11. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Sérgreinin mín: barna- og unglingageðlækningar. Krefjandi og lærdómsríkur rússíbani. Hanna Sesselja Hálfdánardóttir
Það er sumar 2017. Sit í matsal Landspítala. Kollegi minn svarar spurningu minni um framtíð sína sem læknir. Hún ætlar að verða skurðlæknir. Ég dáist að henni og segi „Ég gæti það ekki.“ Hún spyr mig sömu spurningar og ég segi „barna- og unglingageðlæknisfræði.“ Kollegi minn bregst eins við svari mínu. Ég er ánægð að við erum ólík. Við erum öll mikilvægir hlekkir í keðju heilbrigðiskerfisins.
Í ágúst 2017 fórum við fjölskyldan í heimsókn til Svíþjóðar. Vorum hjá góðum vinum í Gautaborg. Guðmundur Vignir Sigurðsson barnalyflæknir kemur í heimsókn og spyr mig hvað ég ætli að gera. Ég svara honum. Hann fer í símann sinn og ég held að samtalinu sé lokið. En um tveimur mínútum síðar segir hann; „Þú átt atvinnuviðtal með yfirlækni á barna-og unglingageðdeildar á Sahlgrenska háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg á fimmtudaginn.“ Viðtalið gekk mjög vel. Harpa Kristinsdóttir barnalyflæknir og barnaofnæmislæknir fylgdi mér og niðurstaðan varð að mér var boðin sérnámsstaða frá og með haustinu 2018. Ég fékk tímabundna stöðu sem sérnámslæknir í fullorðinsgeðlæknisfræði á Íslandi ásamt þremur mánuðum á sjúkrahúsinu Vogi og var mjög ánægð með tímann á báðum sviðum. Ég fékk það metið að hluta inn í námið í Gautaborg.
Haustið 2018 flytjum ég, maðurinn minn, Alfreð Brynjar Kristinsson viðskipta- og tölvunarfræðingur, og börnin okkar Kristján Leó (2013), Birta Líf (2014) og Katrín Lára (2016). Myndi segja að allt sérnámsferlið hafi verið krefjandi tími vegna margra þátta en á sama tíma lærdómsríkt, skemmtilegt og valdeflandi. Það sem stendur upp úr er að kynnast samstarfsfólki og kollegum og þar með stækka tengslanetið. Að eiga hauk i horni þegar á þarf að halda er mikilvægt innan heilbrigðiskerfisins.
Fyrstu skref mín innan veggja Sahlgrenska háskólasjúkrahúss voru á átröskunarteymi Östra spítala. Eftir það lá leið mín á Drottninggatan í miðbæ Gautaborgar þar sem ég gerði fyrsta greiningarmatið á nýjum skjólstæðingum innan barna- og unglingageðsviðs. Ég fór síðan í rúmt ár á tvær göngudeildir innan sviðsins. Eftir það fékk ég að fara á bráðamóttöku barna- og unglingageðdeildar á Östra spítala. Síðan byrjaði ég fyrri hluta barnalyflæknaviðveru minnar á Barn- och ungdomsmottagning (BUM) í Mölndal.
Um þakklæti
Þegar ég var að ljúka þriggja mánaða viðveru á Specialmottagning tók líf okkar U-beygju. Frumburðurinn greindist með heilaæxli í febrúar 2023 og fór í lífshættulega bráðaaðgerð hjá Magnus Tisell och Kristínu Lilju heila- og taugaskurðlæknum. Aðgerðin gekk vel en þessu fylgdi prótónu-geislameðferð í Uppsölum og lyfjameðferð. Það sem er mér efst í huga eftir þetta skrítna eitt og hálft ár er þakklæti. Ég er þakklát fyrir fjölskyldu okkar, vini, gamla sem nýja, og allt heilbrigðisstarfsfólkið sem hefur verið til staðar fyrir okkur.
Það er skortur á sérfræðingum í barna- og unglingageðlæknisfræði. Við þurfum að vera duglegri að láta vita af þessu frábæra og fjölbreytta námi sem hefur heildræna sýn að leiðarljósi. Við höfum mikið að vinna því skjólstæðingarnir eru börn og unglingar. Að greina rétt geðræna sjúkdóma og taugaþroskaraskanir er mikilvægt, svo hægt sé að hefja viðeigandi meðferð sem fyrst. Hérna í Gautaborg erum við hluti af risastóru háskólasjúkrahúsi og við erum í samskiptum og samstarfi með ýmsum sviðum innan sem utan spítalans.
Frá því 2018 hefur verið boðið upp á heilt sérnám barna- og unglinga-geð-læknisfræði á Íslandi. Ég myndi þó mæla með að fara út fyrir landsteinana, hvort sem það er til styttri eða lengri tíma. Tek með mér það sem Kristján Oddsson kvensjúkdómalæknir sagði: „Sérnámið var krefjandi en skemmtilegur og gefandi tími hjá fjölskyldunni. Ég sakna þess tíma. Munið að njóta sem fjölskylda og nýta tækifærin og möguleikana sem nám erlendis hefur að bjóða.“
Nú erum við tvær frá Íslandi í sérnámi í barna- og unglingageðlæknis-fræði í Gautaborg. Sérnámslæknahópurinn hefur stofnað „gleðihóp“ (skojgrupp). Reglulegir hittingar í bókaklúbbi, kvikmyndaklúbbi, Balint-hóp og „after work.“ Bjartir tímar framundan og vonandi framtíðar samstarf milli Svíþjóðar og Íslands.
Velkomin til Gautaborgar. Þar munum við Nína Björnsdóttir taka vel á móti ykkur ásamt stórum hópi af Íslendingum, öðrum útlendingum og Svíum.
Með bestu kveðjum.