11. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Öldungadeildin: Þrír minnisverðir augnatburðir. Ingimundur Gíslason
Margs er að minnast frá langri starfsævi. Fyrir mörgum áratugum var ég sérfræðingur á bakvakt á augnlækningadeild Svæðissjúkrahússins í Örebro, Svíþjóð. Oftast voru þess konar vaktir án stórtíðinda enda duglegir ungir sérnámslæknar fyrir framan mig á fyrstu vakt.
Kvöld eitt hringdi vakthafandi skurðlæknir á bráðadeild í mig. Hann bað mig um að koma þegar í stað upp á skurðstofu vegna alvarlegs augnslyss. Málavextir voru þeir að ungur maður, fangi í hinu stóra öryggisfangelsi í Kumla, hafði sloppið út þaðan fyrr um daginn. Hann hafði haldið beint á fund fyrri félaga í næsta bæ og átti sá dínamítsprengjur heima og hafði aðgang að bíl. Lögðu nú þeir kumpánar af stað að næsta pósthúsi en félaginn hafði fullyrt að þar inni væru mikil verðmæti í stórum peningaskáp. Vildi hann opna skápinn með öflugri sprengju. Söguhetja okkar sat í aftursæti bílsins með dínamítbúntið í fanginu (barnastóll fastur í hægra framsæti). En nú kom babb í bátinn. Í baksýnisspeglinum sást að löggan var á eftir þeim með blikkandi bláljós á þakinu. Nú var úr vöndu að ráða. Söguhetjan var fljót að hugsa og ákvað að nota þetta öfluga vopn sem hvíldi í kjöltu hennar, kveikti á forhlaðinu og bjó sig undir að kasta sprengjunni fram fyrir lögreglubílinn á réttu augnabliki. En ekki verður við öllu séð. Söguhetjunni hafði yfirsést að barnalæsing hurðarinnar var virk og því sprakk sprengjan þarna í höndum hennar. Báðar hendur tættust í sundur, svo og bæði augu. Ekki fóru sögur af mikilli blæðingu og maðurinn missti ekki meðvitund. Á sjúkrahúsinu var lokað fyrir báða framhandleggsstubbana með húðflipa og ég lokaði fyrir báðar augntóftir með því að sauma saman slímhimnur enda bæði augun sundurtætt. Þegar ég vitjaði sjúklings næsta dag sátu tveir lögreglumenn við rúmið, á þriðja degi aðeins einn og á þeim fjórða enginn.
Annað sinn var ég á bakvakt þegar hringt var í mig vegna konu rétt um sextugt sem fyrr um daginn hafði verið lögð inn á augnlækningadeild með bráða lithimnubólgu í báðum augum. Var hringt heim til mín vegna þess að konan var allt í einu farin að sjá ofsjónir. Ég mætti upp á deild. Konan var nokkuð hress og sat uppi við þegar hún lýsti fyrir mér því sem hún sá út um gluggann: Á götu úti við innganginn hafði orðið stórslys, fólk lá stórslasað eða látið á víð og dreif, sjúkrabílar voru mættir á staðinn og fjöldi fólks hafði safnast fyrir til að fylgjast með. Ég leit út á götu og sá ekkert athugavert. Augu konunnar voru hvellrauð, frumuíferð í báðum forhólfum og samvextir á milli lithimnu og augasteins næstum allan hringinn. Meðferðin var staðbundin atropin, kókain, og sterar allt í dropaformi og „stórum skömmtum.“ Ég var í byrjun ráðþrota, hafði aldrei fyrr kynnst tilfellum sem þessu, hringdi í geðlæknavaktina og von bráðar var kornungur starfsbróðir þaðan mættur á staðinn. Hann var einnig ráðþrota og gat ekkert lagt til málanna. -Hringdi ég svo heim til gamla yfirlæknisins míns. Hann var ekki á neinni vakt en tók erindi mínu vel. Vissi upp á hár hvað um var að vera, hrossakúrinn svokallaður en í of háum skömmtum. Ráðlagði hann að draga verulega úr notkun atropindropa en við það hurfu ofsjónirnar eins og dögg fyrir sólu og strax næsta dag var ástand augnanna á góðum batavegi.
Aftur var ég á bakvakt í Örebro þegar hringt var í mig að kvöldi dags og ég beðinn að koma á skurðstofu á handlækningadeild til þess að fjarlægja augu nýlátinnar konu. Forsaga málsins var að ung kona eitthvað yfir tvítugt var að hlaupa úti við sér til hressingar og heilsubótar. Hún var sögð vera ákaflega hraust og án nokkurrar lyfjanotkunar fyrir utan getnaðarvarnarpillu. Í miðju hlaupi hneig hún skyndilega niður og var látin. Á spítalanum kom í ljós algjör heiladauði á línuriti. Í samráði við nánustu ættingja var ákveðið að fjarlægja nýru og augu til líffæragjafar. Þegar ég kom á staðinn var ég látinn lesa yfir alla löglega pappíra þess efnis að brottnám ofangreindra líffæra væri lögum samkvæmt. Ég hófst handa við að fjarlægja augun og á sama tíma voru tveir þvagfæraskurðlæknar að fjarlægja nýrun.
Í skurðstofunni eru öll ljós mjög dempuð, nánast myrkur, en úr litlu útvarpstæki uppi á hillu berst fjörug tónlist í þættinum „Musik mot midnatt.“