10. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Það erfiðasta er eftir
– segir Mikael Smári Mikaelsson formaður samninganefndar Læknafélags Íslands um samningaviðræðurnar
Það nálgast ögurstund í kjaraviðræðum lækna við ríkið. Þær hafa nú staðið yfir frá því áður en samningar runnu út í lok mars. Að sögn formanns samninganefndar Læknafélags Íslands, Mikaels Smára Mikaelssonar, sem blaðamaður hitti að máli rétt fyrir mánaðamótin, hefur verið fundað stíft allan þann tíma, ef frá er talið stutt sumarfrí.
„Þetta er í annað sinn sem ég leiði samninganefnd lækna, við gerðum stuttan samning í fyrra, eins og flest stéttarfélög. Sá samningur rann út 31. mars sl. Við gerð þessa stutta kjarasamnings þurftum við að leggja til hliðar ýmislegt sem við vildum semja um, til að fylgja straumnum i samfélaginu, og gerðum skammtímasamning.“
– Hvernig hefur ykkur fundist þessi nýja samningalota hafa gengið?
„Þetta hefur gengið hægt og sígandi og verið mikil vinna. Við vísuðum deilunni fljótt til ríkissáttasemjara og síðan hefur verið fundað grimmt, ef svo má segja. Við höfum útskýrt fyrir félagsmönnum hver áhersluatriði okkar eru í viðræðunum og höfum ekki bakkað frá þeim. Í þeim eru þrjár meginstoðir: stytting vinnuvikunnar, leiðréttingar á gæsluvaktakerfinu (eins og bakvaktir lækna heita) og hækkun grunnlauna lækna, sem hafa dregist aftur úr öðrum stéttum. Við höfum unnið með þetta allt saman þó mesti tíminn hafi farið í styttingu vinnuvikunnar, enda læknar ein tveggja heilbrigðisstétta sem ekki hafa fengið þá styttingu. Búið er að leggja mikla en nauðsynlega vinnu í að gera það mögulegt fyrir samningsaðila að sjá hvernig styttingin kemur út. Nú er hins vegar komið að því að sjá hvort við náum að ljúka þessu. Þá fer að reyna á þá þætti kröfugerðarinnar sem munu líklega reynast erfiðastir.“
Síðustu hnútarnir erfiðir
– Hverjir eru þeir?
„Það er hvort við og ríkið náum að lenda nauðsynlegum og brýnum leiðréttingum á launakjörum lækna. Ég er bundinn trúnaði varðandi einstök atriði viðræðnanna en ýmis mikilvæg atriði í okkar kröfugerð hafa ekki enn verið rædd. Næstu 1-2 vikur munum við fara að ræða þessi atriði og þá kemur í ljós hvort hægt er að ná viðunandi niðurstöðu eða hvort þetta endar stál í stál. Ég er vongóður en ég veit ekki hversu bjartsýnn ég á að vera.“
– Er verið að stokka samningana upp frá grunni?
„Það má segja það að með vinnunni sem tengist styttingu vinnuvikunnar sé verið að horfa til talsverðrar uppstokkunar á þeim. En forsenda uppstokkunar verður alltaf að vera sú að allir komi betur út úr nýju kerfi. Öðruvísi er ekki hægt að gera þetta. Nýr samningur má ekki leiða til að einhver lækki í launum. Eins og í öllum samningum verður niðurstaðan alltaf misskipt, sumir fá meira og aðrir minna, en það er útilokað að gera kjarasamning sem ekki tryggir öllum kjarabætur.
Erum að falla á tíma
– Gæti þetta endað í verkfalli?
„Það ræðst á næstu örfáu vikum hvort það tekst að leysa þessa kjaradeilu án aðgerða. Vonandi lendum við þeim ágreiningsefnum, sem skipta lækna mestu máli í þessari kjaralotu, með samkomulagi. En reynist ríkið ófáanlegt til að mæta okkur í þeim atriðum sem við metum mikilvæg og nauðsynleg til að læknar samþykki kjarasamning, þá kann svo að fara að læknar verði að grípa til verkfallsaðgerða. Við erum búin að lofa félagsmönnum að láta þá vita á næstu vikum hver staðan er og hvernig mál eru að þróast.“
– Er hugur í læknum?
„Já, því miður má segja. Vinnuálag lækna, með tilheyrandi þreytu og kulnunareinkennum, og mannekla í hópi lækna er okkur mikið áhyggjuefni og á að vera stjórnvöldum áhyggjuefni. Dæmin eru alls staðar, löng bið eftir tíma hjá heilsugæslunni, plássleysi á Landspítalanum þar sem læknar eru keyrðir áfram undir miklu álagi, læknaskortur á landsbyggðinni. Kjör lækna og starfsumhverfið hér laða ekki lækna heim eftir sérnám. Það er ekkert heilbrigðiskerfi án lækna. Það þarf eins og gert var 2015 að ná kjarasamningi sem laðar lækna heim. Það er samfélagslega dýrt að mennta lækna, sem ekki skila sér heim.
Við höfum unnið mikla vinnu undir stjórn ríkissáttasemjara síðasta hálfa árið. Næstu vikur munu skera úr um hvert stefnir. Verkfall er ekki markmið í þessari kjaradeilu, en ef ekki næst fram það sem við teljum þurfa, þá kann að þurfa að koma til þess. Við vonum þó að okkur takist með ríkinu að lenda þessu farsællega, fyrst og fremst fyrir almenning, heilbrigðiskerfið og læknaþjónustuna í landinu,“ sagði Mikael Smári að lokum. –ÞH