09. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Akureyrarklínikin verður að veruleika

Þessi stofnun er á ýmsan hátt einstæð í sögu heilbrigðismála. Þarna verður til fyrsta stofnun í heimi sem vinnur á landsvísu við að sinna ME-sjúklingum og einstaklingum með langvarandi einkenni Covid.

Fyrir íslensk heilbrigðismál telst það einnig til tíðinda að þetta er fyrsta heilbrigðisstofnunin sem ætlað er að þjóna íbúum alls landsins sem ekki er staðsett á höfuðborgarsvæðinu. Þangað geta allir leitað óháð búsetu, en þurfa þó tilvísun frá heimilislækni. Auk þess mun þetta vera fyrsta stofnunin sem verður á sameiginlegri ábyrgð sjúkrahúss og heilsugæslu en auk ráðherra undirrituðu Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri og Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands samstarfssamninginn.


Frá undirritun samstarfssamnings um rekstur Akureyrarklíníkurinnar, frá vinstri: Hildigunnur Svavarsdóttir forstjóri Sjúkrahússins á Akureyri, Willum Þór Þórssson heilbrigðisráherra og Jón Helgi Björnsson forstjóri Heilbrigðisstofnunar Norðurlands.

 

ME kemur oftast í kjölfar sýkingar

ME stendur fyrir myalgic encephalomyelitis sem er langvinnur þreytusjúkdómur sem veldur mikilli skerðingu á lífsgæðum. Fyrir um 75 árum geisaði stór faraldur á Norðurlandi. Í fyrstu var talið að um mænuveikifaraldur væri að ræða en nú þykir víst að hér hafi verið um aðra veirusýkingu að ræða sem leiddi til taugasjúkdómsins ME, þótt sýkillinn hafi aldrei fundist. Fyrir tilstilli mjög framsækinna lækna og vísindamanna undir forystu Björns Sigurðssonar á Keldum, sem rannsakaði þennan faraldur og birti greinar í alþjóðlegum læknatímaritum, fékk þessi sjúkdómur mikla athygli og fékk heitið Akureyrarveikin. Gekk ME-sjúkdómurinn lengi vel undir því nafni og því er heiti Akureyrarklíníkurinnar vísan í það heiti.

Margvíslegar veirusýkingar geta leitt til ME-sjúkdómsins. Við höfum nú séð að hluti þeirra sem fá Covid-19 sýkingu sitja uppi með langvarandi ME-lík einkenni og má eiginlega segja að um faraldur sé að ræða.

 

Innlent og erlent samstarf

Meðal þeirra sem ávörpuðu samkomuna í MA á dögunum var Friðbjörn Sigurðsson krabbameinslæknir en hann hefur unnið ásamt öðrum að undirbúningi klíníkurinnar. Hann lýsti aðdragandanum og sagði að landlæknir og ráðherra hafi stutt hugmyndina ötullega frá upphafi.

Hann greindi einnig frá því að Akureyrarklíníkinni væri ætlað samhæfingarhlutverk á landsvísu og myndi því reyna að ná sem bestri samvinnu við aðrar heilbrigðisstofnanir og hagsmunaaðila. Má þar nefna Heilsustofnun NLFÍ í Hveragerði, Landspítalann, Reykjalund og ME-félagið. Þá er Akureyrarklíníkin nú þegar í töluverðu erlendu samstarfi, enda vekur þetta frumkvæði mikinn áhuga allra sem fást við þennan sjúkdóm.

Klíníkinni er ætlað að vinna að skráningu á ME-sjúkdómnum og stuðla að rannsóknum. Skráning á sjúkdómnum á landvísu er ákaflega mikilvæg forsenda þess að unnt sé að sinna rannsóknum á sjúkdómnum. Friðbjörn minnti á í því samhengi hversu mikilvæg Krabbameinsskráin hafi verið fyrir krabbameinsrannsóknir á Íslandi. Þá nefndi hann að það væri sérlega áhugavert að á Landspítala væri nú verið að vinna að stofnun rannsóknarseturs um langvinnar eftirstöðvar sýkinga og annarra áreita.

 

Endurheimt lífsins

Herdís Sigurjónsdóttir og Vilborg Ása Guðjónsdóttir sögðu við athöfnina frá reynslu sinni af því að fá ME og baráttu sinni við að fá viðurkenningu á sjúkdómnum og sjúkdómsbyrðinni. Sú síðarnefnda orðaði markmiðið með þessari stofnun svo „að fólk verði gripið snemma, verndað gegn skilningsleysi kerfisins og síðast en ekki síst eflt á sinni framför og á leið til bata, að því verði gert fært að endurheimta lífið“. Það fylgja því þessari nýstofnuðu Akureyrarklíník talsverðar væntingar, en fræðsla um sjúkdóminn meðal heilbrigðisstarfsmanna er sannarlega mikilvægt skref í þessari vegferð.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica