09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Frumkvöðlar í læknastétt. Upphafsár Krabbameinsfélagsins
Krabbameinsfélag Íslands var formlega stofnað árið 1951 á fundi krabbmeins-
félaga Reykjavíkur, Hafnarfjarðar og Vestmannaeyja, sem þá voru starfandi. Alla tíð síðan hefur félagið verið samofið sögu þjóðarinnar í nú tæpa þrjá aldarfjórðunga.
Félagið hefur ávallt á þessum langa tíma notið mikils trausts og stuðnings þjóðarinnar. Ein meginástæða þess er að til félagsins var stofnað af virtum frumkvöðlum í læknastétt, á vegum lækna sem báru fyrir brjósti hag sjúklinga sem greinast með krabbamein. Alla tíð síðan hefur Krabbameinsfélagið gætt þess vel að byggja á leiðsögn og ráðum fagaðila, lækna, hjúkrunarfræðinga og svo framvegis, en slíkt er mikilvægt varðandi áframhaldandi traust.
Eldmóður stýrði för
Hvernig kom það til að stofnuð voru samtök gegn krabbameini á Íslandi? Víst er að eldmóður Alfreðs Gíslasonar, læknis á Grund, skipti þar miklu máli. Hann hafði sérstaklega í samtölum við Gísla Sigurbjörnsson, forstjóra á Elliheimilinu Grund, gjarnan rætt um nauðsyn þess að efla baráttu í landinu gegn krabbameini.
Þeir höfðu haft spurnir af krabbameinsfélögum erlendis, til dæmis í Danmörku. Heimsókn vesturíslenska læknisins Thorláksson frá Winnipeg til landsins árið 1948, þar sem hann flutti erindi um ristilkrabbamein og nauðsyn þess að berjast gegn þessum vágesti, efldi Alfreð og fleiri frumkvöðla í þessum hugmyndum sínum.
Það varð til þess að Alfreð bar upp tillögu á fundi Læknafélags Reykjavíkur haustið 1948 um „að skipa nefnd sem kannaði hvort ekki væri tímabært að stofna til sérstakrar baráttu gegn krabbameini hér á landi“. Honum fannst mikilvægt að slíkur undirbúningur gengi í gegnum læknasamtökin.
Á fundinum var skipuð nefnd sem í sátu, auk Alfreðs, læknarnir Halldór Hansen meltingarlæknir, Gísli Fr. Petersen röntgenlæknir og meinafræðingarnir Ólafur Bjarnason og prófessor Níels Dungal. Níels var forstöðumaður Rannsóknarstofu Háskólans í meina-
fræði og eins og haft er eftir Alfreð síðar hafði Níels brennandi áhuga á málefn-inu og fylgdi því fast eftir að krabbameinsfélag yrði stofnað. Hann hafði og margháttaða og góða aðstöðu til að taka þetta að sér.
Níels hafði og verið formaður undirbúningsnefndar sem sett var á laggirnar á undirbúningsfundi sem haldinn var 1. febrúar 1949, en þar flutti Níels mjög kröftuga ræðu til stuðnings stofnunar krabbameinsfélags. Það var síðan á almennum fundi þann 8. mars 1949 í Hátíðarsal Háskóla Íslands sem fyrsta krabbameinsfélagið á Íslandi var stofnað og nefndist Krabbameinsfélag Reykjavíkur (KR). Níels varð fyrsti formaður félagsins.
Það eru ekki margir sem vita að Níels Dungal var einna fyrstur í heiminum til að benda á tengsl tóbaksreykinga við lungnakrabbamein (skrifaði um það grein í Lancet árið 1950), en hann hafði tekið eftir því í krufningum að þeir sem létust af lungnakrabbameini höfðu nær undantekningarlaust reykt sígarettur. Þessi tengsl sem hann benti á voru ekki almennt viðurkennd fyrr en um miðjan sjöunda áratug síðustu aldar.
Ólafur Bjarnason
Níels Dungal
Alfreð Gíslason
Félög víðar um landið
Fljótlega var á fundum farið að tala um að stofna fleiri slík félög utan Reykjavíkur og voru í framhaldi stofnsett krabbameinsfélög í Hafnarfirði og Vestmannaeyjum og nokkru síðar á Akureyri.
Vaxandi umræða varð síðan um nauðsyn þess að stofnað yrði samband íslenskra krabbameinsfélaga. Leiddi þessi umræða til þess að boðað var til fundar með fulltrúum þeirra félaga sem þegar höfðu verið stofnuð. Sá fundur var haldinn 27. júní 1951 í fundarsal Rannsóknarstofu Háskólans í meinafræði. Á þeim fundi var Krabbameinsfélag Íslands (KÍ) stofnað. Níels Dungal varð fyrsti formaður þess, en þá tók Alfreð við formennsku í KR.
KÍ varð fljótt (1952) aðili að Alþjóðakrabbameinssambandinu (UICC) og árið 1957 aðili að Norrænu krabbameinssamtökunum (NCU), en seinna að ECL (Samtökum evrópskra krabbameinsfélaga).
Margvíslegur ávinningur
Árangur krabbameinfélaganna (KÍ og svæðafélaganna) fyrstu árin var margvíslegur. Fræðslustarfsemi fyrir almenning um krabbamein varð mikilvægur þáttur í starfseminni, haldnir voru fræðslufundir og fyrirlestrar á vegum félaganna, gefnir út bæklingar með fróðleik um krabbamein, gefið var út Fréttabréf um heilbrigðismál (sem síðar nefndist Heilbrigðismál) og jafnvel var gerð kvikmynd og sýnd í bíóhúsum. Safn-að var fé fyrir tækjakaupum í þágu krabbameinssjúklinga, meðal annars nýtísku röntgentæki á Landspítalann. Einnig stuðluðu félögin að bættri greiningu krabbameina og betri umönnun sjúklinga. Hafin var leit (á vegum KR) að krabbameini meðal „heilbrigðra einstaklinga“ árið 1956 og ýmislegt fleira var gert.
Níels Dungal hafði lengi talað fyrir nauðsyn þess að skrá vel þau krabbamein sem greinast á Íslandi. Þetta mikla áhugamál hans raungerðist með ráðningu fyrsta starfsmanns KÍ, Halldóru Thoroddsen, þann 10. maí 1954. Halldóra var ráðin til þess meðal annars að aðstoða við krabbameinsskráninguna og telst þessi dagur stofndagur Krabbameinsskrár Krabbameinsfélags Íslands (KKÍ).
Fyrsti yfirlæknir KKÍ var Ólafur
Bjarnason meinafræðingur á Rannsókn-
arstofu Háskólans (RH) í meinafræði, sem verið hafði í framvarðasveit þeirra lækna sem stuðluðu að stofnun krabbameinsfélaga í landinu. Ólafur lagði grunninn að mjög nákvæmri krabba-meinsskrá sem fékk upplýsingar um öll greind krabbamein á landinu, aðallega frá RH í meinafræði, en einnig frá öðrum stöðum. Hrafn Tulinius, meinafræðingur, tók síðan við sem yfirlæknir skrárinnar árið 1975. Frumkvöðlavinna þessara einstaklinga markaði gæfuspor sem sannast í að Ísland er með eina bestu ef ekki bestu krabbameinsskrá í heiminum. Halldóra reyndist afar góður starfsmaður og varð síðar framkvæmdastjóri KÍ um áraraðir. Náin og góð tengsl KÍ við RH í meinafræði hafa ætíð verið mikil og gagnleg fyrir báða aðila. RH í meinafræði er nú meinafræðideild Landspítalans.
Krabbameinsleit sannaði gildi sitt
Eins og að ofan er getið, hófst leit að krabbameini hjá KR. Leitin mæltist vel fyrir og færðist fljótlega yfir til KÍ. Þetta varð grunnurinn að mun nákvæmari og skipulagðari leit sem fólst þó aðallega í leit á vegum KÍ að leghálskrabbameini. Slíkt hafði sannað gildi sitt með frumuskoðunum á sýnum frá leghálsi (með svokallaðri Papanicolaou-litun á frumustrokum þaðan). Leitarstöð KÍ var stofnuð árið 1964 og fyrsti yfirlæknir þeirrar starfsemi var Alma Þórarinsson. Alma hafði kynnt sér frumurannsóknir í Glasgow og Ósló og hún vann mikið brautryðjendastarf í þessari starfsemi á Íslandi. Leitin náði til alls landsins frá og með 1969. Lengi vel var aðeins leitað að leghálskrabbameini á vegum félagsins, en seinna kom til leit að brjóstakrabbameini undir forystu Baldurs Sigfússonar röntgenlæknis. Guðmundur Jóhannesson (hann lést skömmu síðar af slysförum) og síðar Kristján Sigurðsson kvensjúkdómalæknar (frá og með 1982) tóku við keflinu af Ölmu. Með útgáfu virtra vísindagreina úr starfsemi Leitarstöðvarinnar hefur verið sýnt fram á gríðarlega góðan árangur af þessari starfsemi KÍ.
Margvíslegur árangur annar hefur orðið af starfsemi KÍ og skal ekki farið mikið frekar út í það í þessum pistli, enda markmiðið aðallega að sýna hér fram á mikilvægi frumkvöðla í læknastétt, sem í þessu samhengi er óumdeilanlegt. Þess má þó geta í lokin að fimm ára lífshorfur sjúklinga sem greinast með krabbamein hafa aukist verulega frá stofnun KÍ, eða frá um 25-30% við upphaf og upp í yfir 70% nú. Þetta er mjög góður árangur og virkilega mikil framför. Líklegt er að KÍ eigi hér nokkurn heiður af árangrinum.
Heimildir
1. Tryggvadóttir L. Saga og þróun Krabbameinsfélags Íslands. Læknablaðið 2014; 100: 526-535.
2. Krabbameinsvarnir. Grein nefndar (AG, HH, GFP, ÓB). Læknablaðið 1948; 139-142
3. Bjarnason B. Krabbameinsfélag Reykjavíkur 15 ára. Fréttabréf um heilbrigðismál 1964; 11-14.
4. Bjarnason B. Tímamót hjá Krabbameinsfélagi Reykjavíkur. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur. Fréttabréf um heilbrigðismál 1960; 5-6 +18.
5. Viðtal við Alfreð Gíslason: Krabbameinsfélag Reykjavíkur 30 ára: Félagið hefur unnið stórvirki á sínu sviði. Fréttabréf um heilbrigðismál 1979; 18-19.
6. Dungal N. Lung carcinoma in Iceland. Lancet 1950; 1, 256: 245-7.