09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Úr penna stjórnarmanna LÍ. Þegar von er á barni. Thelma Kristinsdóttir
Það er erfitt að stýra því nákvæmlega hvenær barn skal fæðast enda ræður fólk almennt ekki sinni frjósemi. Mín meðganga hófst á seinni hluta sérnámsgrunnsárs og byrjaði ég svo í sérnámi gengin um fimm mánuði á leið með vaxandi bumbu og minnkandi þol. Mér þótti erfitt þegar að því kom að ég treysti mér ekki til að taka vaktir og þoldi illa að vera á skurðstofu. Það var ákveðin huggun í því að í gæðaskjali frá Landspítala stóð að leitast væri eftir að þungaðar konur tækju ekki lengri vaktir en átta klukkustundir eftir 28. viku meðgöngu og væru þá hvattar til þess að hætta næturvöktum. Ég ákvað að fylgja þessu og um þetta leyti sendi ég því vottorð á launadeildina frá ljósmóður sem staðfesti að ég væri ólétt. Þessu vottorði var hafnað og ég þurfti að útvega annað vottorð frá heilsugæslulækni sem ég hafði aldrei hitt um að ég gæti ekki tekið vaktir. Þetta kom aðeins illa við mig enda hefði ég fræðilega getað tekið vaktir, ég bara treysti mér illa til þess og vissi að sennilega væri það ekki skynsamlegt.
Ég hafði heyrt af svokölluðum meðaltalsvaktagreiðslum sem þungaðir læknar geta sóst eftir á Landspítala þegar þeir hætta vöktum og eru til þess að bæta upp það mikla tekjutap sem verður við að vinna einungis dagvinnu á berstrípuðum grunnlaunum. Ég leitaði víða að upplýsingum um þetta fyrirkomulag en þær voru ekki auðfundnar. Ég fann að lokum þráð inni á Facebook-síðu FAL þar sem þetta var rætt og þá fór boltinn að rúlla. Ég ræddi við launadeildina og jú, meðaltalsvaktagreiðslur voru vissulega til og ég gat fengið slíkar, mikill léttir. Þau létu mig vita að venjulega væri þetta reiknað lengra aftur í tímann en hægt væri fyrir mig. Þar sem ég hafði unnið allt sérnámsgrunnsárið úti á landi var ekki hægt að nota nema þennan stutta tíma sem ég hafði unnið í byrjun sérnámsins til viðmiðunar. Svekkjandi eftir allar vaktirnar á sérnámsgrunnsárinu en þó betra en að eiga ekki rétt á neinni launauppbót, sem til eru dæmi um við svipaðar aðstæður.
Ég hætti svo að vinna þegar ég var gengin 35 vikur og þakka fyrir að veikindaréttur ávinnist þvert á ríkisstofnanir í ljósi ofangreinds. Það hvort þungaðar konur ættu að þurfa að ganga á veikindarétt sinn við þessar aðstæður er svo önnur og meiri umræða.
Ég á nú mánuð eftir af fæðingarorlofi. Því fylgja blendnar tilfinningar en ég hlakka til að komast aftur til vinnu. Sérstaklega í ljósi þess að ég mun fljótlega þurfa að fara aftur í einhvers konar leyfi þar sem óvíst er hvernig dagvistunarmálum dótturinnar verður hagað eftir að við foreldrarnir klárum fæðingarorlofsréttindin. Ég reyndar missti næstum réttinn til fæðingarorlofsgreiðslna þar sem gerð voru mistök við skráningu ráðningarsamninga frá sérnámsgrunnsári yfir í sérnámið. Þetta fékkst sem betur fer leiðrétt en ég vil brýna fyrir fólki að tryggja að vera á engum tímapunkti samningslaus síðustu sex mánuðina fyrir fæðingu barns.
Það er að ýmsu að huga á þessum tímamótum í lífi læknis og er þetta alls ekki tæmandi listi yfir hindranir sem geta komið upp. FAL hefur gefið út skjal þar sem teknar eru saman hagnýtar upplýsingar um barneignir og veikindarétt lækna. Það er óneitanlega dýrkeypt að eignast barn, maður tekur á sig töluverða launalækkun og hægir á framgangi í starfi. Foreldrahlutverkið er þó að mínu mati þess virði og miðað við barnamynda- og óléttutilkynningafarganið á samfélagsmiðlunum hjá mér eru læknarnir í kringum mig sammála. Félagið vill aðstoða við að gera þetta á eins hagkvæman og skynsamlegan máta og kostur er á. Við viljum gjarnan bæta skjalið jafnóðum og tökum því glöð við öllum ábendingum frá félagsmönnum sem og öðrum.
Að lokum legg ég til að Landspítalinn stofni leikskóla.