09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Viðtal. Fjarlækningar eru hluti af framtíðinni
Ólafur Már Björnsson augnlæknir segir fjarlækningar kalla á fjárfestingar í búnaði en þó sé af þeim augljós sparnaður. Uppfæra verði samninginn við Sjúkratryggingar
„Það eru nokkur atriði sem hafa ýtt augnlækningum í átt að fjarlækningum. Þjóðinni hefur fjölgað um nærri 140 þúsund frá aldamótum, en á sama tíma hefur starfandi augnlæknum fækkað úr 30 í 24. Af þeim eru nærri tíu sem munu hætta innan 7-8 ára,“ segir Ólafur Már Björnsson augnlæknir sem verður fyrir svörum um tilurð og rekstur útstöðva Sjónlags.
Sjónlag er stærsta sjálfstætt starfandi augnlæknastöð landsins. Þar starfar tæplega helmingur allra augnlækna í landinu og er heildarfjöldi starfsmanna um 30. Sjónlag starfrækir fullkomnar skurðstofur til laseraðgerða og augasteinaaðgerða auk myndgreiningartækja til augnskoðunar og skoðunarstofa augnlæknanna sjálfra.
„Einhver fjöldi íslenskra lækna er í sérnámi í augnlækningum erlendis, en mjög er misjafnt hversu vel þeir skila sér til baka og einhverjir þeirra munu jafnvel setjast að erlendis. Það má líka nefna að viðhorf til vinnutíma og vinnuálags hefur verulega breyst; yngri læknar eru ekki tilbúnir til að vinna út í eitt, þeir vilja hafa sinn frítíma, sinna fjölskyldu og áhugamálum,“ segir hann.
„Þetta er svo sem ekki bundið við læknisfræði. Átthagafjötrarnir eru bara ekki eins sterkir og áður. Á hinn bóginn eru aðstæður fyrir augnlækna hér heima mjög góðar og næg vinna í boði. Svo séð heilt yfir skilar meirihluti lækna sér heim á endanum.“
Starf augnlækna hefur breyst
Ólafur Már heldur áfram. „Þá má nefna breytingar á starfinu sjálfu með aukinni samvinnu starfstétta, þar sem annars vegar hafa mælingar fyrir gleraugum að hluta færst yfir til sjóntækjafræðinga og á sama tíma hafa orðið gríðarlegar framfarir í tækni til greiningar og meðferðar augnsjúkdóma. Það hefur sett mikinn svip á okkar daglegu rútínu,“ segir hann.
„Hluti vinnu okkar í dag er fólginn í úrlestri stafrænna mynda og þær má færa á milli tölva, herbergja og landshluta. Þessi hluti vinnunnar hefur vaxið undanfarinn áratug, meðal annars vegna þess að tölvutengingar hafa batnað og stafrænn flutningur þungra skjala orðið að veruleika. Tæknin hefur líka gert okkur kleift að tryggja persónuvernd við slíkan gagnaflutning.“
Ólafur Már staldrar hér við og segir að þrátt fyrir alla tækni og nýjungar á því sviði þá sé ávallt nauðsynlegt að hitta sjúklinginn augliti til auglitis. „Þannig hugnast mér læknisfræðin best og ég er ekki einn um þá skoðun. Því hefur almenna áherslan í fjarlækningum verið mikil á myndsímtöl milli læknis og sjúklings í kjölfar ýmissa rannsókna, þar sem læknirinn ræðir niðurstöður og mögulegt framhald meðferðar við sjúklinginn,“ segir hann.
„Okkar tegund fjarlækninga snýst mest um úrlestur og myndgreiningu. Samtal okkar við sjúklinginn getur svo allt eins farið fram í venjulegu símtali; myndsímtal er í sjálfu sér ekki nauðsynlegt nema í einstaka tilfellum.“
Ólafur segir fjarlækningar í augnlækningum byggjast að miklu leyti á eftirliti í kjölfar upphaflegrar skoðunar á stofu. „Það má segja að þær séu sprottnar úr augnbotnaeftirliti, sem er framkvæmt með reglulegum myndatökum í bland við fækkun augnlækna og fjölgun og öldrun þjóðar.“
Byggja megi eftirlit og forvarnir ýmissa augnsjúkdóma að miklu leyti á myndgreiningu. „Við þurfum því ekki að hitta sjúklinginn augliti til auglitis jafnoft og áður var,“ segir hann og tekur dæmi af sjúklingi á Akureyri eða í Vestmannaeyjum sem komi til sín á stofuna í Reykjavík.
„Hann þarf síðan að koma í eftirlit árlega og þá bóka ég hann í myndatöku og sjónmælingu í sínum heimabæ, myndirnar eru vistaðar á öruggum miðlægum þjóni. Eftir að hafa lesið úr myndum og rannsóknum, hringi ég í sjúklinginn og ræði við hann um niðurstöður og framhald meðferðar,“ segir hann og áréttar.
„Það er augljós sparnaður þarna, bæði í beinum kostnaði og tíma, sérstaklega fyrir sjúklinginn. Þetta er okkar nálgun á fjarlækningar og er í frekari þróun. Hún kallar hins vegar á verulega fjárfestingu í tækjabúnaði sem þarf að vera til staðar svo hægt sé að framkvæma þetta.“
Útstöð í Vestmannaeyjabæ
Ólafur Már rifjar upp forsöguna að fjarlækningum Sjónlags, en fyrir nokkrum árum óskaði Heilbrigðisstofnun Suðurlands eftir að Sjónlag tæki að sér að sinna augnlækningum í Vestmannaeyjabæ. Ferðir augnlækna út á land höfðu lagst af nokkrum árum áður og því engin þjónusta í heimabyggð.
„Það var strax ljóst að við myndum ekki ráða við að manna þjónustu á staðnum í Eyjum. Þar sem við vorum farin að leiða hugann að fjarlækningum, stungum við upp á því að setja upp tækjabúnað í Vestmannaeyjum til að þróa fjarlækningar, sem myndu allavega fækka ferðum sjúklinga upp á land. Skemmst er frá því að segja að með stuðningi Lionsmanna í Vestmannaeyjum og erlendis frá ásamt framlagi okkar og HSU voru tæki keypt og komið fyrir í Eyjum. Þetta er fjárfesting upp á nokkra tugi milljóna,“ segir hann.
„Reynsla okkar af verkefninu í Vestmannaeyjum leiddi til þess að við ákváðum að setja upp svipaða móttöku á Akureyri, alfarið á okkar kostnað. Það gerðum við í samstarfi við Læknastofur Akureyrar, LAK. Á Akureyri er einn starfandi augnlæknir, sem er of lítið miðað við stærð upptökusvæðisins og við höfum verið í góðu samstarfi við hana. Þetta var því kærkomin viðbót,“ segir Ólafur.
„Norðurland fékk þarna nýjustu tækni við eftirlit augnsjúkdóma og sjúklingar gátu þannig fækkað ferðum suður yfir heiðar. Það er óhætt að segja að fyrir sjúklinga sem þurfa á reglubundnu eftirliti að halda sparar þetta aðra hverja ferð til okkar hér í Reykjavík.“
Ólafur Már segir að Sjónlag hafi leitað eftir samstarfi við heilbrigðisstofnanir víðar á landinu, Selfossi, Ísafirði og Egilsstöðum og að þau bindi góðar vonir við að það skili árangri á næstu árum. Og þá er komið að því að ræða kostnað.
„Þetta er dýr tækjabúnaður og til að mynda þá nemur fjárfesting okkar á Akureyri tugum milljóna. Við fórum af stað með verkefnið meðan enginn samningur var við SÍ. Gjaldskrá augnlækna hefur enn ekki verið uppfærð í nýgerðum samningi þegar þetta er skrifað, en við höfum verið í samtali við forstjóra SÍ um fjarþjónustu en engin niðurstaða fengist í það mál,“ segir hann.
„Nýsamþykktur fjarlækningataxti SÍ snýst um greiðslur fyrir myndsímtöl en það hentar okkur ekki nema að takmörkuðu leyti, vonandi finnst lausn á því þegar samningurinn verður uppfærður. Það bara verður – svona þjónusta mun bara aukast.“
Bætt þjónusta í heimabyggð
Uppsetning útstöðva Sjónlags í Vestmannaeyjum og á Akureyri hefur sannarlega bætt þjónustuna og Ólafur Már bendir á að með þessu sé verið að bregðast við kröfunni um að veita þjónustuna í heimabyggð.
„Af hverju erum við að gera þetta á eigin kostnað? Einfaldasta svarið er að okkur finnst spennandi að þróa fagið áfram. Einnig er fyrirsjáanlegur læknaskortur og svona nálgun gerir það að verkum að tími okkar nýtist betur,“ segir hann.
„Það er svo annað mál að krafan um heilbrigðisþjónustu hefur aukist svo gríðarlega og læknisfræðin getur gert svo margt í dag að ef við eigum að gera það allt og svara öllum kröfum, þá ræður heilbrigðiskerfið ekki við það. Þess vegna er alltaf verið að forgangsraða og gott dæmi um forgangsröðun er að laseraðgerðir og gleraugu eru ekki greidd af SÍ og sömuleiðis tannlækningar fyrir fullorðna,“ segir hann.
„Það er bara tekin ákvörðun um að þetta sé ekki hluti af heilsutryggingu okkar. Einhversstaðar verður að draga mörkin. Forgangsröðunin þarf þó að vera í stöðugri endurskoðun og taka tillit til þróunar og breytinga sem sífellt eiga sér stað.“