0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknablaðið í 110 ár. Barnalæknaþjónustan til bjargar

Frumkvöðlar í læknastétt

Bætt þjónusta við veik börn og foreldra þeirra var hvatinn að stofnun Barnalæknaþjónustunnar ehf. haustið 1995. Fram að því höfðu foreldrar aðeins átt kost á að leita utan dagvinnutíma til Læknavaktarinnar eða á bráðavaktir sjúkrahúsanna. Hugmyndin var því sú að gefa foreldrum kost á að leita álits sérfræðings í barnalækningum utan sjúkrahúsanna þegar um bráð veikindi væri að ræða.

Skyndivaktir höfðu verið starfræktar við barnadeildir sjúkrahúsanna í Reykjavík um árabil, en þær voru settar á laggirnar eftir að skæður heilahimnubólgufaraldur hafði geisað á árunum eftir 1975. Á þessar vaktir var hægt að vísa veikum börnum og foreldrar gátu í sumum tilvikum leitað þangað beint. Aðsókn á skyndivaktirnar fór með tímanum vaxandi og því oft löng bið eftir þjónustu ef læknar á vakt þurftu að sinna öðrum eða meira aðkallandi verkefnum.

Fyrr á árinu 1995 höfðu Kristleifur Kristjánsson og Ólafur Gísli Jónsson barnalæknar fundað með þáverandi framkvæmdastjóra Domus Medica um stofurekstur barnalækna þar á dagvinnutíma. Þeir vildu jafnframt bjóða upp á tíma hjá barnalækni á kvöldin og um helgar. Niðurstaðan var sú að innréttað yrði húsnæði á 1. hæð Domus Medica fyrir þessa starfsemi. Kristleifur og Ólafur áttu síðan þá um sumarið fundi með Tryggingastofnun ríkisins þar sem þetta var kynnt og af hálfu TR ekki gerðar athugasemdir við þau áform að veita þjónustu utan dagvinnutíma. Einnig studdi stjórn Læknafélags Íslands þessar fyrirætlanir.

Stofnendur ellefu barnalæknar

Barnalæknaþjónustan ehf. var síðan formlega stofnuð í byrjun október 1995. Stofnendur voru 11 barnalæknar, almennir og sérfræðingar í ýmsum undirgreinum barnalækninga. Kristleifur var kosinn framkvæmdastjóri og Ólafur Gísli stjórnarformaður.

Starfsemin byrjaði mánudaginn 16. október 1995 þegar fyrst var opið fram á kvöld. Þá komu 4 sjúklingar en fór síðan hratt fjölgandi. Frá upphafi hefur verið opið kl. 17-22 virka daga og 11-15 um helgar og alla frídaga ársins. Yfirleitt er einn læknir á vakt og annar á bakvakt. Foreldrar hringja og fá tíma á vaktinni og er því aldrei löng bið eftir þjónustu og ekki mikill fjöldi veikra barna á biðstofunni á hverjum tíma. Greiðsla fyrir komu á vaktina hefur frá upphafi verið sú sama og fyrir almennt viðtal hjá barnalækni á daginn.

Fyrstu árin kom mótframlag TR úr sameiginlegum einingapotti fyrir sérfræðiþjónustu lækna utan sjúkrahúsa en þegar starfsemi Barnalæknaþjónustunnar óx var augljóst að gera þyrfti sérsamning um hana. Í samningi við TR 28. desember 2001 var samið um einingafjölda sem samsvaraði um það bil 11.000 komum árlega og var það óbreytt í samningi við Sjúkratryggingar Íslands 30. júní 2008. Með fólksfjölgun undanfarinna ára hefur einingafjöldi aukist til samræmis og samsvarar nú um það bil 12.000 komum árlega. Þessi fjöldi reyndist fyrstu árin vera nálægt þörfinni en í seinni tíð er veruleg og vaxandi þörf á að auka umsaminn einingafjölda.

Urðu að finna annan stað

Vorið 2021 kom í ljós að nær öll starfsemi lækna í Domus Medica myndi hætta í lok þess árs og var því nauðsynlegt að finna stofurekstri barnalækna og starfsemi Barnalæknaþjónustunnar annan stað.

Samið var við eigendur húseignarinnar að Urðarhvarfi 8 í Kópavogi og 800 fermetra húsnæði á 5. hæð A innréttað fyrir stofurekstur barnalækna á daginn og starfsemi Barnalæknaþjónustunnar utan dagvinnutíma á sama hátt og verið hafði í Domus Medica. Stofnað var nýtt félag, Domus barnalæknar ehf., sem sér um rekstur húsnæðisins.

Starfsemin hófst í Urðarhvarfi í ársbyrjun 2022 og starfa þar nú barnalæknar á eigin stofu á daginn auk fjögurra HNE-lækna en 25-30 barnalæknar deila með sér Barnalæknaþjónustuvöktunum. Ólafur Gísli hefur verið formaður stjórnar Barnalæknaþjónustunnar frá upphafi og séð um skipulagningu vaktanna. Aðrir í stjórn nú eru Gylfi Óskarsson og Viðar Örn Eðvarðsson. Kristleifur var framkvæmdastjóri fyrstu 15 árin en Hanna Lára Sveinsdóttir tók síðan við af honum.

Starfsemi án styrkja

Á þeim tæplega 30 árum sem Barnalæknaþjónustan hefur starfað hefur hún ekki notið neinna styrkja frá opinberum aðilum eða öðrum, fyrir utan mótframlag Sjúkratrygginga í komugjaldi. Frá upphafi hafa verið send bréf til viðkomandi heilsugæslulæknis fyrir hverja komu og í seinni tíð rafrænt. Fyrstu 12-13 árin notaði Barnalæknaþjónustan hugbúnaðarkerfi sem Kristleifur smíðaði og var bæði sjúkraskrá með lyfseðlaeiningu, bókunarkerfi og reikningshald sem hélt utan um greiðslur til lækna og gerð reikninga til TR/SÍ. Á árinu 2008 var samið við Skræðu hf. og tekin upp íslensk útgáfa af ProfDoc sjúkraskrárkerfinu sem hefur gefið mjög góða raun.

Starfsemi Barnalæknaþjónustunnar hefur augljóslega dregið úr álagi á bráðamóttöku Barnaspítalans og vaktir heilsugæslu. Aðsóknartölur sýna að mest er leitað til Barnalæknaþjónustunnar vegna yngstu barnanna. Undanfarin ár hafa 50-65% þeirra barna sem koma verið yngri en 2 ára.

Stór hluti barnalækna sem starfa sjálfstætt á höfuðborgarsvæðinu er nú með stofu í Urðarhvarfi undir merkjum Domus barnalækna. Margir þeirra taka einnig þátt í Barnalæknaþjónustuvöktunum. Þessi þróun hefur gert barnalæknum sem hafa menntað sig erlendis auðveldara að flytja aftur til Íslands og þannig í mörgum tilvikum getað starfað bæði við Barnaspítalann og á stofu þar sem full staða við spítalann er oft ekki í boði. Frá fyrstu tíð hefur verið reynt að tryggja að þessir nýju barnalæknar fái pláss á stofu og á vöktunum og þannig reynt að stuðla að eðlilegri og nauðsynlegri endurnýjun í læknahópnum.

U09-fig-3

Þjónusta sjálfstætt starfandi barnalæknar hefur þróast allt frá stofnun þeirrar fyrstu árið 1995. Nú starfar stór hluti sjálfstætt starfandi barnalækna undir merkjum Domus barnalækna í Urðarhvarfi. Mynd/Domus barnalæknarÞetta vefsvæði byggir á Eplica