09. tbl. 110. árg. 2024
Umræða og fréttir
Doktorsvörn frá Gautaborgarháskóla:Baldur Þórólfsson
Baldur Þórólfsson varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við Gautaborgarháskóla þann 12. júní síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið Return to sport after pediatric and adolescent ACL injury. Hún fjallar um krossbandaáverka hjá börnum og unglingum.
Andmælandi var Jon Olav Drogset, prófessor við NTNU Þrándheimi. Leiðbeinendur voru Eric Hamrin Senorski, dósent við Gautaborgarháskóla, Jón Karlsson, prófessor við Gautaborgarháskóla, og Kristian Samuelsson, prófessor við Gautaborgarháskóla.
Baldur lauk kandídatsprófi í læknis-fræði frá Háskóla Íslands árið 2012. Hann lauk sérfræðinámi í bæklunarskurðlækningum frá Sahlgrenska Háskólasjúkrahúsinu í Gautaborg 2019. Doktorsnám hans við Gautaborgarháskóla hófst 2018.
Um verkefnið
Baldur segir frá því í ritgerð sinni að tíðni áverka á fremra krossbandi hjá börnum og unglingum hafi farið vaxandi undanfarin ár. Krossbandsaðgerð á unga aldri hafi verið skilgreind sem áhættuþáttur fyrir enduraðgerð síðar og nokkuð misræmi sé í niðurstöðum fyrri rannsókna á klínískum árangri og endurkomu til íþrótta meðal yngstu sjúklinganna.
Verkefnið samanstendur af fimm rannsóknum með það að meginmarkmiði að kanna árangur eftir enduruppbyggingu á fremra krossbandi, endurhæfingu og endurkomu til íþrótta hjá börnum og unglingum.
Úr ágripinu
Helstu niðurstöður eru meðal annars þær að unglingar eru í nánast tvöfaldri áhættu á að þurfa að undirgangast enduraðgerð vegna krossbandsaðgerða síðar samanborið við unga fullorðna sjúklinga. Lægra hlutfall unglinga en fullorðinna er ánægt með eigið hné fimm árum eftir uppbyggingu á fremra krossbandi. Áberandi hærra hlutfall barna hefur snúið aftur til íþrótta samanborið við unglinga og fullorðna einungis 8 mánuðum eftir aðgerð. Þá sést einnig að 9% barna og unglinga ná aldrei að snúa aftur til íþrótta eftir slit á fremra krossbandi.
Hvað segir nýdoktorinn?
Af hverju vildir þú verða læknir?
„Ég hef alla tíð verið mikið í íþróttum og fékk snemma áhuga á mannslíkamanum. Mér varð það svo smám saman ljóst að læknisstarfið væri ábyggilega spennandi, fjölbreytt og gæti gefið góðar tekjur. Ég er ákaflega ánægður að hafa valið og náð að skapa mér þennan starfsferil.“
Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?
„Þetta er búið að taka um það bil 6 ár. Stundum myndi ég segja 1 og stundum 10. Sjálft doktorsnámið og vísindavinnan þótti mér í sjálfu sér ekki erfiðara en hvað annað. Það krefst ákveðins dugnaðar og aga, rétt eins og það að komast í gegnum læknadeild á sínum tíma,“ segir Baldur.
„Ég var með góða leiðbeinendur og áhugavert verkefni þannig að vísindavinnan gekk vel. Það sem mér þótti erfiðast var eilíf óþarfa skriffinska, umsóknir og vottorð af ýmsu tagi sem ekkert hafði með sjálft doktorsnámið að gera, en þurfti að skila inn til Gautaborgarháskóla í tíma og ótíma.“
Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?
„Ætli það væri ekki til dæmis að kynna mér hvernig greiðsluþátttaka ríkisins er varðandi hin ýmsu mál sem snúa að börnum, svo sem tannlækningum og fleira.“
Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?
„Hreyfa mig, veiða og elda góðan mat, helst grilla í góðu veðri.“