09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Þægileg innivinna?

Við lok fimm ára sérnáms í barnalækningum fór ég að huga að því hvaða undirgrein mig langaði að taka. Í rauninni fannst mér þær allflestar vera eitthvað sem ég gæti vel hugsað mér að vinna við en nokkur atriði höfðu áhrif á valið. Mér hefur alltaf þótt spítalavinnan skemmtilegust en samt sem áður gat ég ekki hugsað mér að velja undirgrein sem væri bundin sjúkrahúsi og vera þannig föst með öll eggin í einni körfu út starfsævina. Ég hélt á þeim tíma að við myndum flytja fljótt aftur heim eftir sérnám (sem varð nú ekki alveg raunin) og þá væri mjög hentugt að vera með undirgrein þar sem hægt væri að vinna sjálfstætt á stofu. Af einhverjum óskiljanlegum ástæðum eru ekki allar undirgreinar með opinbera viðurkenningu í Svíþjóð og sérnám innan sumra undirgreina ekki eins vel skipulagt og ofnæmis-lækningar, sem er með formlegt sérnám og viðurkennt sem undirgrein. Sérnámið sem undirgrein er núna tvö og hálft ár í Svíþjóð og hægt er að taka það að hluta til samhliða sérnámi í barnalækningum eða öðrum sérgreinum.

Ofnæmislækningar eru fag sem leynir á sér. Það virðist kannski við fyrstu sýn vera þægileg innivinna en það er ótrúlega fjölbreytt, margslungið og margar gátur enn óleystar. Fagið skarast við margar aðrar greinar, eins og meltingarlækningar, háls-, nef- og eyrnalækningar, húðlækningar, lungnalækningar og ónæmisfræði og þannig geta þau sem velja ofnæmislækningar sem undirgrein komið úr ýmsum áttum. Síðan lenda sumir í því, eins og ég, að skauta yfir á aðra skylda braut og í lok sérnámsins í ofnæmislækningum ákvað ég að taka einnig barnalungnalækningar sem undirgrein, sem er ein fullkomnasta tvenna sem hægt er að hugsa sér að mínu hlutlausa mati, þar sem þessar tvær greinar bæta og bakka hvor aðra upp. Í Bandaríkjunum er sérnám í ofnæmislækningum tengt ónæmisfræði en í Svíþjóð er það ekki þannig formlega séð þó sumir fari inn á það spor samhliða, eins og ég gerði með lungun. Barnalungnalækningar eru vissulega meira spítalafag og lengst af vann ég mun meira við barnalungnalækningarnar eftir sérnámið í Svíþjóð, en þegar ég flutti heim sá ég, af augljósum ástæðum, minn kost vænstan að vinna einnig sjálfstætt með spítalavinnunni og er því komin aftur í ofnæmið að hluta til og gleðst svo sannarlega yfir endurfundunum.

Ofnæmislækningar eru frábær sérgrein sem bæði er hægt að vinna við á stofu og spítala. Við fylgjum einstaklingum á öllum aldri og ansi stór hópur skjólstæðinga okkar barnaofnæmislækna eru minnstu börnin, sem þurfta oft þéttara endurmat, og síðan bætast jafnvel systkinin smám saman við. Það sem er afar gefandi við ofnæmislækningar er að þú getur bætt lífsgæði barns og í raun allrar fjölskyldunnar með tiltölulega einföldum hætti, miðað við margt annað. Greiningin er gjarnan fengin í læknisheimsókninni með aðstoð klínískra rannsókna sem læknirinn býr yfir. Það er ekki margt leiðinlegt við starfið en það er þá helst þegar úthýsa þarf gæludýrum af heimilum, sem er sjaldnast vinsælt.

Það eru mikil tækifæri til rannsókna innan ofnæmislækninga. Ég var aðeins með í rannsóknarstarfi þegar ég var í sérnámi í ofnæmislækningum í Malmö en doktorsnám mitt var hins vegar innan lungnalækninga. Ég komst fljótt að því að hér á landi er metnaðarfullt starf innan fagsins, bæði klínískt og í rannsóknum, og íslenskir ofnæmislæknar hafa verið mjög virkir í rannsóknum, bæði hér heima og í samstarfi við erlenda aðila. Okkar helsta vandamál nú er að það vantar fleiri góða liðsfélaga, bæði fyrir börn og ekki síður fyrir fullorðna. Það eru frábærir möguleikar innan ofnæmislækninga, bæði í eigin rekstri og innan veggja LSH í klínísku starfi og í rannsóknum. Vil ég því nota tækifærið og hvetja alla áhugasama kollega til að skoða þetta sérnám vel og vandlega og hafa samband við okkur sem einu sinni vorum í sömu sporum að ákveða hvaða veg skyldi haldið.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica