0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Lærði að meta betur lífið með bakvaktinni

Viðtal við Svein Magnússon

Sveinn Magnússon starfaði í fjörutíu ár á bakvakt eftir að daglegu starfi var lokið, sem hann sinnti lengst í heilbrigðisráðuneytinu. Hann stökk í útköll við óvænt andlát eða þegar glæpir voru framdir. „Við fáum iðulega innsýn í dapurlegar kringumstæður,“ segir Sveinn sem kynntist annarri hlið á landsmönnum á bakvakt héraðsvaktarinnar.

„Þetta starf er eins og annað. Það venst en það tekur samt sinn tíma. Sumt gat verið mjög dramatískt og ekki beint fyrir augað. Allskonar aðstæður sem voru bæði erfiðar og sorglegar,“ lýsir Sveinn fjörutíu árunum bakvaktinni, sem í byrjun tilheyrði borgarlækni, en seinni árin Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Læknarnir á þessari bakvakt starfa í nánu samstarfi við lögregluna og eru kallaðir til þegar óvænt andlát verða, oft til að skoða gerendur í ofbeldismálum.

Mikil ró er yfir Sveini Magnússyni þegar Læknablaðið hittir hann í reisulegu timburhúsi hans við Tjörnina í miðborginni. Niður borgarinnar berst ekki inn. Þar prýða bækur stofuveggina. Sveinn hætti á héraðsvaktinni um áramótin eftir árin fjörutíu. Það var ekki aðalstarfið hans, heldur starfaði hann lengst sem skrifstofustjóri í heilbrigðisráðuneytinu. Sveinn er nú yfirkennari við Ferðamálaskóla Íslands og ritar sögu tóbaksvarna fyrir Krabbameinsfélagið.

Sveinn lýsir því hvernig starfið hafi þróast og hann sogast inn í það og það fylgt honum þegar hann var kominn í skrifstofuvinnu í ráðuneytinu. „Ég hafði lauslega vitneskju um starfið vegna þess að tengdafaðir minn var aðstoðarborgarlæknir í mörg ár. Svo gerist það að ég kem heim úr námi 1983 og er þá kallaður til starfa á vaktinni,“ lýsir hann léttlega.

„Við ætluðum tveir læknar að opna nýja heilsugæslu í Garðabæ og ég vann við afleysingar á nýrri heilsugæslustöð miðbæjar. Svo á fyrstu vikunum hringir Guðjón heitinn Magnússon aðstoðarlandlæknir í mig og segir að ég verði að taka þessa vakt næstu daga. Þannig byrjaði þetta.“ Þeir hafi verið þrír í mörg, mörg ár.

Sveinn útskrifaðist sem læknir árið 1976 og lauk heimilislækna- og lyflæknasérnámi í Svíþjóð árið ‘83. Kona hans, Kristín Bragadóttir, er doktor í sagnfræði og var forstöðumaður þjóðdeildar Þjóðarbókhlöðunnar. Tvö fjögurra barna þeirra eru læknar. Sigríður er háls-, nef- og eyrnalæknir. Magnús er æðaskurðlæknir. Barnabörn orðin átta.

Staðfesti andlát í heimahúsi

Sveinn lýsir því hvernig læknar á héraðs-vaktinni sinni læknisskoðunum fyrir lögregluna; alvarlegum líkamsárásum og morðum. Ferlið hafi þróast með tímanum, aðallega ítarleg skoðun á fórnar-lömbum og gerendum.

„Taka þurfti sýni af hári og blóði og ganga frá því á ákveðinn máta. Skrá hverja rispu og klór, gera skýrslu og mæta fyrir dómara. Þetta tilheyrði þessari vakt. Það var eitt og annað sem lögreglan þurfti aðstoð með og hún skipu-lagði læknisskoðunina.“ Í seinni tíð hafi þess verið gætt að gerandi og fórnarlamb myndu ekki hittast.

„Við gengum frá sýnunum á ákveð-inn máta og afhentum lögreglunni áverka-skýslu. Fyrst teiknuðum við þetta upp en svo var farið að mynda áverka þegar leið á. Við læknarnir gátum þurft að standa fyrir svona skýrslu fyrir fleiri en einu dómstigi,“ lýsir Sveinn.

Stór mál, lítil. „Já, sumt situr í mér. Eins og vöggudauði barna. Við gerðum ekki annað í svoleiðis tilvikum en að staðfesta andlátið. Það var byrjunin á því sem á eftir kom,“ segir hann rólega.

Sveinn lenti í stórslysum, eins og flugslysum. Hann var einnig á vaktinni til að skoða grunaða þegar grænlenskur togari kom í land með morðingja ungrar konu. „Þetta er heilmikil vinna og mjög mikilvægt að skila af sér vönduðum skýrslum og gera góðar skoðanir. Þær eru gerðar á lögreglustöðinni,“ lýsir Sveinn.

Erfiðar kringumstæður á heimilum hafa mætt honum. Jafnvel löngu látið fólk. „Þetta eru einstæðingar, ömurlegheit í sambandi við veikindi, sem blasa við öllum,“ segir Sveinn.

