10. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bókin mín. Vel skrifaðar kvenpersónur eru í miklu uppáhaldi. María Kristbjörg Árnadóttir

Bækur hafa alla tíð átt sérstakan stað í mínu hjarta. Að snerta pappírinn, fletta blaðsíðum, finna lyktina. Kannski ekki skrýtið, alin upp að hluta til hjá ömmu minni og afa, fjórða kynslóð í gömlu húsi stútfullu af gömlum bókum. Ég var reglulegur gestur á bókasafninu og tók þátt í öllum lestrarátökum líkt og um keppnisgrein á Ólympíuleikunum væri að ræða. Sem barni þótti mér skemmtilegast að lesa um snjallar, sterkar og ráðagóðar stelpur. Ein slík sögupersóna var Kapítóla Black, skrifuð af E.D.E.N. Southworth árið átjánhundr-uð og súrkál, gamaldags vissulega en stórskemmtileg frásögn. Ég rakst nýlega á kiljuna í bókabúð, en eintakið sem ég fékk í hendurnar á sínum tíma var um hundrað árum eldra.

Sögur kvenna, sögur um konur og vel skrifaðar kvenpersónur eru enn í miklu uppáhaldi hjá mér og bókin sem mig langar að skrifa um og mæla með er einmitt saga konu, skrifuð af konu. Bókin heitir Kona í hvarfpunkti og er eftir Nawal El Saadawi (1931-2021), afkastamikinn rithöfund, geðlækni, mannréttindafrömuð og baráttukonu. Bókin fjallar um ævi Firdaus, vændiskonu sem situr í fangelsi og bíður þess að vera tekin af lífi fyrir morð. Ofbeldi í öllum birtingarmyndum og valdaójafnvægi í samfélaginu einkenna líf aðalpersónunnar sem byggir á kvenfanga sem El Saadawi komst í kynni við þegar hún gerði rannsóknir á geðrænum vandamálum arabískra kvenna í hegningarhúsum Egyptalands. Þegar bókin kom út árið 1977 var það ekki í heimalandi höfundar, þar var hún bönnuð vegna efnistaka. Um tíma var El Saadawi í útlegð frá Egyptalandi og sat hún síðar í fangelsi eftir komuna heim. Þó svo að þessi bók hafi komið út fyrir rúmum 40 árum er hún mikilvæg lesning í nútíma heimi þar sem enn er vegið að réttindum og frelsi kvenna.

Því miður hefur tími til yndislestrar minnkað síðustu árin og bækurnar liggja hálfkláraðar í hinum ýmsu hillum, síðasta talning stóð á átta bókamerkjum í notkun plús þrjár bækur opnar á hvolfi. Það verður tekinn skurkur í lestri á næsta ári, já eða þar næsta. Best væri auðvitað að klára staflann áður en byrjað verður á listanum yfir áhugaverðar bækur, sem er galopinn fyrir tillögum.

Ég vil þakka Sigrúnu Lilju fyrir áskorunina (engar áhyggjur, mér liggur ekkert á að fá þessar bækur) og skora næst á Vöku Kristínu Sigurjónsdóttur, barnanýrnalækni, lektor við University of Miami og rannsakanda við Stanford.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica