05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

BRÉF TIL BLAÐSINS: Mikil aukning á tilfellum lekanda á Íslandi

Á Íslandi hefur faraldsfræði kynsjúkdóma löngum verið áþekk faraldsfræði nálægra landa og á síðustu árum hefur orðið aukning á greiningum lekanda og sárasóttar hér á landi sem og erlendis. Ekki er ljóst hverjar ástæður þessarar aukningar eru en breytt kynhegðun, minnkuð notkun smokka og aukin ferðalög hafa verið nefnd sem hugsanlegar skýringar. Aukin sýnataka getur skýrt hluta aukningarinnar.

Aukning á tilfellum lekanda (gonorrhoea) á Íslandi er mikið áhyggjuefni en heildarfjöldi tilfella hefur rúmlega tvöfaldast milli áranna 2022 og 2023 og er þetta mesti fjöldi sem greinst hefur á Íslandi í meira en 40 ár. Töluverður hluti einstaklinga sem smitast af lekanda eru með einkennalausa sýkingu eða væg einkenni (oftar konur). Lekandasýking í hálsi (pharyngeal gonorrheoea) er oftast einkennalaus.

Mikilvægt er að læknar séu meðvitaðir um þessa aukningu á lekanda og hafi í huga að senda sýni til greiningar á kynsjúkdómum við einkenni frá þvag- og kynfærum og auk þess að hafa lágan þröskuld á sýnatöku hjá einstaklingum sem hafa átt nýjan bólfélaga síðastliðið ár, þrátt fyrir að einkenni séu ekki til staðar.

U03-fig-1

Mynd 1. Nýgengi lekanda á Íslandi frá 1897 til 2023.

Erfðaefnisrannsókn (PCR-rannsókn) á lekanda er góð greiningaraðferð með góðu næmi. Þrátt fyrir að ræktun sé ekki jafn næm aðferð og PCR-rannsókn til að greina N. gonorrhoeae er ræktun jafnframt nauðsynleg eins oft og hægt er, til að greina næmi bakteríunnar fyrir sýklalyfjum. Við jákvæða lekanda-erfðaefnisrannsókn (PCR) skal taka strok frá viðkomandi svæði/svæðum til ræktunar áður en meðferð er hafin.1

Lekandi var algengur sjúkdómur á Íslandi mestan hluta 20. aldar en nýgengi sjúkdómsins var hvað mest milli stríðsáranna. Eftir árið 1990 dró mjög úr nýgengi sjúkdómsins en á síðari árum hefur það aukist á ný.2 Nýgengi lekanda árið 1978 þegar síðasti toppur náði hámarki var 264. Nýgengi árið 2023 var 89. (mynd 1).

Árið 2022 greindust 158 einstaklingar með lekanda á Íslandi.3 Tölur úr gagnagrunnum sóttvarnalæknis fyrir árið 2023 sýna að heildarfjöldi tilfella lekanda var 339. Tæplega 75% voru karlar og 25% konur og aukning varð bæði hjá konum og körlum (mynd 2). Tæplega 75% einstaklinga sem greindust 2023 voru með íslenskt ríkisfang en aukning varð bæði hjá fólki með íslenskt og erlent ríkisfang. Mestur heildarfjöldi tilfella var hjá karlmönnum 30-44 ára en mesta hlutfallslega aukningin meðal kvenna í aldurshópnum 20-29 ára. Hafa ber í huga að fjöldatölur á Íslandi eru litlar og varhugavert að draga of miklar ályktanir varðandi einstaka hópa. Frá árinu 2010 hefur hlutfall karlmanna með lekanda verið á bilinu 65-90%. Sjúkdómurinn hefur greinst að stórum hluta hjá körlum sem stunda kynlíf með körlum en ljóst er að hann er einnig að ná til annarra hópa.

Fjölgun tilfella lekanda hefur einnig sést í öðrum löndum Evrópu (ESB/EES). Víða hefur sést aukning í greiningum hjá yngra fólki (20-29 ára) og eru sérstakar áhyggjur varðandi ungar konur (20-24 ára) vegna hættu á alvarlegum sýkingum og ófrjósemi.4,5 Tilfelli lekanda í ESB/EES árið 2022 hafa ekki verið hærri síðan byrjað var að vakta kynsjúkdóma þar árið 2009. Aukning var mest í aldurshópnum 20-24 ára í bæði fyrir karla og konur, og tíðnin jókst mest hjá konum í aldurshópnum 20-24 ára. Karlmenn sem stunda kynlíf með körlum (MSM) voru meira en helmingur greindra (60%).6 Árið 2023 greindust fjölónæmar lekandabakteríur í nokkrum löndum, meðal annars ónæmi fyrir lyfinu ceftriaxone, sem er það lyf sem er mest notað í dag í meðhöndlun á lekanda. 

Enn sem komið er hafa ekki greinst lekandabakteríur á Íslandi með ceftriaxone-
ónæmi, en hins vegar hafa greinst lekandabakteríur á síðustu árum sem eru ónæmar fyrir azithromycin. Mörg lönd, þar á meðal Ísland, hafa þegar farið í gang með aðgerðir til að draga úr aukningu kynsjúkdóma. Þörf er á áframhaldandi aðgerðum gegn frekari útbreiðslu og mikilvægt að heilbrigðisstarfsfólk og almenningur séu vel upplýst og gott aðgengi sé að sýnatökum og meðferð. Hvatning til notkunar smokka við kynlíf og sýnatökur þegar við á, eru mikilvægar aðgerðir til að draga úr kynsjúkdómum. Þörf er á frekari rannsóknum á ástæðum aukningar lekanda nú. 

U03-fig-2

Mynd 2. Lekandi á Íslandi 2000-2023 eftir kyni.

Áframhaldandi vöktun er mikilvæg og ekki síst á sýklalyfjanæmi lekandabakteríunnar. Á síðasta ári voru gefnar út uppfærðar leiðbeiningar sóttvarnalæknis ætlaðar heilbrigðisstarfsfólki um greiningu og meðferð lekanda, klamydíu, sárasóttar og HIV og eru læknar hvattir til að kynna sér þessar leiðbeiningar.1 Lekandi er tilkynningaskyldur sjúkdómur.

Heimildir

1. Leiðbeiningar um greiningu og meðferð lekanda, klamydíu, sárasóttar og HIV. 2. útg. september 2023.
 
2. Ársskýrsla sóttvarna 2019.
 
3. Ársskýrsla sóttvarna 2022.
 
4. Folkehelseinstituttet. Gonoré fortsatte a öke kraftig i 2023: fhi.no/nyheter/2024/gonore-fortsatte-a-oke-kraftig-i-2023/
 
5. Eurosurveillance | Volume 29, Issue 10.
 
6. Gonorrheoea, Annual Epidemiological report for 2022. ECDC. ecdc.europa.eu/sites/default/files/documents/GONO_AER_2022_Report%20FINAL.pdf

 

 

 Þetta vefsvæði byggir á Eplica