06. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Lögfræði 51. pistill. Starfsumhverfi og vinnuálag lækna

Um allan heim eru læknar dagvinnumenn. Þeir eru í dagvinnu á virkum dögum, venjulega frá klukkan 8 til 16. Þeim er einnig skylt að vinna yfivinnu og taka vaktir þar sem þess er þörf. Læknar eru þó undanþegnir vaktskyldu frá 55 ára aldri en fá smávegis umbun haldi þeir áfram að taka vaktir (grein 4.1.3 og 3.3.4 í kjarasamningi lækna).

Læknum er skylt að skipta með sér vöktum á viðkomandi starfseiningu. Vaktabyrði skal vera í samræmi við starfshlutfall nema um annað sé samið (2. og 3. mgr. greinar 4.4.1 í kjarasamningi lækna).

Eins og rakið var í síðasta pistli er þó óheimilt að skipuleggja vinnu hjá læknum, sem og öðrum sem enn vinna 40 klst. vinnuviku, í meira en 48 klst. á viku. Þetta leiðir af lagaákvæðum um skipulag vinnutíma og ákvæðum í lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins. Um þetta er fjallað í síðasta pistli og vísast til hans.

Samt gerist það sumar eftir sumar, á flestum ef ekki öllum heilbrigðisstofnunum, að vaktabyrði lækna er aukin til að tryggja að allar vaktir lækna séu mannaðar. Enda er aldrei talað um ómannaðar vaktir lækna. Læknir sem venjulega tekur fjór-, fimm- eða sexskiptar vaktir er á sumrin settur á tví- og þrískiptar vaktir svo vikum skiptir.

Til viðbótar kemur að vinnuálag lækna á vöktum, bæði staðarvöktum og gæsluvöktum, hefur aukist verulega á síðustu árum, meðal annars vegna skorts á læknum. Á staðarvöktum þýðir þetta að læknar þurfa að hlaupa hraðar, álagið er meira en boðlegt er, ekki síst útfrá öryggi sjúklinga.

Á gæsluvöktum þýðir þetta að læknar eru meira og minna að vinna frá því að gæsluvaktin hefst, oftast heima hjá sér því með vaxandi möguleikum á að sinna vinnu gegnum tölvu og síma geta læknar á gæsluvakt sinnt mjög stórum hluta vinnunnar sem upp kemur á gæsluvöktum að heiman. Þeir þurfa miklu sjaldnar en áður að fara í útkallið, þó hringt sé í þá vegna álitamála sem upp koma á stofnuninni meðan á gæsluvaktinni stendur.

Umbun fyrir gæsluvaktir samkvæmt kjarasamningi miðast hins vegar við að vera eingöngu greiðsla fyrir það að vera til taks, að svara strax símanum til að fara í útkall. Umbunin gerir ekki ráð fyrir að í henni felist greiðsla fyrir að vera meira og minna í símanum og tölvunni heima hjá sér.

Í aðdraganda þessara kjaraviðræðna var gerð könnun meðal lækna sem sýndi að 42,3% (210) læknar telja sig vinna í viku hverri 1-4 klukkustundir í yfirvinnu sem þeir fái ekki greidda, 32,1% (159) telja sig vinna 5-6 slíkar yfirvinnustundir og 11,9 % (59) 9 klukkustundir eða fleiri. Einungis 13,7% (68) töldu sig aldrei vinna yfirvinnustundir sem þeir fengu ekki greiddar. Heilbrigðisstofnanir kannast ekki við að greiða ekki fyrir unna yfirvinnu en upplifun lækna er önnur.

Í sömu könnun voru læknar spurðir hvort þeir hefðu íhugað af alvöru að hætta í starfi á liðnu ári vegna starfsumhverfis eða vinnuálags. Tæplega þriðjungur, 29,7% (161) hafði aldrei velt því fyrir sér, 18,2% (99) sjaldan, 26% (141) stundum og 26,2% (142) oft. Með öðrum orðum, liðlega 70% læknanna sem svöruðu höfðu á síðasta ári hugsað sjaldan, stundum eða oft um það hvort þeir ættu að hætta í starfi vegna starfsumhverfis eða vinnuálags. Þar af hafði liðlega fjórðungur leitt oft að því hugann. Þetta eru upplýsingar sem full ástæða er til að hafa áhyggjur af.

Vaxandi álag á lækna, bæði í dagvinnu þar sem of fáir læknar eru að sinna vinnunni, sem og á vöktum, bæði staðarvöktum og gæsluvöktum, er meðal þeirra atriða sem mikil áhersla er lögð á í yfirstandandi kjaraviðræðum.

Hvort samningar nást ræðst af því hvort stjórnvöld eru tilbúin til að horfast í augu við að núverandi ástand gengur ekki lengur.

Það þarf að fjölga læknum. Það þarf að bæta starfsumhverfi lækna. Öryggi sjúklinga kallar á að þetta sé gert. Sjúklingar eiga einnig rétt á þessu. Samkvæmt viðmiðum Embættis landlæknis um bið eftir heilbrigðisþjónstu á sjúklingur rétt á því að ná sambandi við heilsugæslustöð samdægurs, viðtali við heilsugæslulækni innan fimm daga, skoðun hjá sérfræðingi innan 30 daga og aðgerð/meðferð hjá sérfræðingi innan 90 daga frá greiningu.

Fjölmiðlaumfjöllun síðustu mánuði og misseri sýnir skýrt að heilbrigðiskerfið er langt frá því að virða þessi viðmið, sem þó eru skýr réttur sjúklinga.

1. Þessi viðmið eru aðgengileg hér: https://island.is/bid-eftir-heilbrigdisthjonustu.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica