09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Afnám stöðunefndanna leiðir til einföldunar
Nokkrar umræður hafa orðið að undanförnu um framkomið frumvarp heilbrigðisráðherra um afnám stöðunefnda sem hingað til hafa fjallað um ráðningar í störf millistjórnenda á heilbrigðisstofnunum. Af því tilefni ákvað Læknablaðið að spyrja Runólf Pálsson forstjóra Landspítalans um viðhorf hans til þessarar breytingar sem nú er í samráðsgátt Alþingis.
„Almennt séð er ég sáttur við þessa breytingu,“ segir Runólfur. „Eins og fram kemur í umfjöllun um þær áætlanir sem eru til samráðs þá er fáheyrt að kveðið sé á um fastar ráðherraskipaðar hæfnisnefndir í lögum vegna umsókna um störf millistjórnenda á stofnunum ríkisins. Ég tel að einföldun sem þessi sé af hinu góða en að sjálfsögðu þarf að vanda til verka við ráðningar. Í því tilliti skiptir máli að farið sé að lögum og reglum sem gilda um ráðningar í opinber störf en einnig að við mat á umsækjendum taki þátt í ferlinu hæfir einstaklingar með viðeigandi þekkingu til að leggja mat á hæfni umsækjenda. Ég legg ríka áherslu á slík sjónarmið.
Varðandi læknaráð og hjúkrunarráð þá tel ég tilkomu fagráðs spítalans af hinu góða og hef nú þegar ágæta reynslu af störfum þess en jafnframt væntingar um aukið framlag þess til starfsemi stofnunarinnar sem og aðhalds.“
Ef forstjóri hefur fagráð sér til ráðgjafar í stað stöðunefndar hvernig yrði það skipað?
„Sú tillaga sem fram kemur í áformum um lagasetningu frá heilbrigðisráðherra felst í því að samræma ferli ráðningar í stjórnunarstörf hjá hinu opinbera. Því munu ekki gilda sérreglur um tiltekin störf millistjórnenda innan heilbrigðisstofnana og breytingin því ákveðin einföldun á ráðningarferlinu. Þetta setur forstjóra heilbrigðisstofnana í sömu stöðu og aðra forstjóra hjá hinu opinbera en það er talið mikilvægt svo starfsemi heilbrigðisstofnana sé ekki þyngri í vöfum en annarra stofnana þegar kemur að ráðningu opinberra starfsmanna. Ekki er gert ráð fyrir að sérstakt fagráð komi að stöðuveitingum en Landspítali hefur mótað ákveðið fyrirkomulag sem ætlað er að tryggja að lagaskilyrði séu uppfyllt og faglegt mat fari fram í hverju tilviki fyrir sig þannig að hæfasti umsækjandinn í starfið sé ráðinn hverju sinni.“
Hvaða skoðun hefur forstjóri LSH á því að Læknaráð og hjúkrunarráð hafa verið lögð niður?
„Læknaráð og hjúkrunarráð gegndu á árum áður mikilvægu ráðgjafarhlutverki fyrir forstjóra sjúkrahúsa. Eftir tilkomu framkvæmdastjóra lækninga og framkvæmdastjóra hjúkrunar minnkaði þörfin fyrir þessi hlutverk og á endanum var stjórnskipuleg staða þessara ráða lögð niður. Sama þróun hefur átt sér stað víða annars staðar. Aðkoma lækna, hjúkrunarfræðinga og annarra heilbrigðisstétta að stefnumótun og þróun spítalans er engu að síður mikilvæg en ég tel unnt að nýta hana undir merkjum núverandi fyrirkomulags. Enn fremur er mikilvægt að efla frekar þau fagráð sem starfa innan heilbrigðisstofnana þar sem forstjórar eiga að leita álits þeirra um mikilvægar ákvarðanir sem varða heilbrigðisþjónustu og skipulag stofnunar.“
Verður forstjóri LSH einráður um stöðuveitingar?
„Forstjóri Landspítala verður í sömu stöðu og allir aðrir forstjórar ríkisstofnana. Það er ljóst að forstjóri stofnunar á aldrei að vera einráður um stöðuveitingar, þar sem slík vinnubrögð stuðla ekki að heilbrigðri þróun eða árangri stofnunar, að mínu mati. Endanleg ábyrgð hvílir á forstjóra en um ráðningar gildir vel skilgreint ferli sem stjórnendur og sérfróðir aðilar koma að og miðast við að finna hæfasta einstaklinginn til að gegna starfinu. Þau viðmið breytast ekki og niðurstaða ráðningar verður ætíð að vera málefnaleg.“
Er þetta jákvætt þar sem verið er að flytja ákvörðunarvaldið á réttari stað?
„Ef það kemur til lagabreytingar í samræmi við áform ráðherra verður engin breyting á ákvörðunarvaldinu sjálfu. Ákvörðunarvaldið er nú þegar hjá forstjóra og verður áfram. Afnám stöðunefndanna leiðir til einföldunar og aukins samræmis innan stjórnsýslunnar. Þá leiðir breytingin til skilvirkni og hagkvæmni sem verður að vera eitt af leiðarljósum í rekstri heilbrigðisstofnunar. Engu að síður þurfa gæði og hæfni að vera okkar helsta leiðarljós. Þá verður ekki séð að sérstakar forsendur mæli með annarskonar framkvæmd við val millistjórnenda á heilbrigðisstofnunum en almennt gildir hjá hinu opinbera. Forstjóri ríkisstofnunar ber ábyrgð á ráðningu allra starfsmanna, stjórnenda sem og almennra starfsmanna. Samkvæmt lögum getur forstjóri framselt ráðningarvald sitt til annarra stjórnenda með ákveðnum hætti. Þetta hefur forstjóri Landspítala gert með því að framselja ráðningarvaldið til framkvæmdastjóra innan spítalans.“
Er hætt við að ráðningar sæti meiri gagnrýni fyrir vikið?
„Ég tel svo ekki vera. Það verður áfram að nálgast ráðningaferli af heilindum og samkvæmt viðmiðum í lögum. Niðurstaðan verður ætíð að vera málefnaleg og réttlætanleg.“