Fjölbreyttur ferill

Þótt heilbrigðisráðuneytið hafi haldið lengst í Svein og fram að sjötugu, á hann fjölbreyttan feril. „Ég var yfirlæknir nýrrar heilsugæslu í Garðabæ í fimmtán ár. Líka héraðslæknir Reykjaneshéraðs. En þessar borgarlæknisvaktir mínar tók ég aldrei í dagvinnu. Ég gat verið í annarri vinnu. Þetta voru kvöld, nætur og helgar.“ Stundum lítið að gera. Stundum mikið.

En setti hann sig í ákveðnar stellingar fyrir vaktina? „Já, en það má öllu venjast. Maður brynjar sig upp. En ég byrjað á tíma þegar ekki voru áfallateymi. Ég var búinn að taka kandídatsár, vera í héraði, í útlöndum og búinn að sjá margt. Þú hefur þitt fag til að verja þig. Mjög vont að taka ekki til sín þessar kringumstæður, en það venst eins og annað. Svo fer maður heim að sofa.“

Barnsmissir hefur vakið upp mestu sorgina innra með honum. „Ef ég kom þar sem einstæð móðir hafði misst eina barnið sitt vöggudauða. Ég skynjaði hvað fyrirvaraleysið gat verið grimmt,“ segir hann. Nauðungarsviptingar hafi einnig tekið á. „Sú byrði féll á okkur og hún sat í manni.“ En hann hafi lært af starfinu.

„Ég held ég hafi kunnað að meta lífið og börnin. En starf sem þetta setur víddir sem maður má ekki taka of mikið til sín.“

Sveinn átti síðustu vaktina sína 11. desember síðastliðinn, daginn fyrir 75 ára afmælið sitt. Vaktin hefur þróast og breyst og nú sjá vaktlæknarnir einnig um læknisþjónustu á Droplaugarstöðum og Seljahlið. Hann horfir til baka.

„Mér finnst þetta starf hafa gefið mér innsýn inn í samfélagið og mannfólkið. Það kom sér vel að hafa þessa vitneskju inni í ráðuneytinu. Mörg mál hjálpuðu við ákvarðanatöku og byggðu upp þekkingu. Það voru allir mjög glaðir að hafa þá þekkingu einnig innanhúss. Þetta voru ár sem ég hefði ekki viljað sleppa.“

En hver var þróunin í samfélaginu þessi fjörutíu ár? „Meira hefur verið um eiturlyfjatengda hluti seinni árin. Klárlega. Í byrjun voru fyllibyttur fyrirferðarmeiri. Það var ekki mikið um efnamisnotkun en með henni fórum við vaktlæknar að sjá meira af ömurlegum andlátum ungs fólks. Svo var algengt að fólk með geðrænan vanda var líka með fíknivanda. Ég held að þetta sé hluti af breyttu mannlífi.“

En saknar hans spennunnar? „Nei, ég vissi að nú væri komið nóg. Ég hef verið í góðum félagsskap. Eins þegar ég hætti eftir 20 ár í ráðuneytinu. Ég var búinn undirbúa mig andlega. Ég hef verið að skrifa og kenna. Það er ekki tómarúm og ég tek þessum breytingum með jákvæðni og hugarfarinu að njóta dagsins.“

Sveinn Magnússon á heimili sínu. Stofan þakin bókum. Sumar frá tengdaföður hans, aðrar sem hann og Kristín konan hans hafa eignast í gegnum árin. Mynd/gag

U06-fig-2

Sveinn á fyrstu árum sínum á bakvakt, kallaður til þegar lögreglan þurfti aðstoð.

 

Reyndir læknar á héraðsvaktinni

Elínborg Bárðardóttir er yfirlæknir Héraðsvaktarinnar sem rekin er af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Vaktin sinnir ekki aðeins lögreglunni, heldur einnig Droplaugarstöðum og Seljahlíð, sem og fangelsinu á Hólmsheiði.

„Þetta er óvenjulegt læknisstarf. Maður kynnist öðrum hliðum samfélagsins og það er mjög áhugavert,“ segir Elín-borg sem kom fyrst á vaktina um aldamótin en hefur nú stýrt henni frá ársbyrjun 2023 þegar hún tók við af Stefáni B. Matthíassyni. Hún hefur sambærilega upplifun og Sveinn af þróuninni.

„Það er orðinn miklu harðari fíkniefnaheimur hér á landi og meira um dauðsföll tengdum fíkn en þegar við vorum að byrja. Við sjáum skýr merki um ópíóíðafaraldurinn,“ segir hún og tekur undir orð Sveins. „Nauðungarvistanir eru þó að mörgu leyti það erfiðasta við þetta starf og þegar lögreglan kallar lækna til þar sem fólk er í geðrofi.“

Allt eru þetta heimilislæknar á vaktinni. Hún sakni jú Sveins. „Jú, það er svo mikilvægt að hafa svona reynslubolta með sér. Ég þurfti oft að leita til Sveins í upphafi og þegar ég var að taka við og upp komu spurningar, Stefáns Matthíassonar einnig. Allt eru þetta reyndir heimilislæknar á vaktinni. Þeir sem eru núna er fólk sem hefur unnið í heilsugæslunni. Það reynir á samskipti. Þeir koma að erfiðum málum. Bæði fólki í vanda og aðstandendum í áfalli. Maður ber mikla virðingu fyrir lögreglunni eftir að hafa unnið þetta starf.“

U06-Elinborg-Bardardottir

Elínborg Bárðardóttir stýrir Héraðsvaktinni sem rekin er af Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins. Mynd/gagÞetta vefsvæði byggir á Eplica