0708. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Læknirinn á bak við íðorðasmíðina og Læknablaðið til áratuga

Minningarorð um Örn Bjarnason, heimilislækni og fyrrum ritstjóra Læknablaðsins

Örn var fæddur 20. júní 1934 og lést 16. maí 2024. Hann varð stúdent frá Menntaskólanum á Akureyri 1953, lauk læknaprófi frá Háskóla Íslands 1963. Hann fékk almennt lækningaleyfi 1965 og varð viðurkenndur sérfræðingur í heimilislækningum og embættislækningum 1974. Hann lauk prófi í lýðheilsufræðum frá Háskólanum í Bristol á Englandi 1973.

Eftir kandidatsstörf varð hann aðstoðarlæknir og héraðslæknir í Vestmannaeyjum 1965 til 1974. Örn varð skólayfirlæknir og sérfræðingur í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu frá 1974. Hann var forstöðumaður Hollustuverndar ríkisins 1982 til 1987. Hann gegndi störfum trúnaðarlæknis Ríkisendurskoðunar og hann var yfirlæknir dvalarheimilis Sjálfsbjargar 1980 til 2000. Síðast var hann trúnaðarlæknir Ríkisspítalanna. Örn var lektor í heimilislækningum við læknadeild Háskóla Íslands, og síðar stundakennari í siðfræði læknisfræðinnar.

Örn var félagslyndur og gegndi fjölmörgum trúnaðar- og félagsstörfum tengdum heilbrigðismálum og málefnum lækna. Íðorðasmíð átti hug hans og hann var í íðorðanefnd læknafélaganna frá 1977, formaður frá 1984, sem um þær mundir fékk nafnið Orðanefnd læknafélaganna. Í nefndina kallaði Örn til starfa ýmsa lækna og var í góðri samvinnu við Íslenska málstöð og ritstjórann, Magnús Snædal málfræðing, og úr varð Íðorðasafn lækna á árunum 1979 til 1989. Seinna komu líffæraheiti, vefjafræðiheiti og fósturfræðiheiti, og loks var Alþjóðlega tölfræðiflokkun sjúkdóma og skyldra heilbrigðisvandamála, 10. endurskoðunin, þýdd og gefin út á vegum Orðanefndar læknafélaganna 1996.

Arnar mun þó lengst og þakklátast minnst sem ritstjóra Læknablaðsisns en þar tók hann við ritstjórn 1976 og gegndi síðan starfi ábyrgðarmanns frá árinu 1979 til 1993. Í fyrstu voru tveir ritstjórar, annar var yfir fræðilegu efni en Örn sá um félagslega hlutann í upphafi. Bjarni Þjóðleifsson tók við fræðilega hlutanum og tókst strax góð samvinna þeirra á milli. Þeir gerðu vaxandi kröfur um gæði birtra greina, studdust við íðorðasöfn og drógu lærdóm af reynslu ritstjórna annarra norrænna læknablaða, sem gefin voru út af læknafélögunum í þessum löndum. Einkum voru Danir teknir til fyrirmyndar, sem leiddi árið 1979 til samstarfs við útgáfufélag danska læknafélagsins um setningu og prentun Læknablaðsins, og öflun auglýsinga í blaðið.

Ritrýnisferlar, utan ritstjórnar, voru skipulagðir og mótuðust með árunum. Vaxandi tölvuvæðing auðveldaði samskiptin við Dani, og vinnsluferill fræðilegra greina fluttist að mestu hingað heim þegar fram liðu stundir. Til þess að fréttir af félagsstarfi læknafélaganna, sem efstar voru á baugi hverju sinni, kæmu strax fyrir augu lækna, var félagslegi hlutinn skilinn frá og gefinn út í Fréttabréfi lækna, sem framleitt var hér á landi á árunum 1983 til 1993. Breytingar urðu á ritstjórn blaðsins 1983 og fjölgað í ritstjórn, og fékk Örn menn úr ýmsum greinum læknisfræðinnar til samstarfs. Áhersla var á íslenskar þýðingar allra fræðiorða sem birtust í Læknablaðinu og taldi Örn að þannig væru menn trúir stefnunni sem sett var af Guðmundi Hannessyni, stofnanda og fyrsta ritstjóra Læknablaðsins. Á tíma Arnar við Læknablaðið voru ritstjórnarfulltrúar Jóhannes Tómasson og Birna Þórðardóttir. Haft er eftir Erni að ritstjórn hans á Læknablaðinu hafi notið algjörs trausts eigendanna, Læknafélags Reykjavíkur og Læknafélags Íslands, sem skiptu sér aldrei af ritstjórn blaðsins.

Örn var kjörinn heiðursfélagi Læknafélags Íslands 1993, einkum fyrir störf að siðamálum og útgáfumálum. Hann hlaut heiðursverðlaun Sænska læknafélagsins (Svenska Läkaresällskapet) 1997 fyrir dyggan stuðning við framgang læknisfræðilegrar málverndar.

Ég kynntist Erni er ég tók sæti í ritstjórn Læknablaðsins 1987 og stóð okkar góða og nána samvinna til 1993. Við fyrstu kynni tók Örn manni vinsamlega og föðurlega og návistir við hann voru þægilegar og átakalausar. Hann mætti manni jafnan með bros á vör og virtist greinilega með jafnaðargeð. Hann var fljótur að hugsa og átta sig á aðstæðum og mönnum, óragur og kvíðalaus. Erni var iðjusemi í blóð borin og hann var ósérhlífinn við læknis- og hjúkrunarstörf og hvers konar vinnu, nákvæmur og vandvirkur, og fór ekki í manngreinarálit. Margt vann hann ólaunað. Hann var sagnamaður og átti gott safn af hnyttnum sögum og mannlýsingum. Hann kunni vel að vera með tignum mönnum, en var blíður við alla. Hann var málamaður, ekki bara á íslensku, hann hafði gott vald á erlendum tungum, sem var styrkur hans í samskiptum við fólk af ýmsum uppruna.

Við Álfheiður vottum Áslaugu og nánustu aðstandendum samúð okkar.

Vilhjálmur Rafnsson, prófessor emeritus og fyrrum ritstjóri Læknablaðsins

U01-Orn-Bjarnason

Myndatexti: Örn Bjarnason var ritstjóri Læknablaðsisns. Hann tók við ritstjórn 1976 og gegndi síðan starfi ábyrgðarmanns frá árinu 1979 til 1993. Hann lést 16. maí síðastliðinn.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica