11. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Lögfræði. 52. pistill. Ábyrgð lækna á læknisvottorðum

Í 19. gr. laga um heilbrigðisstarfsmenn nr. 34/2012 og reglum um gerð og útgáfu læknisvottorða nr. 586/1991, er fjallað um læknisvottorð. Í lagaákvæðinu felast þrenn fyrirmæli til lækna: Að gæta varkárni, nákvæmni og óhlutdrægni við gerð vottorða. Að votta einungis það sem læknir veit sönnur á og að votta einungis það sem nauðsynlegt er í hverju tilviki. Á þessu er hnykkt í 3. gr. reglnanna. Þar segir að í læknisvottorði skuli læknir ekki staðhæfa annað en það sem hann hefur sjálfur sannreynt, geta nákvæmlega þeirra heimilda er vottorðið kann að styðjast við og greina glögglega milli frásagnar annarra, eigin athugunar læknis og álita hans.

Það getur haft afleiðingar fyrir lækni að bregða út af fyrirmælum laga og reglna um læknisvottorð. Á það reyndi í dómi Landsréttar frá 7. júní 2024, í máli nr. 321/2023.

Málavextir eru þeir að stefnendur, faðir og ólögráða barn, kröfðust ómerkingar fimm ummæla sem læknir setti fram í þremur læknisvottorðum skrifuðum haustið 2017. Einnig kröfðust þeir miska- og skaðabóta úr hendi læknisins vegna vottorðaskrifanna.

Ummælin í vottorðunum, lutu að ætluðu ofbeldi, ógnandi hegðun og hótunum föður gegn móður og barni, en móðir hafði stuttu áður flutt af sameiginlegu heimili með barnið. Læknirinn hafði ekki annað fyrir sér við skrif vottorðanna en einhliða frásögn móður og eftir atvikum barnsins. Læknirinn hitti aldrei föður og gat því ekki borið um það af eigin raun hvort frásögn móður væri rétt eða röng.

Þrátt fyrir það fullyrti læknirinn í einu vottorði, án fyrirvara, að faðir hefði verið spilafíkill og að móðir hefði búið við mikið andlegt, líkamlegt og tilfinningalegt ofbeldi frá hans hendi, auk þess sem sonurinn hefði orðið fyrir miklu ofbeldi af hans hálfu. Í öðru vottorði fullyrti læknirinn, án fyrirvara, að barnið og móðir hefðu bæði þurft að þola ofbeldi frá hendi föður og að hann hefði margsinnis beitt barnið ofbeldi og hótað því. Í þriðja vottorðinu kvaðst læknirinn hafa verið meðvitaður um að barnið og móðir hefðu orðið fyrir ofbeldi af hálfu föður um árabil og að ógnandi hegðun hans hefði farið vaxandi undanfarin ár þar á undan. Héraðsdómur taldi að með þessu orðavali meðvitaður um gæfi læknirinn enn sterkar til kynna en ella að hann væri að bera um eitthvað sem hann vissi af eigin raun en ekki einungis það sem hann hefði heyrt frá móður.

Héraðsdómur taldi þrenn ummæli læknisins í vottorðunum ekki varða faglegt álit hans heldur undirliggjandi atvik málsins sem læknirinn hafði ekki upplifað og gat því ekki borið um af eigin raun. Læknirinn hefði því að lágmarki átt að gera þann fyrirvara við staðhæfingar sínar í vottorðunum að þær væru byggðar á frásögn móður og eftir atvikum drengsins, því læknirinn hafði ekki við önnur gögn að styðjast hvað þessar staðhæfingar varðaði. Héraðsdómur taldi að læknirinn hefði auðveldlega getað hagað ummælum sínum með öðrum og varkárari hætti, án þess að skilaboðin misstu marks, til dæmis sagt að samkvæmt því sem móðir héldi fram eða segði hefði faðir barnsins beitt bæði hana og barnið ofbeldi.

Héraðsdómur taldi að miðað við gögn málsins yrði ekki séð að staðhæfingar læknisins, settar fram með þeim hætti sem gert var, væru réttar. Læknirinn yrði að bera halla af því að hafa hagað ummælum sínum eins og hann gerði. Héraðsdómur féllst því á með föður að læknirinn hefði gengið lengra í læknisvottorðum sínum með ummælunum en eðlilegt og nauðsynlegt var og að ummælin hefðu ekki verið í samræmi við 1. mgr. 19. gr. laga nr. 34/2012 og 3. gr. reglna nr. 586/1991.

Þrenn ummæli voru ómerkt og talin fela í sér ólögmæta meingerð í garð föður. Að því virtu og með hliðsjón af útbreiðslu ummælanna, sem ekki virtust hafa birst opinberlega, var lækninum gert að greiða föður 700.000 krónur í miskabætur. Var þá tekið mið af því að ummæli læknisins væru til þess fallin að skaða mannorð föður og valda honum þannig tjóni. Ekki voru talin skilyrði til að dæma barninu miskabætur þar sem ummælin vörðuðu einungis föður. Þá var læknirinn sýknaður af skaðabótakröfu föður.

Báðir málsaðilar áfrýjuðu málinu til Landsréttar. Landsréttur staðfesti niðurstöðu héraðsdóms með vísan til forsendna en ómerkti ein ummæli læknisins til viðbótar.

Dómurinn undirstrikar nauðsyn þess að fylgja fyrirmælum laga og reglna um læknisvottorð. Sé út af því brugðið getur það haft þær afleiðingar að læknir sé dæmdur bótaskyldur vegna vottorða og ummæli í vottorðum jafnvel dæmd dauð og ómerk.

 

Heimildir

1. Á þessum vettvangi hefur áður verið fjallað um vottorð, í 5. tbl. 99. árg. 2013. Pistillinn er aðgengilegur hér: https://www.laeknabladid.is/tolublod/2013/05/nr/4863.

2. Dómurinn er aðgengilegur á vefsíðu Landsréttar sjá:
https://www.landsrettur.is/domar-og-urskurdir/domur-urskurdur/?id=4f9a0fa5-54ba-42a4-ba73-5e64ec6917fc&verdictid=f85dea46-45c8-405a-bd43-630b2565c5f6.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica