09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Höfum fengið nóg
Steinunn Þórðardóttir formaður Læknafélags Íslands er ómyrk í máli um starfsaðstæður og kjör lækna nú á því herrans ári 2024.
„Okkur finnast hlutirnir hreyfast mjög hægt og við erum að tala um sömu vandamálin ár eftir ár, við mætum skilningi þegar við tölum við ráðherra og ráðuneytið en hreyfingin er lítil og á sama tíma sitja læknar sem starfa á sjúkrahúsunum og heilsugæslunum í súpu sem er samsett af erfiðum starfsaðstæðum, manneklu og kjörum sem komin eru langt aftur úr því sem eðlilegt er. Við erum að slökkva elda alla daga og finnst að þeir sem fara með völdin mættu sýna vilja til athafna í meira mæli í verki,“ segir Steinunn í upphafi.
„Það má alveg taka fram að ýmsir góðir hlutir hafa náðst í gegn á undanförnum árum og í tíð núverandi heilbrigðisráðherra náðust langþráðir samningar við sjálfstætt starfandi sérfræðilækna. Það er fyrst og fremst hagkvæmt fyrir skjólstæðingana því þetta snýst um niðurgreiðslur svo fólk hafi efni á slíkri læknisþjónustu. Fólk var að borga þetta mun hærra verði þegar enginn samningur var í gildi. Okkur finnst eðlilegt að sjúkratryggingarnar okkar taki þátt í þessum kostnaði með þeim hætti að aðgengi allra að þjónustunni sé tryggt, óháð efnahag. Þetta var risastórt skref og með þessum samningi náðist líka ákveðið samkomulag milli Sjúkratrygginga og sérfræðilækna sem tryggir innleiðingu nýjunga og reglulega endurskoðun samningsins.“
Steinunn segir mikilvægt að í þessari umræðu átti fólk sig á því að þeir fjármunir sem ríkið ver til einkarekinnar heilbrigðisþjónustu séu hreinir smámunir í stóra samhenginu.
„Einkarekna heilbrigðisþjónustan er örgeiri í samanburði við hversu stór heildarupphæðin er til heilbrigðisþjónustu í landinu. Prívatgeirinn er ennfremur rekinn á mjög hagkvæman hátt, hann er mjög straumlínulagaður og heil-brigðisstarfsfólkið stjórnar því sjálft hvernig er unnið, hver forgangsröðunin er og hvernig rekstrinum er háttað. Það hefur sýnt sig víða um heim að þegar heilbrigðisstarfsfólkið rekur sjálft þjónustuna þá er hún hagkvæmari án þess að það komi niður á gæðunum. Okkar afstaða er eindregin sú að hér sé blandað kerfi og vissulega þarf að vera aðhald og eftirlit svo ekki komi til oflækninga en eins og staðan er í dag er hverfandi hætta á því vegna þess hversu mikil þörf er fyrir þjónustuna. Læknar þurfa ekki að skapa sér verkefni.“
Forgangsröðun er ekki í forgangi
En það er ekki allt neikvætt og Steinunn bendir á að mikilvæg lagabreyting hafi átt sér stað þegar refsiábyrgð vegna alvarlegra atvika var færð af einstaklingum yfir á stofnanir.
„Áður þurfti þolandi að sækja einstakan starfsmann til saka þó vinnuaðstæður, mannekla, óhófleg yfirvinna og aðrar kerfislægar ástæður væru langoftast að baki alvarlegum atvikum. Það er því óréttlátt að refsa einstaklingum í þeim tilvikum þegar kerfið veldur vandanum.
Almennt má segja að starfsaðstæður á sjúkrahúsum og heilsugæslu séu mjög erfiðar. Einnig er verið að nýta starfskrafta lækna á mjög óskilvirkan hátt, eins og til dæmis með ritun -skýrslna til tryggingafélaga, ýmis félagsleg mál, vottorð og beiðnir alls konar sem aðrir starfsmenn gætu hæglega sinnt eða mætti í sumum tilvikum fella alveg niður. Við höfum ítrekað bent á nauðsyn þess að straumlínulaga störf læknanna svo þeir geti einbeitt sér að því að sinna veikum og slösuðum. Þarna þurfa stofnanirnar að fá heimildir til að vísa verkefnum af þessu tagi annað, því eins og er þá er þeim skylt að sinna þessu. Við getum tekið dæmi af tryggingafélögunum sem búa til sín eigin eyðublöð sem eru oft gríðarlega viðamikil og síðan er heimilislæknirinn skyldugur til að fylla þetta út með ærnum tíma því annars fær skjólstæðingurinn ekki þá fyrirgreiðslu tryggingakerfisins sem hann hefur þörf fyrir. Í sem stystu máli, þá skortir stefnumótun sem tilgreinir skýrt og greinilega hvaða verkefnum opinbera heilbrigðiskerfið á að sinna og hverjum ekki. Ennfremur að þegar mannekla er staðreynd hafi stofnanirnar heimildir til að vísa frá sér verkefnum sem eru ekki í forgangi. Um þetta þarf að verða breið sátt svo enginn vafi leiki á hvað opinbera kerfið á að gera og hvað má hreinlega missa sín.“
Afarkostir eina svarið
Steinunn kveðst finna fyrir skilningi og vilja en ævinlega vanti einhvern herslumun svo aðgerðir fari í gang.
„Í mörgum tilfellum er þetta ekki spurning um kostnað heldur einfaldlega að breyta regluverkinu svo hægt að sé gera hlutina öðruvísi og forgangsraða á nýjan hátt. Við höfum til dæmis bent á að mikilvægt sé að fjármagn fylgi hverjum sérnámslækni. Að þeir hafi val um hvar þeir vilji vinna og þær stofnanir sem laða að sér sérnámslækna fái fjármagnið. Það skapar heilbrigða samkeppni milli stofnana og að vel sé búið að læknunum í þeirra sérnámi. Þessu væri hægt að breyta með einu pennastriki. Ýmis önnur dæmi mætti nefna um atriði sem væru til bóta og hægt breyta með einföldum hætti, án viðbótar tilkostnaðar, og ég skil ekki alltaf hvar tregðan liggur við að ráðast í slíkt.“
En þrátt fyrir allan skilninginn og viljayfirlýsingarnar er engu að síður komið að ákveðnum þolmörkum.
„Mín tilfinning er að til að hlustað sé á okkur þurfi afarkosti,“ segir Steinunn. „Það er mjög miður því við berum hag heilbrigðiskerfisins ótvírætt fyrir brjósti, jafnvel fremur en okkar persónulega hag, en vissulega helst þetta í hendur. Við viljum vinna í góðu kerfi, við viljum geta veitt góða þjónustu og við viljum geta sinnt læknisstörfum en ekki hverjum þeim skriffinnsku verkefnum sem varpað er til okkar. Við viljum líka að það sé eftirsóknarvert að vinna í íslenska heilbrigðiskerfinu. Það er full ástæða til að óttast atgerfisflótta og að íslenskir læknar sjái sér ekki hag í því að vinna hér á landi. Aðstæðurnar eru víða eftirfarandi: Það er aldrei fullmannað, vinnudagurinn er aldrei nógu langur til að ljúka verkefnum, það er aldrei hægt að taka út frítökuréttinn sinn, yfirvinna er óstjórnleg og fæst ekki greidd. Þetta veldur því að læknar kjósa með fótunum og það væri mjög óskandi að hlustað væri á okkur áður en það gerist í stórum stíl. Sú ógn er alveg raunveruleg og sérstaklega heyri ég þetta meðal yngri lækna sem eru að vakna upp við vondan draum þegar þeir eru komnir til starfa. Ég heyri yngra fólkið tala um að breyta algjörlega um og snúa sér að allt öðru eða stefna leynt og ljóst að því að vinna erlendis. Læknar sem fara til útlanda í sérnám upplifa hversu mikill munur er á starfsaðstæðum hér og erlendis. Mín persónulega reynsla af sérnámi í Svíþjóð styður það svo sannarlega. Ég var nýtt sem læknir eingöngu, tölvukerfin voru miklu betri og studdu við mig í starfi í stað þess að skapa viðbótarvinnu, frítökurétt var hægt að taka út svo jafnvægið milli vinnu og einkalífs var miklu betra. Þessu er maður gjarnan að fórna með vinnu hér heima. Það er því miklu líklegra að læknar sem farnir eru til sérnáms og starfa erlendis komi ekki aftur meðan ástandið hér heima er óbreytt.“
Erum búin að fá nóg
„Þegar kemur að yfirstandandi kjaraviðræðum er samstaðan meðal lækna mjög sterk og það er mikill samhljómur í því hvað læknum finnst vera vandamálin. Læknar eru sammála um hvaða kröfum þarf að mæta til að samningur teljist ásættanlegur og við erum tilbúin að taka þann slag. Í hreinskilni sagt þá erum við búin að fá nóg og ef verkfall er það sem þarf, þá erum við tilbúin í það þótt það sé alls ekki óskastaðan. Þetta ræðst á næstu vikum og snýst svo sannarlega um margt fleira en launaliðinn eingöngu. Læknar hafa ekki fengið styttingu vinnuvikunnar eins og aðrir heilbrigðisstarfsmenn, það er sanngirnismál og hefur sýnt sig að bætir líðan starfsfólks, dregur úr kulnun og eykur jafnvægi milli vinnu og einkalífs. Þetta er ólíðandi og er risastórt mál. Stjórnvöld geta ekki endalaust treyst á að læknar muni í meðvirkni sinni með skjólstæðingum sínum láta allt yfir sig ganga. Við munum á endanum standa upp og ganga út ef ekki verða breytingar á. Læknar hafa sparað heilbrigðiskerfinu gríðarlegar fjárhæðir með meðvirkni sinni; vinna launalaust eftir að eðlilegum vinnudegi lýkur þar sem yfirvinna fæst ekki greidd og læknirinn getur ekki bara staðið upp og farið heim af því klukkan er fjögur. Það er stöðugt gengið á lagið.
Læknafélag Íslands fór í fyrsta skipti í verkfall 2014 og það er sannarlega ekki auðveld ákvörðun að taka. Læknar finna mjög sterkt til ábyrgðar með sjúklingum sínum og það verður að tryggja öryggi þeirra ef til verkfalls kemur. Sumir hafa bent á í kaldhæðni að verkfallsmönnun á sumum deildum sé betri en hún er að staðaldri. Það segir meira en margt um hvernig staðan er.“
Vonir bundnar við nýja Landspítalann
„Auðvitað munar um að vinna í nýju og nútímalegu húsnæði í stað þess löngu úrelta og jafnvel heilsuspillandi húsnæðis sem mörg okkar starfa í núna. Það verður gaman að fá nýjan spítala og mikilvægt að geta verið stoltur af aðstöðunni sem við getum boðið sjúklingum. En nýr spítali leysir ekki manneklu sem er aðalvandamálið. Nú er verið að fjölga nýnemum í læknadeild og það er fagnaðarefni en sem formaður Læknafélags Íslands vil ég geta tekið þátt í að tryggja að þetta unga fólk fái að njóta þessa áhugaverða og gefandi starfsvettvangs, án þess að það brenni upp á fáeinum árum vegna bágra starfsaðstæðna og ofálags. Fjölgun lækna er algjör forsenda þess að við höldum sjó en þá megum við heldur ekki missa þá jafnóðum frá okkur. Þetta helst allt í hendur ef ekki á illa að fara.“