09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Viðtal. Það lá alltaf fyrir mér að verða læknir

„Ég vil vera til gagns,“ segir Ásgeir Haraldsson, barna- og ónæmislæknir, og fer yfir ferilinn og stöðu vísinda í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins

Huga þarf að stærri Barnaspítala. „Einhverskonar viðbygging, einhvers konar stækkun,“ segir Ásgeir Haraldsson, prófessor í barnalækningum, forstöðumaður fræðasviðs og yfirlæknir á Barnaspítala Hringsins, í Læknavarpinu. Börnum fjölgi og aðferðir breytist. Hann kom að uppbyggingu Barnaspítalans sem opnaður var fyrir tveimur áratugum – en nú þurfi að fara að huga að frekari uppbyggingu.

Ásgeir ræddi byggingu Barnaspítalans, kennsluverðlaun, bakgrunninn, stöðu vísinda, bólusetningar og þungan, annasaman síðasta vetur á spítalanum í hlaðvarpinu. En í fyrra kom fjöldi barna með streptókokkasýkingar á spítalann. „Það kom svolítið í bakið á okkur. Ýmsir faraldrar sem geisuðu síðasta vetur,“ segir hann. Börnin hafi hugsanlega verið varin fyrir þessum sýkingum á Covid-tímabilinu en hluti af ástæðunni sé breytt hegðunarmynstur.

„Við sjáum líka núna að ákveðnar bakteríur og veirur skjóta upp kollinum í löndunum í kringum okkur sem við þurfum að hafa augun á, en ég vona að það verði ekki eins annasamt og í fyrra.“

Ásgeir er af vestfirskum ættum en ólst upp í höfuðborginni. Systir hans sá til þess að hann skráði sig á réttum tíma í læknisfræðina þegar hann var á sjó og hvatti hann áfram. Sjálfur sá hann starfið fyrir sér og kaus barnalækningarnar, enda hafi hann afar gaman af börnum. Hann myndi velja eins, stæði hann frammi fyrir starfsvalinu nú, fjörutíu árum frá almenna lækningaleyfinu. „Tvímælalaust.“ Hann lærði barna- og ónæmislækningar í Hollandi og bjó þar í um áratug. Kom heim og var skipaður prófessor í barnalækningum og for-stöðulæknir Barnaspítalans árið 1995.

Börn bara svo skemmtileg

Ásgeir horfir til allra skondnu atvikanna, tilsvaranna sem börn hafa gefið í gegnum tíðina og deilir nokkrum sögum í Læknavarpinu. „Maður fær næringu og ánægju með því að vinna með svona „fyrirbærum.“ Börn eru svo skemmtileg, svo jákvæð, heiðarleg, þau segja ekki ósatt – og oft svo skemmtileg og fyndin!“ segir hann og lýsir því hvernig alltaf hafi verið borin virðing fyrir börnum í fjölskyldu sinni.

„Já, það er gaman að vera barnalæknir. En þegar það er erfitt er það mjög, mjög erfitt,“ segir Ásgeir. „Sumar af þessum minningum eru auðvitað sárar. En það er líka þá sem maður getur gert mikið gagn. Það getur verið frið-þæging og sálarró að geta á slíkum stundum verið til gagns. Og kannski er það þess vegna sem maður er á þessari jörð; að reyna að vera til gagns,“ segir hann.

„En þrisvar hefur það gerst að foreldr-ar sem ég þekkti í Hollandi og misstu þar barn hafa komið til Íslands að hitta mig. Þau hefur langað til að tala við mig, langað að kynnast mér aftur, langað að tala um barnið sitt. Þetta er dýrmætt,” segir Ásgeir. Þá hafi Hollendingar sem hafi verið mjög veikir sem börn haft upp á honum á Facebook. En hvernig er best að brynja sig fyrir sorginni sem læknar verða vitni að?

„Ég held að leiðin sé að brynja sig ekki,“ segir Ásgeir. „Ég held að leiðin sé að vera til gagns.“ Hann hafi óttast að segja röngu orðin þegar hann talaði illa hollensku. „Þá sagði reyndur læknir: Þú þarft ekki að segja neitt, þú þarft bara að vera þarna, vera persóna, vera manneskja, ekki að brynja sig. Það kemur bara í hausinn á manni síðar.“

Bólusetningar til bjargar

Ásgeir hefur talað fyrir bólusetningum og segir Íslendinga almennt hafa staðið sig vel. Bólusetningar hafi sannað sig, jafnvel útrýmt erfiðum, hættulegum sjúkdómum. „Að frátöldu hreinu vatni er engin læknisaðgerð sem hefur bjargað jafn mörgum mannslífum og bólusetningar.“ Bólusótt hafi til að mynda tekið 100 milljónir mannslífa fyrir einni öld.

„Hún tók fleiri mannslíf en allar styrjaldir, beint og óbeint, samanlagt. Nú er hægt að bólusetja gegn bólusótt. Það er búið að útrýma henni úr heiminum. Það er ótrúlegur árangur.“ Brýnt sé að vera ekki kærulaus gagnvart bólusetningum. „Við verðum að halda áfram að verja börnin okkar gegn hættulegum sjúkdómum,“ segir hann. En varð COVID-bólusetningin ástæða bakslags í bólusetningum?

„Já, það varð svolítið hökt,“ segir Ásgeir. Um 600 þúsund vísindagreinar hafi verið birtar um allan heim um COVID. „Ef þetta væri samsæri lyfjafyrirtækjanna þyrfti það að vera ótrúlega útbreitt. Það gengur því ekki upp.“ Samfélagsmiðlar séu frábær staður til að fá rangar upplýsingar. Gott sé að fá gagnrýni og mótbárur og bólusetningar þurfi að rökstyðja eins og annað.

„Við verðum að vera á tánum og fylgjast með.“

Hann segir að spennandi væri að bólusetja gegn RSV-vírusnum. 100 þúsund börn deyi vegna hans á ári en ekkert á Íslandi í mörg ár. Bólusetja þyrfti fullorðna, því efnin hafi ekki verið rannsökuð á börnum. „En það eru komnar nægar rannsóknir til að bólusetja barnshafandi mæður og vernda þannig börnin fyrstu mánuðina,“ segir hann, en minnstu börnin séu í mestri hættu og því sé til skoðunar að taka upp einstofna mótefni gegn þessari veiru sem endist barni í 6-8 mánuði.

„Það er margt að gerast,“ segir hann og nefnir nýju mRNA-aðferðina og hvernig menn sjái fyrir sér að bólusetja gegn ákveðnum krabbameinum. „Allt er ónæmisfræði. Takið eftir því, kæru nemendur,“ segir hann og hlær.

Kastar brátt inn því hvíta

Ásgeir horfir yfir sviðið spurður um fimm ára plön. „Ég er 68 ára og þarf að finna út hvernig ég ætla að hætta. Ég hætti að taka vaktir fyrir nokkrum árum og tek minni klíníska vinnu og meiri rannsóknarvinnu. Ég er að reyna að minnka skref af skrefi næstu eitt til tvö árin, svo kasta ég inn hvíta handklæðinu og finn mér eitthvað annað að gera. Það verður skrítið eftir 30 ár á Barnaspítalanum, 10 ár í Hollandi og eftir námið,“ segir Ásgeir.

„Skrítið en ekki dramatískt eða til-finn-ingaþrungið, ekki síst þar sem ég get á margan hátt litið þakklátur til baka — þótt auðvitað sé eitt og annað sem ég hefði getað gert betur faglega og samskiptalega. En í stórum dráttum get ég litið sáttur til baka. Það verður ánægjulegt þegar ég hætti á Barnaspítalanum að horfa yfir hópinn. Þetta er áhugasamt, jákvætt, skemmtilegt og klárt fólk í öllum starfsstéttum. Þau vinna vel saman og ég held ég fari brosandi.“

Ásgeir fékk á dögunum viðurkenningu ESPID, Evrópufélags um smitsjúkdóma barna.

„Já, þetta kom mér á óvart og ég er stoltur af þessum verðlaunum þótt ég dragi í efa hvort ég eigi þau endilega skilið,“ segir hann af hógværð í Læknavarpinu, hlaðvarpi Læknablaðsins. „Ég vinn með frábæru fólki, bæði á Barnaspítalanum og innan ESPID. Ég er ekki sá sem kenni mest eða best á Barnaspítalanum, en það er ótrúlega góður andi gagnvart nemum og gagnvart kennslu á Barnaspítalanum,“ segir hann.

„Hjúkrunarfræðingar, ritarar, allt starfsfólk sameinast um að sinna nemum vel og ég held að allir hafi ánægju af því og það er hvetjandi.“ Mikilvægt sé að leggja mikið upp úr kennslu. „Þeir sem kenna þurfa að kunna og þú getur ekki boðið metnaðarfullum, duglegum, áhugasömum læknanemum upp á eitthvað gamalt. Svo þú verður að halda þér við.“

Kennarar fái spurningar sem þeir þurfi að svara. „Það að það sé mikil og góð kennsla á Barnaspítalanum er hluti af þeim árangri sem við náum og hluti af því að vera með nýjustu og bestu þekkinguna,“ segir hann. Fyrir átta til tíu árum hafi hann ásamt Valtý Thors og fjórum öðrum ákveðið að bjóða upp á kúrs um það hvernig mæta ætti börnum með alvarlegar sýkingar.

„ESPID styrkti þennan kúrs. Við tökum færri en fjörutíu manns en hann hefur verið vinsæll og alltaf er upppantað. Síðast voru þegar komin 40 manns á biðlista. Þessi kúrs hefur gengið ótrúlega vel og er hluti af þessum verðlaunum,“ segir hann og hælir samkennurum sínum óspart.

Hópmynd frá námskeiðinu Hagnýtar aðferðir við alverlegum sýkingum hjá börnum sem þeir Ásgeir og Valtýr Thors settu upp ásamt tveimur öðrum. Námskeiðið hefur notið mikilla vinsælda.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica