09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Læknablaðið í 110 ár. Verkefni fyrir íslenska lækna fyrr og nú
Magnús Gottfreðsson rýnir í 110 ára fræðigrein.
Í 2. tbl fyrsta árgangs Læknablaðsins árið 1915 gat að líta grein með fyrirsögninni „Verkefni fyrir íslenska lækna“ eftir Guðmund Hannesson, stofnanda og fyrsta ritstjóra blaðsins.
Í þessari hugvekju Guðmundar veltir hann fyrir sér stöðu íslenskra lækna á því sem hann nefnir „smásjár- og sóttkveikjuöld“. Hann vísar þar til þeirrar þekkingarbyltingar sem hófst með grundvallarrannsóknum Kochs og Pasteurs um orsakir smitsjúkdóma í lok 19. aldar og enn sér ekki fyrir endann á, 100 árum síðar.
Framsýnn og metnaðargjarn
Guðmundur spyr í grein sinni hvort í þessum heimi vísindalegra rannsókna á árinu 1915 sé tækifæri fyrir íslenska lækna að taka þátt í þekkingarsköpun og leggja sitt af mörkum. Þeir séu vart þeim efnum búnir að geta keypt dýran sérhæfðan búnað og leggja stund á vísindi á „þessari smásjár- og sóttkveikjuöld“, – ekki síst vegna mikilla anna við klínísk störf og tilbúning lyfja. Í hugleiðingunni svarar Guðmundur eigin spurningu þó játandi, „... hef eg lengi verið sannfærður um það, að þrátt fyrir alt, getum vér lagt til þýðingarmikinn skerf, – ef vér vildum og kynnum með að fara, einkum ef vér værum allir á eitt band snúnir.“
Orð hans bera vott um framsýni og metnað fyrir hönd lækna og jafnframt skilning á mætti samvinnu og sérhæfingar, þrátt fyrir að á þeim tíma sem pistillinn er ritaður hafi engir læknar hér á landi enn fengið sérfræðiviðurkenningu í nokkurri grein og flestir starfað sem einyrkjar við lækningar, oftast með fátæklegan aðbúnað.
Guðmundur heldur áfram og rökstyður mál sitt: „Eg skal hér að eins benda á eitt verkefni og það eru einmitt næmu sjúkdómarnir. Það má rannsaka þá á annan hátt en með sóttkveikjuræktun og smásjá. Enn þá hafa athuganir á útbreiðsluhætti og öllum aðförum farsótta mikla þýðingu. Stofu-tilraunir vísindamanna með sýkingu dýra, sóttkveikjuræktun og litun o.s.frv. eru þó ekki svo almáttugar, að náttúrunnar stórvöxnu tilraunir á lifandi mönnum, er sóttir geysa yfir löndin, séu einskis virði“.
Kom auga á kosti Íslands
Hverjar eru þær „náttúrunnar stórvöxnu tilraunir á lifandi mönnum“ sem Guðmundur er að vísa til hér? Hann tekur tvö dæmi máli sínu til stuðnings.
Annað er kvef, sem hann segir að sé næm sótt enda þótt „erlendis mun það fæstum ljóst, að kvef geti verið beinlínis næmt, og í flestum kennslubókum er ekki minnst á það einu orði í kaflanum um næma sjúkdóma.“ Hann segir að líklega séu flestir íslenskir læknar sammála um það að kvefið sé farsótt „sem ætti að standa í hverri kenslubók við hliðina á influenzu“. Síðan kemur rúsínan í pylsuendanum: Guðmundur leggur til að íslenskir læknar sýni fram á þetta með „einföldum, vandlega hugsuðum athugunum á háttalagi veikinnar, þá held eg að vér hefðum beinlínis lagt nokkurn skerf í guðskistuna.“ Hér kemur Guðmundur strax auga á hina augljósu kosti Íslands sem vettvangs fyrir vandaðar rannsóknir í faraldsfræði og læknisfræði, sem vísindamenn tóku að nýta sér með góðum árangri á seinni hluta 20. aldar.
Hitt dæmið sem Guðmundur nefnir um að íslenskir læknar geti lagt af mörkum til alheimsþekkingar er mænusótt. Um þessar mundir gekk hún í þremur læknishéruðum hérlendis með tilheyrandi skaða. Guðmundur nefnir að sóttkveikjan þekkist og er þá að vísa til uppgötvunar Landsteiners og Poppers á mænusóttarveirunni árið 1909. Hann er hugsi yfir því að sjúkdómurinn virðist geta borist manna á milli með „lítt sjúkum eða jafnvel heilbrigðum mönnum“ og að það sé engin vissa um að um sé að ræða „afsýkjandi kvilla“, það er að ekki sé alveg öruggt að einkennalausir en smitandi einstaklingar hætti nokkurn tíma að bera smit.
Hann telur að hér geti nákvæmar athuganir lækna sem starfa í hinum dreifðu byggðum landsins orðið til þess að greina hina huldu smitleið mænusóttarveirunnar enda séu „slíkar athuganir lang-auðveldastar, þar sem samgöngur eru strjálar og fámenni“.
Vísar til klassískra aðferða
Hér er Guðmundur væntanlega að vísa til klassískra aðferða í faraldsfræði, eins og þeirra sem tóku að ryðja sér til rúms eftir miðbik 19. aldar og hófust með frægum kólerufaraldri í Lundúnum sem John Snow átti heiðurinn af að kveða niður, grundvallaruppgötvun sem læknanemar læra enn um í grunnáföngum í faraldsfræði.
Aðferðin þá fólst í að rekja uppruna smits með kortlagningu á staðháttum, þýði og smitkeðjum og nú sem fyrr kallar hún á „… mikla samvizkusemi, alúð og oft glöggskyggni til þess að komast að réttri niðurstöðu“. Þessi aðferð er enn – 100 árum eftir skrif Guðmundar – ein mikilvægasta forsenda þess að unnt sé að beita markvissum íhlutunum þegar skæðar farsóttir herja á, líkt og í nýyfirstöðnum heimsfaraldri covid-19 sem er heimsbyggðinni allri enn í fersku minni.
Guðmundur var hér eins og á svo mörgum sviðum á undan sinni samtíð. Hann hóf útgáfu eigin Læknablaðs árið 1902 sem hann handskrifaði og gaf út allt til ársins 1904, en það var forveri núverandi Læknablaðs sem hóf útgáfu árið 1915.
Guðmundur starfaði sem læknir, prófessor og Háskólarektor, en hann var jafnframt merkur frumkvöðull og samfélagslega þenkjandi leiðtogi á sviði skipulagsfræða og á vettvangi stjórnmálanna.