09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Tölfræði. Hinar fjórar gerðir breyta og myndræn framsetning þeirra

Óraðaðar flokkabreytur skipta mælingum upp í flokka sem hafa enga innbyrðis röðun. Blóðflokkarnir (O, A, B, AB) eru gott dæmi um óraðaða flokkabreytu. Óröðuðum flokkabreytum má lýsa með stöplariti eða kökuriti. Stöplarit sýna fjölda mælinga í hverjum flokki á meðan kökurit sýna hlutfallslega skiptingu þeirra. Mannsaugað á auðveldara með að bera saman hæð stöpla en gráður hringgeira og því eru tölfræðingar síður hrifnir af kökuritum. Á mynd 1 eru sömu gögn teiknuð með stöplariti annars vegar og kökuriti hins vegar. Á stöplaritinu er auðvelt að raða flokkunum frá þeim algengasta til þess fátíðasta á meðan það er ekki augljóst á kökuritinu.

Raðaðar flokkabreytur skipta mælingum upp í flokka sem hafa innbyrðis röðun, t.d. stigun krabbameina (I, II, III og IV). Röðuðum flokkabreytum er best lýst með stöplariti þar sem flokkunum er raðað eftir innbyrðis röð, frá þeim minnsta til hins stærsta. Þannig væri flokkum stigunar raðað I, II, III og IV. Ekki ætti að nota kökurit til að lýsa röðuðum flokkabreytum þar sem þau sýna ekki innbyrðis röð flokkanna.

Samfelldar talnabreytur eru mældar í tiltekinni einingu og geta tekið hvaða gildi sem er á einhverju bili. Dæmi er magn kólesteróls í blóði (mmól/L). Þær er hægt að setja fram með stuðlariti annars vegar og kassariti hins vegar. Þegar stuðlarit eru teiknuð er kvarðanum sem breytan er mæld á skipt upp í jafnbreið, samliggjandi bil og fjöldi mælinga sem lendir á hverju bili er talinn. Mikilvægt er að breidd bilanna hæfi mælingunum, ef bilin eru of stutt er breytileiki mælinganna ýktur en ef þau eru of löng er hann jafnaður út. Kassarit sýna miðgildi, fjórðungamörk, dreifð og útlaga breytu og gefa því einfalda en grófa mynd af úrtaksdreifingu hennar. Stuðlarit hafa þann kost fram yfir kassarit að þau gefa betri mynd af úrtaksdreifingu breytunnar á meðan kassarit eru algengari þegar samfelldrar talnabreytur eru bornar saman milli hópa. Á mynd 1 má sjá stuðlarit og kassarit af sömu gögnum. Stuðlaritið sýnir skýrt tvítoppa úrtaksdreifingu sem ekki er hægt að sjá út frá kassaritinu.

Strjálar talnabreytur taka ólík aðskilin gildi og lýsa yfirleitt fjölda einhvers. Dæmi eru fjöldi innlagna á sjúkrahús á síðasta ári, fjöldi fæðinga eða fjöldi ávísaðra lyfja á tiltekinni stundu. Strjálum talnabreytum er best lýst með stöplariti sem sýnir fjölda mælinga sem tilheyra hverjum og einum fjölda. Mikilvægt er hafa skýrt bil milli allra stöpla til aðgreiningar frá stuðlariti. Stundum getur strjál talnabreyta tekið svo ótalmörg gildi að munurinn á einni einingu til og frá er hverfandi, eins og t.d. fjöldi blóðflagna í blóðsýni. Þá er eðlilegra að meðhöndla breytuna eins og hún væri samfelld í allri tölfræðiúrvinnslu og lýsa henni með stuðlariti eða kassariti.


Að lokum vil ég minna á nokkrar góðar reglur sem gilda um öll gröf. Merkið ása og flokka nákvæmt en skorinort, hafið liti auðgreinanlega og gætið að samræmi í litavali og merkingum milli grafa og annars texta. Forðist óþarfa flúr og flækjur, markmiðið er að sýna niðurstöðurnar ykkar á aðgengilegan og auðskiljanlegan hátt. Oft er það einfalda jafnframt það besta!



Þetta vefsvæði byggir á Eplica