10. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Langförull lagði leið sína heim
Hallgrímur Benediktsson læknir í Calgary í Kanada kom færandi hendi með nótur frá Sigvalda Kaldalóns
Víða flækist landinn og viðmælandi Læknablaðsins að þessu sinni hefur að mestu haldið sig á slóðum þar sem mikið er af Íslendingum síðan hann lauk almennu læknaprófi frá Háskóla Íslands árið 1973. Fyrir blaðamann var sérlega gaman að hitta þennan langsiglda lækni því hann hafði gert þá misheppnuðu tilraun að kenna honum efnafræði í 4. bekk Menntaskólans í Reykjavík.
Að loknu læknisprófi starfaði Hallgrímur Benediktsson reyndar í rúmt ár á Rannsóknarstofu HÍ en hélt utan til sérnáms á Íslendingaslóðum í Kanada árið 1975. Þar nam hann meinafræði og starfaði við rannsóknir á því sviði fram til 1981 þegar þau hjónin fluttu til Íslands, en kona hans er Guðrún Jörundsdóttir arkitekt. Hér heima bjuggu þau í þrjú ár. Hallgrímur vann á Rannsóknastofu HÍ, sem nú heitir Meinafræðideild Landspítalans, en árið 1984 fluttu þau aftur vestur þegar Hallgrími bauðst staða við háskólann í Calgary í kírúrgíu og meinafræði nýrna. „Þar hef ég verið síðan og er enn í fullu starfi.“
– Þú varst ekki rekinn heim um sjötugt?
„Nei, en þetta vekur raunar upp spurninguna hvar er heima þegar maður hefur búið svona lengi í öðru landi. Auðvitað er Ísland alltaf heima, en það sama má segja um Kanada þar sem öll fjölskyldan býr. Við eigum fjögur börn, þrjú þeirra búa í Calgary og það fjórða í Victoria, sem er ekki langt frá, og barnabörnin tíu eru öll í Kanada. Við Guðrún vorum skólasystkin í menntó. Hún lærði ensku og málvísindi meðan ég var í læknanáminu en þegar við fluttum til Kanada skipti hún yfir í arkitektúr og starfaði sem slík eftir það.“
Nótur með óljóst erindi
Auk þess að heimsækja sitt gamla föðurland átti Hallgrímur ákveðið erindi til Íslands að þessu sinni, erindi sem tengist fjölskyldu Guðrúnar.
„Já, ég kom með nótur að nokkrum lögum eftir Sigvalda sem gegndi eftirnafninu Stefánsson en tók síðar upp eftirnafnið Kaldalóns. Þetta eru handskrifaðar nótur að nokkrum vel þekktum lögum og stöku minna þekktum. Þær eru skrifaðar áður en hann tók upp Kaldalónsnafnið, sem hann gerði árið 1916.
Nóturnar fundust í flutningum okkar vestur í Calgary og við teljum að þær hafi verið úr fórum afa Guðrúnar, Stefáns Stefánssonar, sem var mikill áhugamaður um bókband og batt heilmikið inn af bókum og nótum meðfram starfi sínu sem bankamaður. Kenning okkar er sú að nóturnar hafi verið á leiðinni í band fyrir útgáfu en hafi af einhverjum ástæðum dagað uppi hjá Stefáni. Þær gætu hins vegar einnig verið komnar frá Eyþóri Stefánssyni, bróður Sigvalda.“
Fallega handskrifuð lög
„Við þennan fund kviknaði spurningin: Hvað gerir maður við þetta? Ekki vildum við henda þessu svo ég hafði samband við Bjarka Sveinbjörnsson hjá Tónlistarsafninu, sem ég hef þekkt lengi, og hann vísaði mér á Landsbókasafnið þar sem nóturnar ættu heima. Þetta eru lög sem flestir þekkja og þau eru fallega handskrifuð með hans eigin hendi, afrit sem hann hefur viljað deila með einhverjum.
Ég veit ekki hvaða hátt menn höfðu á svona nótnaskrift á þessum árum í upphafi síðustu aldar. Þá var engin tækni komin til þess að fjölfalda svo eina leiðin var að afrita. En nú er þetta komið í hendur fagmanna sem geta borið nóturnar saman við aðrar sem varðveist hafa og séð hvort eitthvað er öðruvísi. Ég kíkti á nóturnar af Þótt þú langförull legðir og sá að það var örlítill munur á hljómum frá þeirri útgáfu sem ég hafði þekkt áður.“
– Þetta er þá orðið partur af þjóðarsögunni.
„Já, það má alltaf deila um hver hafi verið bestur en Sigvaldi er án nokkurs vafa eitt almerkasta tónskáld sönglagsins sem Íslendingar hafa nokkurn tíma eignast. Lögin hans eru bæði vel samin og sönghæf. Þar sem ég bý er ekki langt að fara á slóðir Stephans G. Stephanssonar sem orti ljóðið sem er fyrir löngu orðið þjóðsöngur Vestur-Íslendinga.“
Hallgrímur segist ekki vita hvernig þessar nótur verði notaðar, nú séu þær til hér „og það eitt og sér er mikilvægt. Nú geta menn borið saman við endanlegar útgáfur laganna sem eru í Kaldalónssafninu. Auk þess er þetta svo vel skrifað og frágengið hjá tónskáldinu að það vekur með manni unun að skoða nóturnar.“
Vondur amatör
Eins og heyra má, hefur Hallgrímur einhverja reynslu af því að lesa nótur svo það lá beint við að spyrja hvort hann væri músíkant. „Ég hef nú verið vondur amatör alla ævi, glamrað dálítið á píanó,“ segir hann af lítillæti. Hann bætir því við að hann hafi byrjað ungur í kór hjá Hirti Halldórssyni tónlistarkennara í MR og síðan verið í Fílharmóníunni hjá Róberti Abraham Ottóssyni. „Auk þess sótti ég píanótíma hjá Snorra Sigfúsi Birgissyni sem lagfærði handstöðuna hjá mér þegar við bjuggum hér á níunda áratugnum.“
Hér grípur áðurnefndur Bjarki Sveinbjörnsson inn í – en hann er með okkur í viðtalinu – og segir blaðamanni að spyrja út í tónskáldið Hallgrím Benediktsson. „Öllu má nú nafn gefa,“ segir Hallgrímur en viðurkennir þó að Bjarki eigi í fórum sínum nótur og upptökur af fjórum lögum eftir hann.
– Eru þetta sönglög?
„Ekki kannski eins og hjá Sigvalda, frekar í anda Sigfúsar Halldórssonar, eða hvað segir Bjarki um það?“ – Jú, það er sá heimur, en það koma nú fleiri tónheimar við sögu, Cole Porter og aðrir, segir hann.
Fjögurra laga tónskáld
„Þetta varð þannig til að árgangurinn okkar í læknadeildinni hittist af og til og eitt sinn komu þau í heimsókn til mín í Calgary. Við fórum í ferðalag og komum meðal annars að vatni sem heitir Lake Louise sem er við rætur Klettafjallanna og þar er mikil náttúrufegurð. Þar fékk Ingimundur Gíslason augnlæknir þá vitrun að Hjálmar Freysteinsson bekkjarbróðir okkar ætti að yrkja ljóð um þessa miklu fegurð og ég að semja lag við kvæðið. Það var erfitt að skorast undan en ferðinni lauk og hópurinn fór heim.
Tveimur eða þremur vikum seinna fæ ég sent kvæði frá Hjálmari sem heitir Sólarupprás við Lovísuvatn. Nú varð ekki undan vikist, svo ég samdi lag við kvæðið sem við snurfussuðum saman og Ingimundur lagði blessun sína yfir það sem guðfaðir. Þetta var svo sungið þegar hópurinn mættist og okkur Hjálmari þótti þetta bara fjári gott. Hjálmar var einn snjallasti hagyrðingur landsins og það leið ekki á löngu þar til ég fékk annað kvæði frá honum og svo það þriðja. Síðasta kvæðið frá honum barst mér að honum látnum og það var með angurværum blæ en ekki í þessum kersknisstíl sem hann var þekktur fyrir. Við þessi fjögur kvæði samdi ég sem sagt lög,“ segir Hallgrímur að lokum.