09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Bókin mín. Dagbækur eru mér hugleiknar

Þegar mér bauðst að skrifa um bækurnar mínar í Læknablaðið, þá þurfti ég að grafa nokkuð djúpt. Það stafar bæði af því að stundir til yndislestrar hafa verið fáar undanfarin ár, en einnig vegna þess að þegar færi hefur gefist, þá hefur athyglin látið undan. Mörgum bókum hefur því verið skilað hálflesnum í hillur bókasafna síðastliðin ár.

Dagbækur hafa þó verið mér hugleiknar. Mig langar að skrifa dagbók, en hef ekki tekið af skarið ennþá. Ég gæti trúað að það sé gott að staldra við í lok dags og gera hann upp í formi dagbókarfærslu.

Besta dagbók sem ég hef lesið er Dagbók góðrar grannkonu eftir nóbelskáldið Doris Lessing, sem gefin var út 1983. Tæpum þrjátíu árum eftir að bókin kom út, hóf ég í fyrsta sinn störf við umönnun á spítala. Við upphaf starfsins hvatti móðir mín, hjúkrunarfræðingur nú til 40 ára, mig til að lesa bókina. En eins og við mörg hver þekkjum, þá er gott að hlusta á mömmu sína, sem og reynda hjúkrunarfræðinga.

Bókin er dagbók og þroskasaga miðaldra millistéttarkonu, Jane, sem er í senn smekkleg og sjálfhverf. Jane hefur veg og vanda af fegurð og fagmennsku. Þrátt fyrir að vera vel gefin, virðist hún ekki hafa gefið sér rými til að mynda raunveruleg tengsl við fólkið í kringum sig, ef frá eru talin tengsl við hennar nánustu samstarfskonu, sem þó virðast fremur byggð á sameiginlegum hagsmunum. Hún stóð óhögguð þegar veikindi tóku frá henni móður og eiginmann, og virðist í raun syrgja hvorugt þeirra. Það virðist þó kalla fram hjá henni sorg að hafa ekki leyft veikindum þeirra eða dauða að hreyfa við sér.

Í apóteki rekst Jane á einstæðinginn Maudie, bágstadda konu á tíræðisaldri. Það sem byrjar sem góðverk, að aðstoða þessa gömlu konu við að leysa út lyfseðil, þróast yfir í óvænta en djúpstæða vináttu. Fólkið í kringum þær taldi vinskap þeirra einhliða og einskorðast við þörf Maudie fyrir Jane, sem sá um innkaup, þrif og fleira fyrir Maudie, og flestir töldu Jane ráðna sem „góða grannkonu“. En í raun höfðu konurnar þörf fyrir hvor aðra, hina sam-mannlegu þörf fyrir vináttu.

Konurnar eru ólíkar á flestan hátt, þær eru af mismunandi kynslóð og stétt, en það fylgir þeim báðum viss sorg eða missir. Jane skortir raunveruleg tengsl við eigin tilfinningar og annað fólk. Maudie syrgir sitt fyrra líf, en forsendur fyrir áframhaldandi sjálfstæði þykja brostnar að mati góðviljaðs starfsfólks kerfisins sem leitast eftir að hjálpa Maudie á þeirra eigin forsendum og vilja vista hana á hjúkrunarheimili.

Bókin fjallar á eftirminnilegan hátt um öldrun og veikindi, baráttuna fyrir mannlegri reisn og þörfina fyrir mannleg tengsl.

En þegar ég skrifa um (dag)bækur sem hafa haft áhrif á mig og vakið mig til umhugsunar, þá er ekki hjá því komist að nefna fremur nýútgefna Dagbók frá Gaza eftir Atef Abu Saif. Hann er menningarmálaráðherra palenstínskra stjórnvalda og skrifar um upplifun sína af þjóðarmorðinu á Gaza. Bókin spannar 85 daga, frá 7. október til 30. desember þegar Atef Abu Saif og sonur hans Yasser komast yfir landamærin frá Rafah til Egyptalands.

Á hverjum degi og á hverri blaðsíðu bíður þeirra dauðinn. Þetta er frásögn af gjöreyðileggingu og grimmd, en rétt eins og í Dagbók góðrar grannkonu er þetta einnig baráttusaga fyrir sjálfstæði og mannlegri reisn, en því hefur palenstínska þjóðin verið rænd. Við lesturinn skína í gegn verðmæti mannlegra tengsla; sögur af nágrönnum, samstarfsfólki eða jafnvel ókunnugum sem deila hvert með öðru vatni, gasi eða rafmagni svo hlaða megi síma til að hafa samband við fjölskyldumeðlimi eða umheiminn.

Báðar bækurnar minna okkur þannig á mikilvægi þess að láta okkur líf og mannhelgi annarra varða.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica