fyrir félagsmenn á heimasíðu LÍ.
Heimsókn heilbrigðisráðherra
Að venju var heilbrigðisráðherra boðið á fundinn. Allur gangur hefur verið á heimsókn heilbrigðisráðherra á aðalfundinn í gegn um tíðina, allt eftir því hver hefur átt í hlut, dæmi eru um að ráðherra hafi sent staðgengil sinn, ekki mætt, mætt og ekki tekið á móti fyrir-spurnum lækna eða mætt og tekið á móti fyrirspurnum í stuttan tíma eftir afar hefðbundna ræðu.
Læknar voru sammála um að Willum Þór Þórsson heilbrigðisráðherra hafi skorið sig frá sínum fyrirrennurum og eftir ræður sínar á aðalfundum LÍ hafi hann tekið á móti fyrirspurnum og svarað þeim óhræddur og af ákveðnum skilningi án þess að setja þröngan tímaramma fyrir þær og sýnt vilja til að gera vel með svörum sínum. Því var eins háttað nú þó heimsókn ráðherra þetta árið væri í skugga þess að kosningar verða í lok mánaðar, sem boðað var til með stuttum fyrirvara. Það var því óljóst hver yrði næsti heilbrigðisráðherra þegar fundurinn var haldinn.
Erindi ráðherra og fyrirspurnir og
ábendingar frá læknum
Ráðherra fór yfir erindi sem hann hafði unnið að í samvinnu við lækna, svo sem samninginn við Læknafélag Reykjavíkur sem hafði verið samningslaust til nokkurra ára, lagabreytinguna um hlutlæga ábyrgð þegar miður fer í heilbrigðiskerfinu, landsáætlun um sjaldgæfa sjúkdóma, skaðaminnkunarstefnu í samvinnu við fagaðila og áætlun um dánaraðstoð sem ráðherra sagði að aldrei yrði unnin nema í samvinnu við lækna. Ráðherra lauk máli sínu með því að benda á þann kostnað sem byggingu nýs Landspítala fylgdi og lítið væri rætt í samhengi við annan kostnað í sam-félaginu.
Aldrei þessu vant hlaut ráðherra miklar þakkir frá læknum á fundinum sem mörgum fannst ástæða til að flytja honum úr pontu um leið og ýmis brýn mál voru tekin upp. Nokkur atriði sem tekin voru upp voru:
• Uppbygging göngudeildarþjónustu á Sjúkrahúsinu á Akureyri.
• Bygging hjúkrunarheimila ekki síst til að mæta vanda Landspítala háskólasjúkrahúss varðandi sjúkrarými.
• Uppbygging þjónustu við aldraða í breiðu samhengi þar sem mannaflakrefjandi þjónusta og ekki bara húsnæðisskortur blasi við í framtíðinni.
• Hvernig tryggt verði að áfram verði staðið að uppbyggingu blandaðs kerfis heilbrigðisþjónustu, mikilvægi þess að heilbrigðisráðherra með sínu ráðuneyti tryggi möguleika íslenskra lækna til framhaldsnáms erlendis.
• Verður haldið áfram útflutningi íslenskra sjúklinga til meðferðar erlendis með ærnum tilkostnaði þótt þekking og reynsla sé fyrir hendi á Íslandi til að sinna meðferðinni mun ódýrari hátt.
• Ráðherra var einnig minntur á vottorðamálin og hvattur til að leggja niður tilvísanir vegna barna sem þarfnast sérfræðiþjónustu.
Að lokum var heilbrigðisráðherra hvatt-ur til að semja við lækna, en samningur við lækna sem starfa á opinberum heilbrigðisstofnunum rann út 30. mars 2024.
Dramatísk uppákoma
Heimsókninni lauk á dramatískan hátt, þegar formaður félagsins, Steinunn Þórðardóttir, hafði þakkað Willum Þór Þórssyni heilbrigðsráðherra, innilega og með faðmlagi fyrir góða og mikla samvinnu síðast liðin ár og þurfti svo að tilkynna að fundinum hefði borist sú fregn að saminganefnd ríkisins teldi verkfallsboðun lækna sem hefjast átti 18. nóvember, 17 dögum eftir fundinn, ólöglega. Ekki var annað hægt að sjá en að heilbrigðisráðherra væri brugðið og fregnin hleypti vægast sagt óánægju og gremju inn í hópinn. Eftir samráð þeirra sem höfðu með málið að gera var fundinum tilkynnt að þetta myndi eingöngu tefja verkföll fram til 25. nóvember og þau yrðu þá harðari en til stóð, að aflokinni endurtekinni atkvæðagreiðslu félagsmanna ef ekki hefði náðst að semja fyrir þann tíma. Ljóst var að þessi fregn myndi herða kröfur lækna í samningunum.