05. tbl. 110. árg. 2024

Umræða og fréttir

Doktorsvörn frá Háskóla Íslands: Salvör Rafnsdóttir

Salvör Rafnsdóttir varði doktorsritgerð sína í læknavísindum við læknadeild Háskóla Íslands þann 5. apríl síðastliðinn. Ritgerðin ber heitið: Áhrif utangenaerfða á kælisvar spendýrafrumna.

 Andmælendur voru Anne Willis, prófessor við University of Cambridge, og Zophonías Oddur Jónsson, prófessor við líf- og umhverfisvísindadeild HÍ. Umsjónarkennari og leiðbeinandi var Hans Tómas Björnsson, prófessor. Auk hans sátu í doktorsnefnd Eiríkur Steingrímsson, prófessor, Erna Magnúsdóttir, dósent, Martin Ingi Sigurðsson og Sesselja Sigurborg Ómarsdóttir, prófessorar.

Úr ágripinu

Þekkt er að kæling frumna (32-36°C) eykur tjáningu fáeinna þekktra gena. Margt er á huldu um þá innanfrumu- og millifrumuferla sem kæling virkjar og kallaðir hafa verið kælisvarið. Kæling er notuð í læknisfræðilegum tilgangi til að fá fram taugaverndandi áhrif hjá sjúklingum sem hafa orðið fyrir miklum taugaskaða, svo sem eftir hjartastopp eða vegna súrefnisþurrðar í fæðingu. Verkefnið hefur aukið skilning á kælisvari spendýrafrumna, en mörg gen breyta tjáningu sinni við kælingu eða hafa áhrif á grunnlíkamshitastig lífvera eftir kælingu. Í ritgerðinni kemur fram hvernig kæling getur haft áhrif á genatjáningu fyrir tilstuðlan utangenaerfða. Einnig fundust tvö lyf sem geta haft áhrif á kælisvörun.

Doktorinn

Salvör Rafnsdóttir varð stúdent af náttúrufræðibraut Menntaskólans í Reykjavík. Hún lauk BS-prófi og kandídatsprófi í læknisfræði frá Háskóla Íslands árin 2016 og 2019. Doktorsnám hennar við Háskóla Íslands hófst árið 2019. Salvör var Fulbright Visiting Student Researcher vorið 2021 við Johns Hopkins University í Bandaríkjunum.

U14-Salvor-Rafnsdottir

Mynd /Gunnar Sverrisson

HVAÐ SEGIR NÝDOKTORINN?

Af hverju vildir þú verða læknir?

Ég hafði mikinn áhuga á erfðafræði, líffræði og efnafræði þegar ég var í menntaskóla. Mig langaði í krefjandi fjölbreytt nám sem byði upp á að ég gæti orðið vísindamaður, allavega stundað einhverjar rannsóknir. Mér fannst líka heillandi að geta haft marga starfsmöguleika í framtíðinni og „þurfa“ að flytja erlendis.

Hversu erfitt er að verða doktor á skalanum 1-10?

Oft var þetta ansi erfitt. Það kom fyrir að ég væri búin að framkvæma tilraun í marga langa vinnufreka daga til þess eins að komast að því að tilraunin gekk ekki upp eða mýsnar voru ófrjóar sem ég var að reyna að æxla síðustu mánuði eða við veðjuðum á vitlaust gen í staðfestingarferlinu eða frumurnar fengu sýkingu. Það getur verið ansi frústrerandi og á þannig stundum er doktorsnámið 10 í erfiðleikastuðli. En á móti þegar eitthvað gengur upp þá er það geggjað, 10 í hamingjustuðli. Nettó var doktorsnámið 8,5 í erfiðleikastuðli.

Hvað yrði þitt fyrsta verk sem heilbrigðisráðherra?

Í fyrsta lagi myndi ég vilja útbúa tilraunadýrarannsóknarstofu á Landspítala og færa hana undir ríkisfjárveitingar.

Í öðru lagi myndi ég vilja útbúa nýja braut við læknadeild, sem væri samþætt doktors- og læknanám, þar sem nemar fengju styrki í doktorsnámi á árum 4-6 í læknanáminu. Doktorsnámi fylgir oft launaskerðing eftir langt ólaunað nám-, fyrir útskrifaðan lækni og erfitt er að vinna upp launamismuninn með vaktavinnu þar sem rannsóknarvinnan krefst mikillar viðveru. Ef samþætta námið væri launað, þá myndi fýsileiki og ásókn læknanema í grunnrannsóknardoktorsnám hugsanlega aukast. Þetta gæti aukið áhuga á grunnrannsóknum, læknisstörfum tengdum grunnrannsóknum og gefið aðra sýn á læknisstarfið.

Í þriðja lagi myndi ég vilja setja á stofn sérstakan heilbrigðisvísindasjóð þar sem hægt er að sækja um „stofnkostnað tilraunastofu“ sem væri sérstakur stuðningur við unga vísindamenn sem væru að reyna að stofna sína eigin tilraunstofu. Það að geta fengið læknanema sem doktorsnema (þurfa bara að borga efniskostnað) og geta sótt um í þennan sjóð myndi kannski auka ásókn einhverra lækna heim eftir sérnám.

Hvaða bók, þættir, músík, líkamsrækt er best?

Þessa dagana er ég að æfa dönskuna mína svo ég verð að mæla með “Med livet i hænderne” á DR, góðir þættir sem gefa raunsæja sýn á sjúkrahúslífið.

Ég (því miður) hlusta mikið á prumpulagið þessa dagana, þar sem Kristjáni manninum mínum tókst ætlunarverk sitt sem hann tilkynnti hér í Læknablaðinu fyrr í vetur, að gera prumpulagið að uppáhaldslaginu hjá stráknum okkar.

Hef lítið náð að lesa annað en vísindagreinar og barnabækur síðustu mánuðina en sagan Allt um vígeðlur er uppáhaldssagan mín og Stígs, risaeðlustráks, þessa dagana.

Barnaburður er enn þá vinsælasta líkamsræktin hér á bæ en kerran hefur hlotið vaxandi náð fyrir augum drengsins síðustu mánuði, sem er kannski verra fyrir almenna heilsu foreldranna en betra fyrir bakheilsu þeirra.

Hvað er skemmtilegast að gera þegar þú ert ekki í vinnunni?

Fara í göngutúr í náttúrunni með strákunum mínum.



Þetta vefsvæði byggir á Eplica