06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Liprir pennar: Hlýjar móttökur sem urðu að mesta gæfuspori lífsins

- Anna Mjöll Matthíasdóttir

„Ert þú að austan?“ er spurning sem ég fæ enn reglulega frá skjólstæðingum mínum á heilsugæslunni. Yfirleitt gefst aðeins tími í stuttu útgáfuna af svari, að verandi aðkomukona að sunnan geti ég seint státað af austfirskum ættartengslum þó að maðurinn minn sé vissulega hreinræktaður Héraðsmaður í báðar ættir.

Þessi spurning fær mig þó oft til að hugsa um það hvernig lífið getur tekið mann í óvæntar áttir en það hefði sennilega seint hvarflað að mér fyrir nokkrum árum að ég myndi festa rætur á Egilsstöðum og leggja fyrir mig sérnám í heimilislækningum þar. Sú ákvörðun að flytja hingað fyrir tæpum þremur árum virtist um tíma vera hálf tilviljanakennd U-beygja en hefur síðan þá reynst vera hið mesta gæfuspor í mínu lífi. En hvað var það sem togaði í mig?

Foreldrar mínir voru duglegir að ferðast með mig um landið á mínum æskuárum og lá leiðin oft á tíðum austur í góða veðrið. Það var þó ekki fyrr en núna fyrir átta árum að ég staldraði lengur við þegar ég og góð vinkona mín tókum að okkur að leysa af á heilsugæslunni hér á Egilsstöðum yfir sumartímann. Þá höfðum við nýlega lokið 5. ári í læknadeild og algjörlega blautar á bak við eyrun. Ég man að ég hugsaði með mér að ég yrði ábyggilega send aftur suður með fyrstu rútu þegar það kæmi í ljós hversu gagnslaus ég væri. Sú varð sem betur fer ekki raunin. Í staðinn áttum við mjög lærdómsríkt sumar þar sem við ferðuðumst mikið á milli þess sem við læknuðum heimamenn og túrista. Eftirminnilegast var þó hversu vel okkur var tekið af samstarfsfólki og hversu góðan stuðning við fengum frá öðrum læknum stöðvarinnar samhliða því trausti að fá að standa á eigin fótum. Þessi jákvæða upplifun af vinnustaðnum vóg sennilega þyngst þegar kom að þeirri ákvörðun að flytja austur síðar meir.

Þegar ég hugsa til baka er óhjákvæmilegt að minnast á Hrönn Garðarsdóttur fyrrum yfirlækni heilsugæslunnar á Egilsstöðum. Hrönn var einn ráðabesti læknir sem ég hef unnið með en bæði var hún reynslumikil en einnig afar klár og skynsöm kona. Aldrei kom maður að tómum kofanum hjá henni, sama hvaða erindi bar á góma. Ekki skipti heldur máli hvenær sólarhringsins maður -hringdi, alltaf var hún boðin og búin að aðstoða. Það var með henni sem ég fór í mitt fyrsta endurlífgunarútkall og man ég hvað mér þótti hún fagleg í þeim aðstæðum.

Mér er sérstaklega minnisstætt hvað hún leyfði mér að taka virkan þátt og hvað hún gaf sér góðan tíma til að spjalla við mig eftir atvikið þótt væri um miðja nótt. Þetta dæmi er lýsandi fyrir þá mannkosti sem Hrönn hafði að geyma en ekki má þó gleyma hversu mikill húmoristi og sögukona hún var. Það var því ekki aðeins gott að vinna með henni heldur líka sérlega gaman. Hrönn lést því miður fyrir aldur fram árið 2019. Ég mun því aldrei geta sagt henni hversu mikil áhrif hún átti eftir að hafa á mitt líf, en ég hef þá trú að hún viti það nú þegar.

Lífið fyrir austan er gott en hér hef ég eignast yndislegan mann og tvo stjúpsyni sem hafa auðgað líf mitt til muna. Í sumar eigum við svo von á litlum dreng sem er mikið tilhlökkunarefni. Í vinnunni líður mér vel en þar hef ég eignast góða vini og samstarfsfélaga sem eru mér eins og fjölskylda. Alltaf er gaman að taka á móti nýjum læknanemum og unglæknum og reyni ég ávallt að leggja mitt af mörkum til að gera þeirra starfsupplifun jákvæða. Það er aldrei að vita nema slíkt opni augu fyrir þeim möguleika að eiga starfsferil á landsbyggðinni og vonandi leiðir það í einhverjum tilvikum af sér fleiri farsælar U-beygjur eins og gerðist í mínu tilviki.Þetta vefsvæði byggir á Eplica